Reynsluakstur:
Honda Jazz Crosstar
,
árgerð
2020
Umboð:
Askja
Hljóðlátur, kraftmikill, gott aðgengi
Biti í gólfi undir framsæti

Nýr og ferskur Honda Jazz Crosstar

Nýlega tók bílaumboðið Askja við Honda umboðinu. Askja hefur komið upp glæsilegum sýningarsal að Fosshálsi 1 í Reykjavík þar sem þeir gera vörumerkinu góð skil. Við vorum svo heppnir hjá Bílabloggi að fá að máta okkur við splunkunýjan Honda Jazz Crosstar á dögunum. Jazz var fyrst kynntur um síðustu aldamót í þeirri mynd sem við þekkjum hann.

Mini jepplingur frá Honda, Honda Jazz Crosstar.
Honda Jazz hefur í gegnum tíðina verið hinn þekkilegasti bíll með marga kosti hins lipra smábíls en nú hefur Honda sett ný viðmið með nýjum Honda Jazz og Honda Jazz Crosstar.
Honda Jazz Crosstar skartar svörtum listum og fallegum álfelgum.

Ný viðmið í hönnun

Þessi nýi smábíll sem er í flokki smá-jepplinga eða „mini-crossover”. Mörgum kann að finnast að þegar orðið “jepp..” kemur fyrir í orðinu þá sé um stærri fjórhjóladrifinn bíl að ræða – en það er að breytast.
Nettur að utan en stór að innan.

Fjölmargir bílaframleiðendur eru að koma með lítið breytta fólksbíla og bæta á þá brettaköntum, hækka örlítið undir lægsta punkt og setja „cross” fyrir aftan nafnið. Þar má nefna bíla eins og T-Cross frá Volkswagen og væntanlegan Yaris Cross.

Frábært aðgengi og gott fótapláss. Vatnshelt sætaáklæði.
Afturhurðin opnast vel og það er þægilegt að setjast inn og standa upp úr bílnum.

Silkimjúk tvinntækni

Það verður að segjast að þessi litli borgarbíll sem Jazzinn hefur verið þekktur fyrir að vera hefur tekið stökkbreytingum á marga vegu. Hann er hljóðlátari, nánast hljóðlaus, en það þótti há forveranum hve mikið veghljóð barst inní bílinn. Jazzinn fjaðrar einnig sérlega vel og er kraftmikill miðað við að vera tvinnbíll. Varðandi vélbúnað og drif hefur Honda komið með bráðsnjalla lausn sem gerir akstur þessa bíls óviðjafnanlegan.

Hljóðlátur, snarpur og sérlega lipur - mjög vel búinn Honda Jazz Crosstar.
Við erum að tala um tvo rafmagnsmótora og eitt stykki 1.5 lítra bensínvél sem saman skila um 109 hestöflum. E-tvinntækni Honda virkar þannig að sama drifrásin drífur bílinn áfram hvort sem hann ekur á rafmagni eða eldsneyti.
Hægt er að fella niður afturstæti og lyfta upp setum.

Aldrei að stinga í samband

Bíllinn ekur í þremur mismunandi stillingum – allt eftir því hve mikið afl þú vilt fá í akstrinum.
Glæsileg hönnun innanrýmis og nýstárleg nálgun með slitsterkum efnum í mælaborðinu.

Rafmagnshamurinn þegar ekið er á hægri ferð í borgarumferð, tvinnhamur í hefðbundnum akstri á meðalhraða og vélarhamur þegar meira afls er krafist. Allt gerist þetta sjálfkrafa í þessu nýja tvinnkerfi Honda og afraksturinn er dúnmjúkur akstur, hljóðlátur og þægilegur.

Þægilegur stokkur er á milli framsætanna sem gerir aksturinn afslappaðan og áreynslulausan.

Pláss og aftur pláss

Tölum aðeins um plássið. Honda Jazz er snotur bíll, stór að innan en smekklegur að utan. Fótaplássið er sérlega gott bæði frammí og afturí. Eftirtektarvert er að þó framsæti séu í öftustu stöðu er samt nægilegt fótapláss fyrir fullorðinn einstakling afturí.
Hér er nægt fótapláss fyrir tvo fullorðna - sleppur alveg með þrjá farþega í styttri ferðum.

Hurðir opnast vel og gott aðgengi inn í bílinn. Hægt er að taka setur afursætanna upp frá gólfinu og fá þannig hellings pláss t.d. fyrir golfsett eða hjól – síðan má leggja þau niður 60/40 og fá þannig meira heildarpláss útfrá farangursrými. Skottplássið er um 300 lítrar og er svosem ekkert meira en í öðrum bílum í sama flokki en sætatilfærslan afturí gerir gæfumuninn.

Slétt gólf og vel hátt undir framsætin.

Skyggni ágætt

Framsætin eru vel bólstruð og sérlega þægileg og efnið úr slitsterku efni sem hugsað er til að þola meiri núning en gerist og gengur og er einnig vatnshelt. Sætin færast reyndar aftur fyrir bita sem þau liggja ofan á og við tókum eftir því að við vorum að reka okkur í þennan bita í annars þægilegum akstri. En við erum reyndar mjög fótlangir hjá Bílabloggi.

Níðsterkt og núningsþolið sætaáklæði í Honda Jazz Crosstar.
Innanrýmið er þannig að hannað að maður tekur eftir. Slétt mælaborðið er að hluta til klætt smekklegu tweedefni, myndarlegur armpúði milli sætanna og skemmtilega hannað mælaborðið gleður augað.
Mælaborðið er klætt slitsterku tauefni.

Framhluti farþegarýmisins er snilldarlega hannaður með stórri framrúðu þar sem burðarbitarnir hafa verið færðir aðeins aftar en gerist og gengur til að auka útsýni ökumanns. Mælaborðið er slétt og gerir að verkum að þú sérð mun betur fram fyrir bílinn.

Öryggi hjá Honda

Við erum að tala um 10 loftpúða og meðal þeirra er loftpúði milli sætanna sem á að koma í veg meiðsli í hliðarárkestri. 9 tommu margmiðlunarskjár, stafrænt mælaborð með öllum upplýsingum beint fyrir framan þig, stjórntæki í stýri, skynvæddur hraðastillir, umferðamerkjalesari, árekstrarvari, led ljós og skynjar gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk.

Honda Jazz Crosstar fæst í mörgum ferskum litum.

Góður kostur

Eyðslan er um 5 lítrar á hundraðið samkvæmt því sem aksturskerfið sagði okkur þegar við ókum bílnum í blönduðum akstri um götur Reykjavíkur. 15 sentimetrar eru undir lægst punkt sem gefur færi á því að aka eftir holóttari vegi þegar farið er í berjamó eða ekið út úr snjóþungri innkeyrslu.

Honda Jazz e: HEV.
Honda Jazz er spennandi smábíll sem hentar vel jafnt í þéttbýli sem strjálbýli. Fjölnota innanrýmið eykur notkunarmöguleikana hvort sem þú ætlar að nota bílinn sem hefðbundinn fjölskyldubíl þar sem þú sækir börnin í skólann, ferð í búðina, golfið eða hjóaltúrinn.

Helstu tölur:

Verð: 4.690.000.

Vél: Bensínvél og rafmagnsmótor. Hestöfl: 109 hestöfl.

Newtonmetrar: 235 Nm @ 4500-5000 sn.

0-100 k á klst: 9,9 sek.

Hámarkshraði: 173 km.

CO2: 61-105 g/km.

Eyðsla bl. ak: 3,9 l / 100 km. L/B/H í mm.: 4090/1725/1556

Gefið út þann:
17/8/20
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt
Vermir toppsætið í Evrópu
Spenntur smáborgari
Ljúf, kraftmikil og falleg

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.