Reynsluakstur:
Kia Stonic
,
árgerð
2019
Umboð:
Kia
Góður búnaður og góð yfirsýn. Gott verð
Full mikið veg- og mótorhljóð

Skemmtileg hönnun á eigulegum bíl

Ef þú vilt eiga lítinn og lipran fólksbíl, sem er með „jeppaútliti“ og býður upp á skemmtilegar litasamsetningar og veitir þér góða yfirsýn fram á veginn þá er Kia Stonic hugsanlega rétti bíllinn fyrir þig

Eftir nokkurt hlé í reynsluakstri hjá þeim sem þetta skrifar var ákveðið að taka Kia Stonic til nánari skoðunar. Þessi bíll er í raun byggður á grunni Kia Rio, og þar með minnstur þeirra bíla sem Kia býður upp á í þessum flokki sem framleiðandinn vill kalla „sportjeppa“ (SUV) en er í raun upphækkaður fólksbíll með framhjóladrifi.

Skemmtilegt yfirbragð, há staða frá jörðu og flott hönnun á framenda gera það að verkum að það er tekið eftir Kia Stonic á götu.
Af hálfu Kia er Stonic teflt fram gegnt bílum eins og Renault Captur og Citoen C3 Aircross. Hvað útlitið varðar þá hefur ekkert verið sparað til að búa til rétta ímynd, meiri veghæð, góðir þakbogar og útvíkkaðir hjólbogar undirstrika þetta enn frekar.
Að aftan setja afturljósin og rauð vindskeiðin efst á hleranum sinn svip á útlitið. Plasthlífin neðst virkar samt svolítið út úr stíl.
Flott hönnun á afturljósunum sem falla vel að heildarútliti bílsins.

Skemmtilegar litasamsetningar gera líka sitt til að undirstrika enn betur sérstöku Stonic, 29 mismunandi litasamsetningar virðast vera í boði. Reynsluakstursbíllinn var til dæmis tvílitur og með rauðan áherslulit á þaki, hliðarspeglum og vindskeið efst á afturhlera.

Lítil vél en ágætlega öflug

Kia Stonic er aðeins í boði með einni vélarstærð, 1,0 lítra þriggja strokka með forþjöppu, sem gefur 120 hestöfl við 6000 snúninga á mínútu. Hámarkssnúningsvægi er 171,5 Nm á sviðinu 1500 til 4000 snúningar sem dugar vel til að skila bílnum örugglega áfram. En það fer ekki á milli mála að vélin er að skila afli þegar stigið er á eldsneytisgjöfina, því þá „murrar“ hún vel undir vélarhlífinni og það heyrist vel inni í bílnum.

Framljósin gefa bílnum einnig skemmtilegt yfirbragð.
Stiglaus 7 þrepa sjálfskipting hentar þessari vél mjög vel og er fljót að finna jafnvægi í venjulegum akstri. Í raun tók það mig fleiri kílómetra að ná inn jafnvæginu á milli inngjafar og hraða en ég hefið haldið í byrjun og í lok þessa þriggja daga reynsluaksturs voru við búnir að ná fínu sambandi, bíllinn og ég.
Margur er knár þótt hann sé smár. 3ja strokka eins lítra vélin, sem er 120 hestöfl, skilar bílnum vel áfram og ekki skemmir að hún er búin góðri forþjöppu

Aðeins um vélar- og veghljóð

Það kom nokkuð á óvart hve veghljóð var mikið í svona nýjum bíl. Vissulega er bundið slitlag hér á landi mjög svo frábrugðið því sem er í nágrannalöndunum. Munar þar örugglega mikið um lélegri steinefni í malbikinu, og notkun nagladekkja. Þar er ég að bera saman góða reynslu af akstri í útlöndum á bílum af svipaðri stærð en með mun minna veghljóði.

