Reynsluakstur:
Volvo XC90 PHEV
,
árgerð
2020
Umboð:
Brimborg
Aflrás, hönnun, smíði
Stærð texta í afþreyingarskjá

Sænskt flaggskip

Volvo Bílar hafa tekið stakkaskiptum síðastliðin ár. Framleiðandinn hefur endurhannað og endurhugsað alla sína vörulínu og eru allir bílar frá þeim núna komnir í uppfærðan búning frá því sem áður var. Volvo XC90 var fyrstur í þessarri nýju sýn Volvo á framtíðina og hann hefur svo sannarlega staðið fyrir sínu undanfarin ár. Nýlega kom miðaldursuppfærsla á bílinn og fannst mér því tilvalið að fá hann til prufu og upplifa sýn Volvo á hvernig flaggskip og höfuðdjásn bílaflota á að vera.

T8 tengitvinnbíll

Við fengum hinn gífurlega vinsæla T8 tengitvinnbíl til reynslu. Volvo hefur nú uppfært kerfið allt og gert það skilvirkara og hagkvæmara. Þeir uppfærðu geymslugetu batterísins og fiktuðu örlítið við hvernig hann endurheimtir orku í akstri en að mestu leyti er kerfið ennþá hið sama.

Útlitslega er það eina sem er öðruvísi við tengitvinnbílinn, fremur en þann sem er létttvinnbúinn, þessi fallega og stíhreina hringlaga hurð á frambrettinu bílstjóramegin.
Rafhlaða T8 bílsins er núna 15% stærri en áður og kemstu því örlítið lengra á hleðslunni. Rafhlaðan tæmist í raun og veru aldrei og fer þessi stóri jeppi alltaf af stað á rafmagninu einu saman.
Nýja útgáfa T8 kerfis frá Volvo er hagkvæmari en áður en skilar örlítið færri hestöflum. Þó eru 390 hestöfl og 690nm af togi sem er alveg feikinóg fyrir þennan bíl.

Bensínvélin undir húddinu er tveggja lítra og er hún útbúin bæði með túrbínu og forþjöppu. Hún hljómar æðislega. Þú rýkur af stað á rafmagninu og svo þegar bensínvélin tekur við þá hljómar hún eins og sinfoníuhljómsveit þar sem öllum fiðlunum hefur verið skipt út fyrir reimdrifna forþjöppu og básúnurnar í bakgrunni eru orðnar að útblástursétandi og urrandi túrbínum.

Að innan gefur þessi kristals gírhnúður það til kynna að bíllinn er tengitvinnsbíll. Hönnun hans hefur nú verið uppfærð og örlítið einfölduð frá því sem áður var.

Þó svo að kerfið allt skili örlítið færri hestöflum en áður, er togið og snerpan enn á sínum stað. Volvo hefur rafhlöðuna langsum í miðjum bílnum og hjálpar það mikið við hversu þægilegur hann er í akstri og innanrými gott. Nýjasta útgáfan af vélum í boði kallast B5. B stendur þar fyrir nýjan létttvinnbúnað (e. Mild-Hybrid) sem hjálpar til við að ná eyðslunni niður með öflugra rafkerfi og öflugri „start-stop“ búnaði.

Umgengnin um XC90 er þægileg, einföld og góð. Sætin eru í góðri hæð til að setjast inn í bílinn og komast út úr honum aftur.

Öruggur og þægilegur

Aðeins hefur verið fiktað í innanrými XC90 til að gera það örlítið fágaðra. Sætin hinsvegar eru enn jafn þægileg, stuðningsrík og mjúk líkt og áður. Já, sænski fáninn er á sínum stað, saumaður í hliðar sætisbakanna. Ég hafði Inscription bíl með Napa leðri til prufu og var erfitt að finna stað sem mig langaði ekki að klappa jafn mikið og ketti afa míns. Innanrými XC90 er vel heppnað og sem betur fer einbeittu verkfræðingar Volvo sér að uppfæra stjórnkerfi bílsins en ekki að breyta útliti innanrýmisins.

Mælaborðið í XC90 er stílhreint og látlaust. Ef ég væri danskur myndi ég segja að það væri bara nokkuð „hygge“
Skjárinn í miðju mælaborðsins er handhægur og einfalt er að læra á hann til að finna allt sem þarf. Þar er hægt að stilla ótrúlegustu hluti sem koma að XC90. Apple Carplay og Android Auto eru á sínum stað.
Stafræna mælaborðið er auðskiljanlegt og auðstýrt af tökkum á stýrinu. Vinstramegin á mælaborðinu er kveikt á akstursaðstoðunarkerfinu og því stjórnað þar. Það er útbúið stýrisstuðningi og fjarlægðarskynvæddum hraðastilli.

