Reynsluakstur:
Land Rover Defender
,
árgerð
2020
Akstursþægindi, hönnun
Verð

Rándýr í tvennum skilningi

Við fengum langþráðan draum uppfylltan þegar við fengum loks að prufuaka nýjum Land Rover Defender. Gamanið var hins vegar svo stutt að við viljum frekar kalla þetta kynningarakstur en reynsluakstur.

Glæsilegur nýr Defender er dásamlegur í akstri.
Engu að síður reyndum við bílinn í fáeina klukkutíma og nutum vel. Þessi bíll er rándýr í tvennum skilningi, hann kemst betur það sem aðrir komast ekki en hann er einnig dýr í krónum talið.
Dúnmjúkur á mjög grófu yfirborði og þar skiptir aksturshraði í raun engu máli.

Ekki gefins

Ef farið er aðeins yfir verðþáttinn erum við að tala um að ódýrasta útgáfan sem er Defender 110 Base sé á heilar 12.790 þús. og það fyrir byrjunarútgáfu á séríunni.  Sá bíll er með öflugri og togmikilli 240 hestafla, fjögurra strokka, 2 lítra díselvél sem hentar þessum bíl afar vel.

Framendi bílsins sver sig í Land Rover ættina.
Defender 110 Base með bensínvélinni gefur 400 hesöfl með 6 strokka, þriggja lítra vél sem búin er mildum blendingsbúnaði.  Bensínútgáfan af Base týpunni kostar hins vegar 15.690 þús. Verðbil þessara bíla er þá frá 12.790 þús. og upp í 22.190 þús. eftir vélum og búnaði.  Það er talsvert fyrir jeppa.
Innréttingin er gróf í bland við fínlegan frágang og nóg er plássið.

Gróf hönnun og efnisval

En förum þá í það skemmtilega. Hinn nýi Land Rover Defender heillar mann upp úr bomsunum um leið og maður sest undir stýri.  Sterkleg innréttingin, nýstárleg hönnun og tækni í tonnatali tekur á móti manni strax í ökumannssætinu. Efnisval er sérlega vel til fundið – gróft, hrufótt og klossað. Allt gert til að höfða til fyrirrennarans þó  maður finni lítið fyrir honum þegar ekið er af stað.

Það er hrein skemmtun að sitja í þessum bíl - sérstaklega í ökumannssætinu. Notendaviðmót margmiðlunarbúnaðar í bílnum er geggjað og mælaborðið sýnir einföld og skýr skilaboð.
Það er einfaldlega frábært að aka þessum bíl. Hann er í senn lipur og kraftmikill. Verkfræðingum Land Rover hefur tekist ákaflega vel upp með hönnun þessarar vélar og útfærslu hennar fyrir bílinn. En vilji maður nota þennan bíl sem borgarbíl, hraðbrautir og ísbíltúra mælum við með bensínvélinni.  Þar skortir ekki aflið.
Afturhlerinn opnast til hægri.

Hvað er í tröllinu?

Eins og við sögðum hér rétt fyrir ofan er bíllinn stúfullur af tækni sem við höfum séð í öðrum gerðum Land Rover bíla.  Við ætlum hins vegar að nefna það helsta sem augun ekki sjá – óþarfi að vera meta hvort þessi nýi Defender sé ljótur eða fallegur – dæmi hver fyrir sig.

Defenderinn kemur með aldrifi, millikassa með tveimur drifum, rafdrifinni loftpúðafjöðrun sem lagar sig að vegyfirborðinu. Tveggja dyra 90 útgáfan kemur hins vegar með gormafjöðrun.
Á húddinu er gróft plast sem líkist stálgólfi.

Eftir því sem farið er í dýrari gerðir eykst tæknibúnaður talsvert. Þá er í boði blindsvæðapakki sem hjálpar til við slíkar aðstæður, Terrain response 2 sem er aksturshamur sem nemur gerð vegyfirborðs og stillir fjöðrun og aksturhæfni fyrir ökumann – einnig hægt að stilla þennan búnað af ökumanni, vaðskynjarar sem mæla hversu djúpt þú mátt fara í vatn (90sm) og í dýrustu týpunni er boðið upp á rafrænt mismunadrif.

Hugtakið Land Rover Defender hefur fengið allt aðra merkingu með þessum nýja tækni jeppa.
Að sjálfsögðu er í þessum bílum, þrívíd umhverfismyndavél sem hjálpar til við allan akstur í þröngum aðstæðum, hraðastillir og hraðatakmörkun sem einnig getur verið gott að nota í torfærum. Akreinastýring, neyðarhemlun og skynvæddur hraðastillir.
Þemað í gegnum hönnunarferlið er gróft lúkk - en það á aðeins við um útlitið - ekki aksturseiginleikana.

Við tókum smá rúnt á glænýjum hvítum Land Rover Defender S og leyfðum honum að spretta úr spori áleiðis til Þingvalla. Bílinn liggur sérlega vel og fjöðrunin er einstök.  Á Nesjavöllum tókum við smá vegslóða sem þar sem Defenderinn fékk að finna örlítið fyrir því. Aftur var fjöðrunin óaðfinnanleg og bíllinn renndi sér mjúklega eftir holóttum og mishæðóttum vegkaflanum.

Heyrst hefur að innlendir verkfræðingar séu að meta hvort einfalt sé að breyta þessum bílum. Lítill fugl hvíslaði því að einhverjum að sú vinna væri í raun ekki flóknari en að breyta venjulegum pallbíl með slatta af nútímatækni.

En verkið yrði væntanlega eitthvað dýrara en að breyta gamla Defendernum. Það ætti hins vegar ekki að vera tiltökumál fyrir þann sem á annað borð hefur efni á því að kaupa sér þennan nýja og glæsilega Land Rover Defender.

Helstu tölur:

Verð frá 12.790 þús. kr.  Verð á reynsluakstursbíl 13.890 þús. kr.

Vél: 2 lítra, 4 strokka, dísel – 240 hestöfl – 3 lítra, 6 strokka, bensín/mild hybrid – 400 hestöfl.

Tog: 430/1400 Nm/rpm.

Vaðdýpt: 90 sm.

Dráttargeta: 3500 kg.

CO2: 250 g/km.

Eigin þyngd: 2.323 kg.

L/B/H 5018*/2105/1967 mm. *m. varadekki.

Eyðsla bl ak: 9,5 l/100km.

Gefið út þann:
23/7/20
í flokknum:
Jeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Jeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.