Reynsluakstur:
Lexus UX
,
árgerð
2020
Aksturseiginleikar og karakter
Stærð á skotti

Snjall, sexý, lipur

Ég held að það sé ekki erfitt að búa til bíla. Passaðu að hann sé með fjögur hjól, eitt stýri, þægilegt sæti og hafi útlitið með sér. Svo má endilega vera gott að keyra hann og hagnýttað eiga hann. Þá ertu kominn með góðan lista af hlutum fyrir hinn fullkomna bíl. Lexus UX er lítill jepplingur sem stenst margar ofangreindar kröfur.

Sjaldan hefur verið jafn fjölbreytt úrval af bílum í boði á Íslandi og um þessar mundir. Línan hjá Lexus hefur hingað til ekki boðið bíl í þessum stærðaflokki og er nú loksins kominn frá framleiðandanum lítill smájeppi til að fylla upp í það gat. Lexus hefur kallað hann UX og orðið snjalljeppi er notað í markaðsefninu um hann. Því er ég alveg sammála, því það væri alveg snjallt að fá sér Lexus UX.

Gæði og góð smíði

Það sem helst einkennir Lexus UX er samsetningin á bílnum. Það er þægilegt að vera innan í honum og hann ber útlitið með sér. Stórt grillið sver sig í ættartré Lexus og innanrýmið er eins og smækkuð útgáfa af innanrými Lexus ES sem ég reynsluók nýlega þegar þessi orð eru skrifuð. Það magnaða við Lexus UX er hversu hljóðlátur hann er. Tvöfalt hljóðeinangrandi gler hjálpar þar mikið og jafnvel út á vegi við löglegan hámarkshraða er heyrist lítið veghljóð.

Mælaborðið í Lexus UX er smekklegt og fallegt. Hér ráða góð efni ríkjum og hönnunartungumál Lexus fær að njóta sín í hvívetna.
Stafrænt mælaborðið er auðlesið og veitir mikið af handhægum upplýsingum.
Lexus UX varpar akstursupplýsingum á framrúðuna.
Að innan er ekkert mál að koma sér vel fyrir. Hár armpúði í miðjunni, auðstillanlegt sætið, þráðlaus hleðsla og sæti sem faðma líkama þinn. Það skemmir svo ekki fyrir að hægt er að spila mjög hátt í gegnum Mark Levinson hvaða tónlist sem þú vilt. Jafnvel þó að þú setjir Leoncie á fóninn skilar kerfið fullkomnum hljóðgæðum til þín.
Ljóst leðrið fer frábærlega við innanrými Lexus UX og er greinilegt að mikið hefur verið lagt í allt efnisval.
Þægileg stjórntækin eru þétt og virkni þeirra einföld og auðskiljanleg.

Það er hvergi að finna í Lexus UX slæman frágang á teppum eða í innréttingunni. Miðjuskjárinn er einstaklega vel settur saman og sæmir sér vel efst á mælaborðinu. Allir saumar í innréttingunni eru þráðbeinir og líta allir nákvæmlega eins út. Ef þú þjáist af fullkomnunaráráttu og vilt njóta þess að vera á stað sem fer ekki í taugarnar á þér, þá er Lexus UX málið.

Það er auðvelt að ganga um Lexus UX þökk sé góðu aðgengi í gegnum hurðirnar.
Skottið í Lexus UX er með alveg flötu gólfi og rúmar 320 lítra.

Vélarbúnaður sem virkar

Tvinntæknin (e. hybrid) í honum er nokkuð snjöll. Þetta er fjórða kynslóð kerfisins frá móðurfélaginu Toyota og er það án efa eitt það besta sem völ er á. Bíllinn skýst af stað á rauðum ljósum og rafmagnið bætir upp bensínvélina þar sem hún á erfiðast með að skila sínu afli.

Vélarsalurinn í Lexus UX er smekklegur. Kerfið allt skilar 131 hestafli.
Það er líka furðulegt hversu mikið hlóðst inná rafhlöðuna bara við það eitt að aka venjulega um borg og bæi.

Þetta gerir bílinn skemmtilegan í akstri og ánægjulegt að skjótast á milli staða á honum, hvort sem um er að ræða tvo metra eða tvöhundruð þúsund. Sætishæðin á bílnum gerir það svo að verkum að útsýni út úr honum er með ágætum og stórir speglarnir gera það auðvelt að eiga við umferðina á höfuðborgarsvæðinu. Þegar kemur að því að leggja honum í stæði fær maður svo að nota frábæra 360 gráðu myndavél. Þú getur ýtt á takka og fengið fljúgandi yfirlitsmynd af því hvað er í kringum bílinn og hvort óhætt sé að skella honum í stæðið eða ekki.

Lokaorð

Lexus UX er mættur á svæðið tilbúinn til að takast á við aðra snjalljepplinga sem keppa á móti honum. Hann er þægilegur í umgengni, gott að fara út og inn úr honum og pláss fyrir allt það helsta sem þú vilt. Hann hefur svo sannarlega útlitið með sér og því fylgir frábært tvinnkerfi og góðir aksturseiginleikar sem hægt er að njóta í hljóðlátu innanrýminu, eða spilandi uppáhalds tónlistina þína. Ég mæli með Lexus UX fyrir alla þá sem eru að leita sér að minni jepplingi sem er vel settur saman, lítur vel út og gaman að keyra hann. Taktu hann í Comfort útgáfu og koparrauðan eða himinnbláan ef þú þorir. Mundu svo að passa að Mark Levinson Hljóðkerfið og 360 gráðu myndavélina til að geta skoðað allt í kringum bílinn áður en þú leggur af stað.

Ef þér lýst á’ann, kauptann!

Gefið út þann:
24/1/20
í flokknum:
Sportjeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Sportjeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.