Reynsluakstur:
MG EHS
,
árgerð
2021
Umboð:
BL
Búnaður, tækni, hönnun og aksturseiginleikar
Takkinn til að opna bensínlok of neðarlega

Stóri bróðir kominn sem tengitvinnbíll

Hann er nýlentur hjá umboðinu. Við erum að tala um MG EHS, nýjan tengitvinnbíl en litli bróðir hans ZS hefur svo sannarlega vakið eftirtekt á rafbílamarkaðinum. Þessi nýi tengitvinnbíll kemur heldur betur á óvart fyrir flotta hönnun, góðan frágang og akstursþægindi.

Stórhuggulegur MG EHS tengitvinnbíll.
Afturendinn er sportlegur og öflugur í senn. Takið eftir LED stefnuljósunum.

Leiðandi í  Kína

Bíllinn er framleiddur af einum stærsta bílaframleiðanda í Kína, Saic Motor sem stofnað var árið 1955. Fyrirtæki undir hatti Saic Motor framleiðir um sjö milljónir bifreiða á ári.

Luxury útgáfa

BL býður MG EHS mjög vel búinn. Um er að ræða Luxury útgáfu sem er hreinlega einn með öllu. LED aðalljós, rafopnanlegan hlera að aftan og 360° myndavél með sýndarveruleika. MG EHS kemur meðal annars með akreinavara, skynvæddum hraðastilli, umferðaskiltalesara, fjarlægðarskynjurum að framan og aftan og snilldarlega útfærðri blindhornaviðvörun.

Sú virkar þannig að það blikkar ljós neðst við gluggann sem ökumaður sér útundan sér án þess að þurfa að taka augun af akbrautinni.
MG EHS er þægilegur í akstri og aflið er nægt. Falleg hönnun að innan sem utan einkennir bílinn.

Mjög vel búinn

Að auki eru allskyns þægindaaukar eins og rafdrifin framsæti, sportsæti sem halda verulega vel við bak og lendar og gott að sitja í þeim. Svo er bíllinn búinn rafdrifnu glerþaki og sjálfvirkri stillingu aðalljósa stemningslýsingu sem stilla má á óteljandi vegu.

Fullkomin tækni. Hér sjáum við mælaborðið í MG EHS. Allt stafrænt.

Öryggi á öryggi ofan

MG hefur tekið öryggismálin alvarlega. MG EHS er meðal annars búinn aftanákeyrslu viðvörun, aðvörun á hliðarumferð, neyðarbremsuaðstoð og neyðarhemlun og hann er búinn hliðarloftpúðum, gardínuloftpúðum og aftengjalegum loftpúða fyrir farþega.

Bensínútgáfa bílsins fékk fimm stjörnur á EURO NCAP prófinu.
Nýr MG EHS er búinn öflugum öryggisbúnaði.

Kínverjar ætla sér stóra hluti á rafbílamarkaði, koma sterkir inn og með þessu rótgróna bílamerki, MG hyggjast þeir ná til Evrópubúa sem gera hámarkskröfur til öryggis og tækni.

Nægt afl

MG EHS er búinn 1,5 lítra 160 hestafla bensínmótor og 120 hestafla rafmagnsmótor. Saman gefa þeir bílnum um 260 hestöfl og um 250 Nm hámarkstog. Enda er nægt afl þegar stigið er á orkugjöfina. Rafhlaðan sem hesthúsar um 17 kWh gefur heildarorku í um 52 kílómetra á rafmagni einu saman skv. WLTP staðlinum.

Eyðslutölur eru um 2 lítrar á hundraðið. Rauntölur gætu verið örlítið hærri eða á milli 3 og 4 lítrar á hundraðið. Rafhlaðan er með vökvakælingu. Dráttargetan er um 1500 kg.
Veghæð er tæpir 15 cm. Bíllinn er léttur og hljóðlátur í akstri.

Tækni sem virkar

Aksturinn er þægilegur. Bíllinn liggur vel á vegi og stýrið er þægilegt – hvorki of létt né þungt. MG hefur þróað svokallað XDS mismunadrif sem virkar þannig að stjórnkerfi bílsins deilir ávallt nægu afli til hvers hjóls. Þannig verður bíllinn stöðugri í beygjum og minnkar hættu á yfirstýringu. Í þeim aðstæðum sem við búum við til dæmis varðandi Vesturlandsveginn og hringtorgin þar – ætti þessi tækni að koma í veg fyrir þá hættu að við skríðum út úr beygjunni þegar akbrautin er blaut.

