Reynsluakstur:
VW eUp
,
árgerð
2020
Umboð:
Hekla
Hönnun, tækni
Verð

Spenntur smáborgari

Þegar ég var 17 ára var aðeins tvennt í mínu lífi sem skipti einhverju máli. Bensínverð og stelpur. Bensínverð flökti upp, niður, fram og til baka og virtist alltaf vera ómögulegt fyrir mig að hafa bensín í bensíntanknum á mínum fyrsta bíl. Bensínið hvarf úr tanknum alveg jafn hratt og stelpurnar sem ég reyndi að tala við. Það er því blessun og gífurlega jákvæð þróun að kominn sé loksins bíll á markað sem gengur fyrir rafmagni, er tiltölulega ódýr og er hannaður fyrir fólk sem kann á snjallsíma.

VW up! kom á markað 2011 og er hannaður til að vera ódýr smábíll fyrir borgir. Hann var líka hannaður frá grunni með möguleika á að hvaða orkugjafi sem er gæti knúið hann áfram. Fyrst komu bensín og dísil vélar í bílnum, svo bættust við metan og rafmagn. Mér hefur fundist VW up! alltaf verið einkar fallegur bíll og ég kann vel að meta útlit hans. Það var því gleðidagur þegar mér bauðst að prufa nýjustu útgáfuna af e-up! nýlega.

Bíllinn kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Hér er ekki að finna neinar afsakanir fyrir því að hann sé lítill og ódýr borgarsmábíll sem kostar minna en sum rafmagnshjól.

Innanrými VW up! hefur líka tekið breytingum yfir árin. Aðeins hefur verið fiktað í efnisvali og útliti mælaborðsins en heildar ásýndin hefur fengið að njóta sín. Í nýjustu útgáfunni er að finna skrautlista sem lyfta aðeins innanrýminu. Í miðju mælaborðinu er útvarp með öflugum magnara og USB tengi. VW menn hafa gefið okkur, sem eigum og lifum í snjallsímum, sérstakan haldara ofaná mælaborðið til að halda á símanum. Sérstakt smáforrit er til frá Volkswagen grúppunni fyrir leiðsögn og helstu tölur bílsins sem aðrir bílar sýna þér í mælaborðinu. Þessi lausn er algjör snilld að mínu mati. Bíllinn þarf ekki að fara í þjónustuskoðun til að fá uppfærslu á leiðsögukerfinu og þú losnar við að spyrja sömu spurningarinnar í milljónasta skiptið í eigendagrúppuni á Facebook.  

Það eru því engin forrit hönnuð af verkfræðingum heldur hafa þau öll hlotið meðferð sérfræðinga í notendaviðmóti. Ekkert hólf fyrir geisladiska, kassettur, floppy diska eða aðra tækni sem dó eftir að Skítamórall fór af topp tíu lista FM957.

Þetta gerir það að verkum að upplifun þín yfir Volkswagen up! er líkt og þú sért heima í símanum, nema þú færð að skjótast á milli staða á frábærum borgarbíl. Það er þægilegt að sitja í up! enda sætin hátt frá gólfi og stillanleg á marga vegu. Efnisvalið á sætunum er sérstaklega gott. Höfuðrými er til fyrirmyndar og svo lengi sem þú ert ekki á stærð við bílinn sjálfann er lítið mál að koma sér eða barnabílstól fyrir í aftursætinu þökk sé ágætlega stórum afturhurðum. Þar er fótapláss einnig prýðisgott og hæð sætis til fyrirmyndar.

Aksturseiginleikar VW e-up! njóta sín líka gífurlega vel. Svo lengi sem þú ert ekki á nagladekkjum mæli ég sérstaklega með að rúnta um miðbæ höfuðborgarinnar eða miðbæ Ísafjarðar á VW e-up! því togkraftur rafmagnsmótorsins er snilld. Loksins er bíllinn búinn að fá þá snerpu og hröðun sem hann hefur alltaf átt skilið en aldrei í raun fengið með bensín eða dísil mótorum. Stærðin hans leiðir mann svo áfram í að átta sig á að ekkert mál er að troða sér um allra þrengstu götur sem til eru. Ekkert mál er að leggja í bílastæði þökk sé bakkmyndavél og útsýninu út úr bílnum öllum. Hjólin eru eins nálægt hornum bílsins og lög leyfa. Smá stærðin gerir þér einnig kleyft að átta þig vel á hvar hann endar svo að segja. Þrátt fyrir smáa stærð er hann þó rásfastur og ánægjulegt er að keyra hann.

Lokaorð

Hún er víð og breið flóran af bílum á markaðinum í dag. VW e-up! er ánægjuleg viðbót við hana og ætti vel heima ofarlega á listanum yfir bíla sem þú ert að íhuga til að nota í innanbæjar snattið. Hann er ekki flókinn, einfaldur í notkun og notar tækni frá fyrirtækjum sem kunna að hafa ofan af fyrir þér. Taktu hann í Style útfærslu og hakaðu við eins mörg box á aukahlutalistanum og þú hefur efni á eða yfirdrátturinn leyfir. Skelltu þér svo á ísrúnt og njóttu þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af olíuverðinu.

Gefið út þann:
22/6/20
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt
Aðeins öðruvísi í laginu
Framúrskarandi tækni

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.