Vandaður vinnuþjarkur

TEGUND: Opel Combo

Árgerð: 2019

Orkugjafi:

Akstursþægindi, búnaður, aðgengi í farþegarými
Smá veghljóð
138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Vandaður vinnuþjarkur

Ég hef oft spáð í það af hverju maður ætti að gera minni kröfur til vinnubílsins en einkabílsins.  Maður eyðir meiri tíma í vinnubílnum en fjölskyldubílnum og því ætti maður að gera kröfu um að slíkur bíll færi vel með mann, auðvelt væri að vinna í honum, gott að ganga um hann og bera allt sem maður þyrfti tengt starfinu.

Það gerir einmitt Opel Combo frá Bílabúð Benna.

Hægt er að fá Opel Combo með ýmsum aukahlutum, sjálfskiptan eða beinskiptan

Og það er meira að segja hægt að velja um þrjár útfærslur af bílnum eftir því hvað þú ætlar þér að nota hann í 

Auðvelt að hlaða. Tekur tvö EUR bretti þversum.

Reynsluakstursbíllinn var af gerðinni Opel Combo Enjoy en það er sú týpa sem boðin er með hvað mestum búnaði.  Alls er bíllinn boðinn í þremur útgáfum Essentia Basic, Essentia og Enjoy, sjálfskiptur eða beinskiptur.  Einnig er í boði Life útgáfa af Enjoy bílnum sem er 5 manna mjög rúmgóður fjölskyldubíll.

Hentugur í flest

Tökum sem dæmi iðnaðarmann sem þarf slatta af verkfærum og búnaði með sér hvern dag.  Hann gæti tekið bílinn með lúgu að aftan þannig að hann kæmi auðveldlega stiga aftur eða tekið langa Comboinn fyrir 200 þús. krónum meira.  Bíllinn tekur tvö EUR bretti á breiddina og það er ekkert mál að setja þau inn í bílinn með lyftara því dyrnar opnast í 90° horni við bílinn.  Rafvirki gæti komið upp hillukerfi og opnað svo bílinn öðru megin til að ganga um verkfærin en hinu megin til að ganga um efni og þessháttar því bíllinn er með rennihurðum báðu megin.

Hurðir opnast vel á alla vegu.
Frágangur á vörurými er til fyrirmyndar og stálþil á milli þess og farþegarýmis.

Opel Combo er sannarlega gerður til flutninga því nánast hvar sem litið er rekst maður á hentug hólf sem hægt er að geyma vinnutengda hluti. Opel Combo var útnefndur Van Of The Year 2019 af hópi 25 bílablaðamanna í Evrópu IVOTY.

Opel Combo var útnefndur sendibíll ársins í Evrópu 2019.
Vanað og þægilegt vinnupláss.

Þægindi fyrir vinnandi fólk

Sem sendibíll er náttla draumur fyrir hvern þann sem þarf að sendast að vera með bíl sem er þægilegur í akstri, gott að stíga inn í og fara út úr, beygir ótrúlega vel, með góðum og stórum hliðarspeglum sem vísa manni veginn inn í þröng stæði, bakkskynjara og blátannarbúnaði svo verkstjórinn geti hringt í mann á meðan maður er að tæma eða hlaða.  Opel Combo kemur með 1,5 l díselvél, beinskiptur með 6 gíra kassa sem skilar 130 hestöflum en Basic bíllinn, beinskiptur með 5 gíra kassa sem skilar 102 hestöflum. Sjálfskipti bíllinn er með sömu vél en með 8 gíra sjálfskiptingu. Uppgefin eyðsla frá framleiðanda er 4.3 l á hverja 100 og CO2 um 114 gr. á hverja 100 km.

Díselvélin er 1500 rms. og skilar 130 hestöflum.

Ég bauð frænda mínum með í reynsluaksturinn en hann var sendill í stóru fyrirtæki seint á síðustu öld.

Allt innan seilingar og 8 tommu margmiðlunarskjár.

Hann var eins og gamall togaraháseti þegar hann settist inn í Opelinn og sagði „Sendibílar voru ekki svona flottir í gamla daga“.  

Opel Combo er hinn laglegast bíll.

Það er nefnilega málið, búnaðurinn í bílnum er eins og í hverjum öðrum vel búnum fjölskyldubíl.  Opel Combo er sérlega þægilegur í akstri og létt stýrið gerir borgaraksturinn í þröngum götum Reykjavíkur afslappaðan og áhyggjulausan.

Hagnýtur búnaður

Sætin eru þægileg og gert til að endast. Bíllinn kemur með stálþili á milli farþega- og vörurýmis.  Það er gott pláss fyrir tvo farþega í bílnum en miðjusætið má fella niður og er þá orðið að borði sem hægt er að geyma afhendingarnótur eða aðra þá pappíra sem tilheyra vinnu dagsins.  Farþegasætið er síðan hægt að leggja niður og með einu handtaki og opna þilið aftur í vörurýmið og koma þannig um fjögurra metra löngum farmi inn í bílinn.

Ríkulegur staðalbúnaður í Essentia týpunni er meðal annars loftpúðakerfi hjá ökumanni, ESP stöðugleikastýring, aðgerðastýri með fjarstýringu, tvöfaldir styrktarbitar í hurðum, vökvastýri, fjarstýrðar samlæsingar, rafdrifnir upphitaðir speglar, rafstýrð handbremsa, rafdrifnar rúður, hæðarstillanlegt ökumannssæti með mjóbaksstuðningi  og svo mætti lengi telja.

Hægt er að opna þilið á milli vöru- og farþegarýmis og koma þannig lengri hlutum fyrir.

Enjoy útgáfan er að auki búin 8 tommu margmiðlunarskjá með Apple Carplay og Android Auto, hita í framsætum og stýri, sjálfvirka stillingu á háu ljósum, loftkælingu, umferðamerkjalesara, akreinavara og árekstrarviðvörun og fjarlægðaskynjara að aftan.  

Sérsniðnar lausnir

Enjoy bíllinn er með viðargólfi í vörurými sem gerir að verkum að auðvelt er að renna brettum á lyftara inn í bílinn auk þess sem farmur sem lagður er beint á gólfið rennur ekki fram og til baka í akstri.  Vörurýmið er síðan ríkulega búið festingum til að auðvelda tjóðrun farms.  Viðargólf og festingar eru hluti af aukabúnaði í boði.

Að auki er hægt að sérpanta heitklæðningu upp gólf og upp á hliðar sem gerir bílinn til dæmis mjög góðan kost í matvælaflutninga.  

Upphitað stýri, hraðastillir og stillingar fyrir hljómtæki í stýri.

Að auki er hægt að panta klæðningar í glugga og hliðar, dráttarbeisli, hliðarrúður með ísetningu og auka LED inniljós. Þess má geta að Opel Combo, Citroen Berlingo og Peugeot Partner eru framleiddir í samstarfi þriggja bílarisa og eru nánast allir sami bílinn en þó hver með sínum einkennum.

Okkar mat er að Opel Combo sé góður kostur borinn saman við helstu keppinauta en þar eru Fiat Doblo, Citroen Berling og Ford Transit Connect fremstir í flokki.  Verðin á þessum bílum eru svipuð nú í október 2019 nema hvað Fiat Doblo sker sig úr með lægra verð á svipuðum bíl.

Helstu tölur:

Flutningsrými: – 3,8 rúmmetrar

Stærð/m, l x h x b: 4403/1783/1848

Díseltankur: 52 lítrar

Burðargeta: – 902 kílógrömm

Þyngd: 1395 –1488 kílógrömm mv. vélarstærðir

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar