Reynsluakstur:
Peugeot 3008 PHEV
,
árgerð
2021
Umboð:
Brimborg
Afl, akstursþægindi, hönnun, tækni
Stór miðjustokkur og stilling loftkælingar/miðstöðvar

Peugeot 3008 Plug-in hybrid með nýju andliti

Það er óneitanlega vor í lofti þessa dagana. Síðasta laugardag skruppum við félagarnir (Gulli og Pétur) í skemmtilegan reynsluakstur á nýkomnum Peugeot 3008 Plug-in hybrid frá Brimborg.

Glæsileg hönnun á ný uppfærðum Peugeot 3008 Plug-in hybrid.
Sá hefur fengið smá andlitslyftingu ásamt nýju orkubúnti sem samanstendur rafmagni og bensíni.
Hægt er að fá nýjan Peugeot 3008 Plug-in hybrid fram- eða fjórhjóladrifinn.

Samþætt þróun

Peugeot 3008 Plug-in hybrid, Opel Grandland Hybrid 4 og Citroen C5 Aircross eru allir byggðir á sama grunninum enda sömu eigendur á öllum þessum vörumerkjum. Það fer því að verða flókið að meta einhvern mun á slíkri framleiðslu – enda fjölmargir þættir samnýttir, ekki síst þeir sem við kannski sjáum ekki á útliti bílanna.

Talsverð breyting á framenda frá eldri gerðinni. Léttari og sportlegri ásýnd.

Tvær megingerðir

Við ókum af stað og ákváðum að byrja á borgarakstri á þessum lauflétta og lipra bíl. Ekki vantar aflið því undir vélarhlífinni í reynsluakstursbílnum er hvorki meira né minna en eitt stykki 1,6 lítra bensínvél, einn rafmótor og svo annar við afturöxulinn.

Bensínvélin gefur um 200 hestöfl og rafmótorarnir saman gefa um 110 hestöfl. Saman geta þeir gefið bílnum um 300 hestöfl þegar ákveðið er að nota allt aflið.
Öflugur og sterklegur afturendi.

Afl og orka

Hægt er að fá Plug-in hybrid Peugeot 3008 í tveimur megin útfærslum. Framdrifinn og þá með 225 hestafla afli sem kemur frá 1,6 lítra bensínvél og einum rafmótor sem gefur um 50 hestöfl. Sá kemst um 50 km. á rafhleðslunni einni saman skv. WLTP mælistaðlinum. Sá sem við prófuðum var af hinni gerðinni og rétt um 300 hestöfl og fjórhjóladrifinn og búinn tveimur rafmótorum.

Þokuljósin eru inni í aðalljósunum. LED ljós allan hringinn.

Bíllinn sá er með um 13 kWh rafhlöðu og drægnin á rafmagninu einu saman um 59 km. uppgefin skv. WLTP staðli. Að meðaltali er sá bíll að eyða um 1.8 lítrum á hundraðið samkvæmt sama staðli. Ætli rauneyðsla sé ekki í kringum 2,5 til 3 lítra að meðaltali.

Hvernig er að aka?

Í einu orði sagt er gott að aka bílnum. Lipur er hann, snarpur og kraftmikill. Þú getur sett bílinn í fjórar mismunandi aksturstillingar. Sú sem okkur fannst skemmtilegust notar mestu orkuna en það er Sport stillingin.

Þá er bíllinn að nýta báða rafmótorana og bensínvélina en bílinn er með rafrænu sídrifi sem kemur inn þegar á þarf að halda.

Síðan er það Hybrid stillingin þar sem bíllinn ákveður sjálfur blöndunina á örkugjöfunum, bensínvélinni og rafmótor.

Fjórhjóladrifs stillingin tryggir að þú sért ávallt í drifinu. Að lokum er síðan hægt að aka bílnum einungis á rafmagni og í þeirri stillingu fannst okkur hann bara glettilega aflmikill.

Hægt er að velja um mismunandi felgur og hægt er að fá bílinn með svörtum þemapakka.

Peugeot 3008 Plug-in hybrid sver sig í ætt annarra Peugeot bíla. Fjöðrun er frekar mjúk og mjög þægileg, bíllinn haggast ekki í beygjum og stýrið er nákvæmt og lauflétt.

Já, stýrið – það er agnarsmátt og því þarf að venjast.

Ég er ekki Peugeot eigandi (allavega ekki ennþá) en tilfinningin þegar maður ekur bíl með svona litlu stýri er að grjóthalda í það svo maður missi nú ekki stjórnina. En það venst á nokkrum kílómetrum.

Innréttingin og tæknistöffið er afar töff og öllu vel fyrirkomið.
Stafrænt mælaborðið gefur allar upplýsingar um framvindu aksturs og nýtingu orku.