Gott samræmi á framenda, framljósin falla vel að framhornunum

Það var því kærkomið að bera saman mismuninn þar sem búið er að malbika nýja vegarspotta hér á höfuðborgarsvæðinu og eldra yfirborð. Á Vesturlandsveginum með gömlu vegyfirborði mældist 68 til 72 db hávaði í miðjum bílnum á 80 km hraða, en um leið og komið var á splunkunýtt malbikið datt hávaðinn niður í 60 til 62 dB. Á nýju malbiki innan hverfis á 40 km hraða fer veghljóðið niður fyrir 55 dB.

Við inngjöf bætist murrið frá vélinni við veghljóðið og samtals er þetta meira vélar- og veghljóð en ég hefði mátt ætla að væri til staðar – en á þriðja degi var það farið að venjast og hætti í raun að skipta verulegu máli.

Kvikur í stýri

Eitt hið fyrsta sem maður tekur eftir er hve léttur og kvikur í stýri Stonic er. Í kyrrstöðu og þegar verið er að leggja í stæði er hægt að snúa stýrinu með einum fingri, svo létt er það í snúningi. Ég hefði hins vegar kosið að það væri ekki alveg svona lipurt í akstri á stofnbrautum og þjóðvegum, því þar átti hann það til að leita aðeins til hliðar ef ekki var vel að gáð.

Séð frá hlið sést vel hve Stonic er með háa stöðu frá vegyfirborði.
Akreinaaðstoðin er á hinn bóginn fljót að láta vita ef bíllinn leitar yfir hliðarlínu og það er fínn kostur.
Þegar horft er á bílinn að aftan sést vel hve hátt er upp í farangursrýmið.

Góð en nokkuð stíf fjöðrun

Fjöðrunin í Stonic er nokkuð stíf, sem mér finnst mjög góður kostur á svona bíl venjulegum akstri, Hún gerir það samt að verkum á gömlu og slitnu vegyfirborði er eins og bíllinn sé að leita að réttri stöðu og á því til að rása aðeins. Þétt fjöðrunin gerir það líka að verkum að bíllinn finnur vel fyrir ójöfnum og hraðahindrunum. Hugsanlega gæti þessi bíll verið mun skemmtilegri á lélegu íslensku vegyfirborði ef það væri ekki búið að hækka hann upp í 17 tommu álfelgur, 16 tommur með meira gúmmí væri sennilega betri kostur hér á landi.

Gott aðgengi að framsætum sem veita ágætan stuðning í akstri. Aðgengi að aftursætum er aðeins of þröngt en sætin eru ágæt. Fótarými mætti vera betra.
Farangursrýmið er ekki í stærri kantinum en dugar vel í venjulegu borgarumhverfi. Það rúmar 352 lítra í þeirri stöðu sem er á myndinni en hægt er að leggja bak aftursætis fram 1/3 – 2/3 eða allt í einu.

Góð yfirsýn og þægilegt mælaborð

Af því að hönnuðir Kia hafa farið í smá „jeppaleik“ við hönnunina á Stonic, þá er yfirsýn yfir veginn fram undan og til hliða góð í þessum bíl. Ég hefði samt þegið að þeir hefðu tekið „jeppahönnunina“ alla leið því ökumaðurinn situr frekar lágt með fætur í lágri stöðu. Þarna hefði ég kosið að sætið væri hærra frá gólfi (búið að hækka það eins og hægt er).

Mælaborð og stjórntæki í Kia Stonic svarar öllum grunnþörfum og stjórntæki eru þægileg í notkun.
Ég er hins vegar svo gamall að ég var mjög ánægður með yfirbragð mælaborðsins. Þarna eru „gamaldags“ mælar sem veita góðar upplýsingar um allt sem þörf er á, og á litlum LCD-skjá í miðju er hægt að kalla fram ýmsar notadrjúgar upplýsingar.
Upplýsingaskjárinn í miðju mælaborðsins þjónar vel sínum tilgangi

Meira að segja þegar rúðuþurrkur eru settar á þá birtist augnablik á skjánum hver staða stillingarinnar er!