Hurðir opnast vel og plasthlíf lokast yfir sílsinn. Þannig helst sílsinn hreinn og maður óhreinkar sig síður við að umgangast bílinn.
Léttar og þægilegar hurðir opnast vel.

Að auki er fjöðrunin nægilega stíf og alls ekki og stinn. Sætin eru sérlega góð og halda vel við bak og læri. Maður situr hátt í bílnum og sest inn í hann en ekki ofan í. Hæð undir lægst punkt eru tæpir 15 cm.

Tæknin í þessum bíl vekur athygli. Margmiðlunarkerfið er keyrt á 10,1 tommu skjá sem virkar nánast eins og spjaldtölva. Mælaborðið 12,3 tommur, algjörlega stafrænt og með mjög skemmtilegri hönnun.

Á því er á einfaldan hátt hægt að sjá allt sem skiptir máli í akstrinum – stór skjár sem sýnir til dæmis myndrænt orkueyðslu ásamt upplýsandi samantekt um aksturinn.
Tæplega tveggja fermetra glerþak með opnanlegri sóllúgu.
Nægt pláss afturí fyrir tvo til þrjá fullorðna þó svo að framsæti séu stillt fyrir hávaxinn ökumann og farþega frammí.

Góður kostur

Í heildina má segja að hér sé um að ræða áhugaverðan bíl sem kemur á óvart. MG EHS er sérlega vel búinn bíll, fullur af tækni og þægindum og á frábæru verði. Luxury bíllinn er boðinn á 5.450 þús. sem teljast verður gott miðað við samkeppnina.

MG EHS er framdrifinn tengitvinnbíll og keppir þannig við bíla eins og Ford Kuga og Volvo XC40 en sambærilegar útgáfur þeirra kosta talsvert meira.
Skotthlerinn er rafdrifinn.
Rúmlega 520 lítra farangursgeymsla.

Lítið sem hægt er að finna að

Eina sem við tókum eftir að þegar við óskum eftir fullri orku við inngjöf verður stýrið pínu stressað eða eins og það búist ekki við svoleiðis átökum enda bíllinn ekki sportbíll þannig séð. Það tók stýri MG aðeins nokkrar sekúndur að átta sig á þessu og vann svo fullkomlega með ökumanninum eftir að bíllinn var kominn á ferð. Einnig var langt að teygja sig í opnun bensínloksins – en það er nú ekki mikið mál því það þarf afar sjaldan að nota það á hinum eyðslugranna MG EHS. Það tekur um fjóra og hálfan tíma að fullhlaða í venjulegri heimatengingu.

Þú hleður bílinn á um þremur tímum í heimahleðslu og nokkrum mínútum í hraðhleðslu. MG EHS endurhleður umframorku í akstri. Að auki er hægt að hlaða með bensínvélinn í akstri.

Vel þess virði að taka reynsluakstur

Venjulegur borgarakstur er algjörlega átaklaus og þægilegur. Aflið er aldrei langt undan og ekki var bíllinn síðri á Sæbrautinni og leyfðum við okkur að fara aðeins yfir hámarkshraða – allavega á smá kafla. Þökk sé 6 gíra sjálfskiptingu og 4 þrepa aflrás rafmagnsmótors sem gera bílinn þannig að þú finnur nánast aldrei fyrir að bíllinn sé að skipta sér.

Pláss fyrir fætur er prýðilegt, bæði frammí og afturí og áklæðið á sætunum hið þokkalegasta – gervi leður.
Bíllinn er skemmtilega hannaður og allstaðar er vandað til verka.

Helstu tölur:

Verð frá: 5.450 þús. kr.

Vél: 1.5 rms. PEHV (Plug-in hybrid).

Hestöfl: 258.

Rafhlaða: 16.6 kWh.

Hámarkstog: 250/1700 - 4300 Nm/sn/mín.

0-100 k á klst: 6.9 sek.

Hámarkshraði: 190 km/klst.

CO2: 43 gr/km.

Eigin þyngd: 1751 kg.

L/B/H 4574/1876/1685 mm.

Gefið út þann:
1/3/21
í flokknum:
Sportjeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Sportjeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.