Reynsluakstur:
Toyota Aygo X
,
árgerð
2022
Umboð:
Toyota
Aksturseiginleikar, pláss frammí, búnaður
Lítið pláss í aftursætum

Toyota Aygo X er nýr og stærri smábíll

Hann er stærri, stinnari, hærri, lengri og breiðari. Hann heitir Toyota Aygo X og er hreinræktaður Toyota bíll sem sver sig í ættina. Útlitið byggir svolítið á nýrri línu Toyota samanber Yaris Cross og hinn alveg nýja Corolla Cross.

Skemmtileg hönnun nýs Aygo X sver sig í nýja línu Toyota.

Toyota Aygo X hefur verið kynntur hjá Toyota umboðsaðilum um land allt. Um er að ræða alveg nýja hönnun á þessum skemmtilega smábíl.

Aygo leit fyrst dagsins ljós árið 2005 og var þá einn af þríburum sem Toyota þróaði með Citroen og Peugeot og settir voru saman í Tékklandi.  

Samstarf þetta tók enda árið 2021 og hefur því alveg nýr bíll litið dagsins ljós.

Fullvaxinn smábíll

Toyota Aygo X er stærri en maður ímyndar sér þegar maður sest undir stýri. Bíllinn er 12,5 sm. breiðari, 23,5 sm. lengri og 5 sm. hærri en fyrirrennarinn.

Farangursrýmið er um 231 lítri og 60 lítrum stærra en á eldri gerðinni.

Hins vegar er rýmið í aftursætum það sama en Toyota ákvað að hönnunarbreytingin myndi gefa aukið farangursrými og rými fyrir ökumann og framsætisfarþega. Það hefur tekist svona ljómandi vel.

Skottpláss er umtalsvert meira en áður.
Nýr Aygo X er breiðari og lengri en forverinn.

Nýr Aygo X er örlítið hærri á vegi en áður en maður situr rúmlega 5 sm. hærra í bílnum en þeim gamla. Því tekur maður vel eftir því sjónlína er talsvert há og útsýni um fram-, aftur- og hliðarrúður mjög gott.

A bitinn í kringum framrúðuna skyggir lítið á útsýni og gefur þessum litla bíl afgerandi kosti miðað við marga aðra smábíla á markaðnum.

Áberandi afturendi setur svip sinn á bílinn.

Fullbúinn bíll

Grunntýpan af bílnum eins og Toyota á Íslandi býður hann er ágætlega búin. Sú heitir Aygo X Play. Í honum er meðal annars bakkmyndavél og lyklalaust aðgengi.

Millitýpan heitir Aygo X Pulse og er eins og bíllinn sem við fengum til reynslu.

Dýrasta týpan heitir svo Aygo X Limited og er alveg glymrandi flottur á 18 tommu felgum, tvílitur, með JBL hljómkerfi með Subwoofer, 9 tommu margmiðlunarskjá og fjórum fjarlægðarskynjurum að framan og aftan.

Led ljós og þokuljós í neðri hluta stuðarans.
Fínt aðgengi og hurðir opnast vel.
Frekar þröngt út- og innstig að aftan.

Í reynsluakstursbílnum var ennfremur skynvæddur hraðastillir, akreinavari og akreinastýring, umferðaskiltalesari og þráðlaus hleðsla á síma.

Nýi Aygo X er með þráðlaust samaband við Apple Carplay og Android Auto og stærri skjárinn kemur bara alveg þokkalega út.

Bakkmyndavél í 8 tommu skjá.

App tengdur

Með MyT appinu í símanum getur þú lesið skilaboðin, kveikt á kælingu í farþegarýminu eða opnað bílinn. Pulse týpan kemur tvílit en Limited týpuna getur þú pantað með þínu uppáhaldslitaþema.

Þannig getur þú kryddað útlit bílsins eftir þínu höfði.
Plássið frammí er sérlega gott og fínt pláss fyrir fætur. Jafnvel stórir einstaklingar eiga auðvelt með að sitja undir stýri.
Toyota Aygo X er búinn CVT stiglausri rafmagns sjálfskiptingu.

Hentar breiðum hópi

Nýi Aygo X fer sérlega vel með mann. Maður situr hærra, nægt fótapláss frammí og allt við hendina. Fjöðrun bílsins hefur fengið uppfærslu og þú finnur lítið sem ekkert við að aka yfir ójöfnur í malbiki.

Við prófuðum bílinn hinsvegar ekki á möl. Nýr Aygo X hefur til dæmis minni beygjuradius en VW UP en á svona litlum borgarbílum vill maður hafa bílinn lipran og að hægt sé að smokra honum í lítil stæði á auðveldan og þægilegan hátt.

Þráðlaus símhleðsla.

Aygo X er kemur með 3 strokka, 1 lítra vél sem gefur um 72 hestöfl og framdrifinn. Við hana er tengd CVT, stiglaus sjálfskipting sem gefur silkimjúka tilfinningu í venjulegum akstri. Ef menn ætla að vera þungir á bensíngjöfinni lætur CVT skiptingin hins vegar í sér heyra.

Það kann að vera að menn þurfi að venjast svona skiptingu og finna smátt og smátt hvernig notkun hentar hverju sinni.

Þriggja strokka, 1 l. vélin gefur um 72 hestöfl.
Skýr og þægilegur upplýsingaskjár í mælaborði.

Klikkar ekki á smáatriðunum

Þessi nýi smábíll er að okkar mati mjög vel heppnaður og mun hagnýtari og þægilegri en áður. Bíllinn hentar efalaust vel í þjónustu fyrirtækja sem lítill þjónustubíll og erum við þá að tala um grunngerðina í því tilliti.

Millitýpan, sem er mjög vel búin hentar jafnt fjölskyldufólki með smábörn í skrepp og skutli eða eldri hjónum sem vilja lipran og þægilegan bíl að skottast á í borginni.

Í stýrinu er hægt að nálgast öll helstu stjórntæki bílsins. Meðal annars skynvædda hraðastillinn.
Reynsluaksturbíllinn var á 17 tommu felgum en Limited týpan kemur á flottum dökkum 18 tommu felgum.

Það er svo Limited týpan fyrir þá sem vilja skera sig úr og ef til vill tengja fatastíl sinn við bílinn. Á Limited týpunni er mögulegt að velja úr fjölda sterkra litatóna sem undirstrika persónuleika eigandans sem og bílsins.

Helstu tölur:

Verð á reynsluakstursbíl: um 3.700.000

Hestöfl: 72 hö.

Vél: 1.000 rms., þrír strokkar.

Tog: 93 Nm.

Eyðsla bl.ak.: 5.0 ltr/100km.

Eigin þyngd: 940-1.015 kg.

L/B/H 3.700/1.740/1.525 mm.

Myndataka og myndvinnsla: Dawid Galiński.

Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson.

Gefið út þann:
27/5/22
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.