Fyrir miðju er síðan 7 tommu skjár með helstu upplýsingum um bílinn, útvarp og Apple Car Play svo dæmi sé tekið.

Fullt af þægindatriðum

Kia Stonic er með full af notadrjúgum þægindatriðum. Sem dæmi má nefna hita í stýri og framsætum, góða bakkmyndavél (sem birtir mynd af því sem er fyrir aftan bílinn á stóra skjánum í miðju mælaborðsins), hraðastillir (cruise control) svo fátt eitt sé nefnt.

Skemmtileg hönnun er á þakbogunum á Stonic.
Reynsluakstursbíllinn var af EX-gerð og því með viðbótarbúnaði umfram grunngerðina Stonic X. Þar má nefna bæði AEB-árekstrarvara og LKAS-akreinavara, Tölvustýrða miðstöð og ljós í sólskyggni (sem mér finnst nú að ætti að vera staðalbúnaður í grunngerð allra bíla). Þá er ragnskynjari sem setur þurrkur af stað ef það fer að rigna glampavörn á baksýnisspegli og þokuljós.
Reynsluakstursbíllinn ver með eina af 29 mögulegum litasamsetningum og hér sést vel hve vel þetta fer á vindskeiðinni að aftan.

Ágæt sæti og farangursrými

Það fer í heildin vel um mann í Kia Stonic. Sætin eru ágætlega formuð og styðja nokkuð vel við líkamann. Eins og kom fram hér að framan þá mættu framsætin vera hærra frá gólfi en venst ágætlega. Aftursætin eru einnig nokkuð góð, en fótarými mætti vera betra. Sætin koma eiginlega á óvart og sæmilega gott aðgengi að þeim.

Farangursrýmið er bara nokkuð gott í ekki stærri bíl. Með aftursæti í uppréttri stöðu rúmar það 352 lítra, en fer upp í 1155 lítra þegar búið er að leggja aftursætisbakið alveg niður (hægt er að leggja sætisbakið fram 1/3 -2/3). Hins vegar er nokkuð hátt upp í opið að farangursrýminu, en þar spilar hönnunin á afturenda bílsins inn í.
Rauðir hliðarspeglarnir eru skemmtileg undirstrikun á því að fleiri en einn litur getur komið vel út á bíl sem þessum.

Niðurstaða

Ég var alveg á báðum áttum um Kia Stonic við upphaf þessa reynsluaksturs. Fullt af ómerkilegum smáatriðum virtust þvælast fyrir mér og ég var ekki viss um hvort ég vildi eiga svona bíl.

Niðurstaðan eftir þrjá dag var hins vegar sú að þetta er bíll sem vex hratt í áliti og þegar ég skilaði lyklunum var ég kominn á þá skoðun að þetta er bíll sem hentar mér ágætlega. Þar sem ég er orðin nokkuð gamlaður þá hentar það mér mjög vel að vera með bíl sem er aðeins hærra frá jörðu. Inn- og útstig er einfaldara og yfirsýn fram á veginn er mjög góð. Þetta er því bíll sem ég myndi mæla með fyrir alla, en sérstakleg þá sem eru aðeins eldri vegna þessara fyrrnefndu kosta.

Hafa ber í huga að reynsluakstursbíllinn var af gerð Kia Stonic EX, sem þýðir að hann var betur búinn en grunngerðin og það hefur án efa haft áhrif á þess niðurstöðu.

Þegar þetta er skrifað kostar grunngerðin, Stonic X kr. 3.440.777 með sex gíra handskiptum gírkassa og kr. 3.640.777 með sjö þrepa sjálfskiptingu. Reynsluakstursbíllinn, Kia Stonic EX með DCT 7-þrepa sjálfskiptingu kostar kr. 3.840.777

Gefið út þann:
27/8/19
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.