Það sem truflaði mig samt við skjáinn var að textinn hefði þurft að vera stærri til að fólk eins og tengdamóðir mín sem harðneitar að nota gleraugu, því „hún sér alveg allt í lagi það sem hún þarf að sjá,“ gætu þótt það erfitt að finna hluti á meðan að ekið er. Skjárinn tekur líka athygli frá akstrinum en þar er gott að vita af öllum öryggisbúnaðinum sem Volvo hefur troðið í XC90 er starfandi í bakgrunni og myndi eflaust bjarga þér. Volvo hefur einmitt sett sér það markmið að enginn muni deyja eða slasast alvarlega í Volvo eftir árið 2020.

Aðstaða bílstjórans í XC90 er til fyrirmyndar og auðvelt er að koma sér fyrir í dúnmjúkum sætunum sem stillanleg eru með rafmagninu einu saman. Þarna er líka hægt að sjá hversu fáa takka mælaborðið ber.

Praktískur og hannaður með barnafólk í huga

Við sem eigum börn vitum að það er erfitt að hanna bíl með allar þarfir okkar í huga. Það ætti samt að vera auðvelt þar sem nokkuð algengt er að verkfræðingar nái sér í maka og eignist börn. Greinilegt er þó að allir verkfræðingar Volvo sem komu að hönnun XC90 eiga börn og hafa komið að bílnum sínum haldandi á einu barni í hægri hendinni, innkaupum dagsins í vinstri og barn númer tvö að elta þig.

Afturendi XC90 er strax auðþekkjanlegur sem Volvo. Aftursætin bara uppi, eitt skottsæti uppi, bæði skottsætin eða engin sæti uppi. Allt einfalt mál.
Einfalt mál er að hleypa börnum í öftustu sætaröðina og hægt er að leggja niður aftursætið með annarri hendi. Skotthlerann er líka hægt að opna með því að veifa öðrum fætinum undir afturstuðarann og vera með lykilinn í vasanum.
Með sætin niðri er einfalt mál að leggjast á magann og skella í selfie með fæturnar uppí loft.
Aftasta sætaröðin er ekki gerð fyrir fullvaxið fólk en hægt er þó að koma sér vel fyrir þar.

Skottið er síðan risastórt og jafnvel með öftustu sætaröðina uppi má vel koma fyrir afrakstri verslunarleiðangri dagsins. Jafnvel þó að þú þyrftir að sitja í skottinu færðu samt glasahaldara og þægilegt sæti til að sitja í. Þó að Volvo gefi það óbeint út að þau séu aðeins fyrir minni einstaklinga eins og börn á táningsaldri þá gat ég, fullvaxta karlmaður, komið mér fyrir afturí. Það hefði alveg farið vel um mig þar frá Höfn í Hornafirði og yfir á Djúpavík.

Örlítið meira króm er að finna framan og aftan á XC90 en áður. Grillið að framan hefur líka hlotið nýja hönnun og er nú örlítið bogadregið inn.

Hönnuðir Volvo hafa síðan örlítið bætt í króm og skraut framan og aftaná hinum uppfærða XC90. Litlar útlitsbreytingar sem undirstrika fágun bílsins frekar en auglýsa hana. Þórshamars ljósin eru sem betur fer á sínum stað.

Helstu tölur

Verð frá: 9.590.000 (Nóv 2019)

Verð á sýndum bíl: 11.590.000

Vélar í boði: tengitvinn og létttvinn

Hæð undir bíl: 223mm

L/B/H: 4953/2140/1776

Lokaorð

Volvo XC90 hefur svo sannarlega unnið sér það inn að vera kallaður flaggskip Volvo fjölskyldunnar nýju. Hann er vel smíðaður og býður uppá öruggan, praktískan og fágaðan ferðamáta á milli staða fyrir alla þá sem hafa áhuga á honum. Ef þú ert að leita þér að sjö sæta, tengitvinnbíl, þá þarftu ekki að leita lengra. Taktu hann Inscription útbúinn með ljósu leðri og bláan eða rauðan. Ég hvet þig líka til að vera duglegur í aukahlutalistanum og velja dökka viðinn sem er á þessum myndum.

Ef þér lýst á’ann, keyptann!

Gefið út þann:
18/11/19
í flokknum:
Jeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Jeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.