Gott aðgengi

Sjónlína er góð  þú situr vel í bílnum og sætin eru sérlega þægileg. Þau eru sportleg en það er raunar hægt að segja um allan bílinn – sportlegt yfirbragðið, lítið stýrið og hátæknilegt mælaborðið er eins og sambland af geimskutlu og kappakstursbíl.

Hins vegar vorum við Gulli ekki sammála um pláss fyrir fætur ökumanns og farþega fram í.

Skítt með farþegann – hann þarf ekkert að gera nema njóta ferðarinnar en sem ökumaður vil ég hafa gott pláss fyrir langar lappirnar mínar, þannig að ég þreytist ekki upp í mjaðmirnar í langkeyrslu.

Það er ekki að því að spyrja. Sætin eru bæði flott og þægileg.

Mér finnst plássið fyrir langa leggi ekki nægilegt vegna miðjustokksins en hann þrengir örlítið að. Þetta hafði enginn áhrif á Gulla enda mun yngri og liprari maður og nokkrum steinum léttari.

Gott fótapláss afturí og þar eru einnig tvö USB tengi ásamt 12V tengi.

Að öðru leyti er mjög þægilegt að ganga um bílinn, þú sest inn en ekki ofan í bílinn. Plássið aftur í er ljómandi, gott höfuðpláss fyrir hávaxna og mikið fótapláss – svo mikið að það væri lítið mál fyrir lögguna að nota svona bíl í sinni þjónustu.

Maður gæti hæglega setið þægilega handjárnaður fyrir aftan bak.
Hurðir opnast vel - og þú sest inn en ekki ofan í bílinn.
Takið eftir því hvernig plasthlífin nær yfir sílsinn og gerir að verkum að sílsinn er nánast alltaf hreinn.
Innstigið er þægilegt og ekki þaf að hafa áhyggjur af drulluskítugum sílsum.

Þú talar við hann með appinu

Þú getur fylgst með bílnum heima í stofu í gegnum appið. Þú getur líka kveikt á miðstöðinni og haft bílinn heitan þegar þú leggur af stað. Málið er að nú verðum við ökumenn að fara tileinka okkur nýja siði til að spara orku.

Við setjum ekki endilega miðstöðina á fullt í ísköldum bílnum af því að við viljum jú, spara orku.

Ef bíllinn er hitaður í hleðslu eyðir hann ekki óþarfa rafmagni í það þegar ekið er af stað.

22cm undir lægsta punkt.

Bílaframleiðendur keppast um að framleiða bíla sína með stórum tölvuskjám, stafrænni upplýsingatækni og hraðvirkum snertiskjám. Hins vegar bregst þeim kannski bogalistin varðandi viðmótið.

Í þessum nýja Peugeot með ný uppfærðu i-Cockpit kerfi er hægt að kveikja á upplýsingaskjá fyrir miðstöðina með takka – en þú þarft síðan að stilla hana eins og þú vilt hafa hana með því að snerta skjáinn – færa sleða upp og niður og ef þú vilt fara dýpra inn í stillingarnar þarftu að fara á annan skjá fyrir innan aðalskjáinn.

Þetta veldur án efa truflun í akstri fyrir marga og er ekki nógu þægilegt. Því miður er þetta ekki einsdæmi í þessum bíl, Peugeot 3008.

Farangursgeymslan opnast vel og í baki miðjusætisins er skíðalúga. Hægt er að fella niður sæti 40:60.
Sjálfvirk niðurfelling sætisbaka afturí, 12V tengi og ljós ásamt farmfestingum.

Sjálfsöruggur bíll

Á móti kemur að nýr Peugeot 3008 er með snjallri öryggistækni. Hann getur bremsað skynji hann gangandi vegfaranda eða hjól fyrir akstursstefnu bílsins, hann er með neyðarbremsuaðstoð og fleiru og fleiru – til dæmis er hann með nætursýn sem virkar þannig að hann skynjar hættu allt að 200 metrum fyrir framan ökutækið. Hægt er að fá bílinn í fjölmörgum töff útfærslum. Sjá hér: www.peugeotisland.is.

Gólfið er alveg slétt ekkert sem þvælist fyrir fótum þess sem situr í miðjunni afturí.
Stafrænt mælaborð - nýjasta gerð af i-Cockpit frá Peugeot.

Helstu tölur:

Verð frá: 5.890.000 kr. (Verð á reynsluakstursbíl Allure 6.590.000 kr.)

Vél: 1,6 lítra. PEHV (plug-in hybrid).

Hestöfl: 300.

Rafhlaða: 13.2 kWh.

Drægni á rafmagni: 59 km.

Hámarkstog: 520 Nm.

0-100 k á klst: 5.9 sek.

Dráttargeta: 1250 kg.

Hæð undir lægsta: 22 cm.

CO2: 49 gr/km.

Eigin þyngd: 1.840 kg.

L/B/H 4477/2098/1624 mm.

Klipping: Dagur Jóhannsson

Gefið út þann:
8/3/21
í flokknum:
Sportjeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Sportjeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.