Reynsluakstur:
Ssangyong Korando
,
árgerð
2021
Tækni, hönnun, verð
Þröngt aðgengi að slíðri fyrir öryggisbelti, ekkert USB tengi afturí

Nýr Korando leynir á sér

Korando þýðir Kórea getur. Það er alveg ljóst að það er mikið til í því. Suður-Kóreubúar hafa sýnt og sannað að þeir standa með þeim fremstu í bílaframleiðslu. Bílaframleiðandinn Ssangyong hefur um áratugaskeið framleitt bíla sem vakið hafa athygli fyrir margra hluta sakir.

Smart hönnun að innan sem utan á nýjum Ssangyong Korando.

Kóreubílar að fara fram úr?

Hver man ekki þegar japanskir bílaframleiðendur hófu sókn á Evrópska bílamarkaði. Ódýrari bílar sem menn voru ekki alveg sáttir við að væru jafn góðir og þeir Evrópsku en við þekkjum framhaldið.

Smekklegur afturendinn kemur vel út og ljósahönnun skemmtileg.

Ssangyong Korando kom fyrst á markað árið 1982. Þá var bíllinn byggður á JEEP CJ-5 (Willys) en sá bíll hafði verið framleiddur í Asíu fyrir bandaríska herinn og Sameinuðu þjóðirnar. Korando K9 var níu sæta De Lux útgáfa sem kom á markað árið 1982.

Framendinn myndar skemmtilega heild og LED ljósin gefa svip.

Tæknilega fullkominn

Í dag er Korando einn tæknilegasti sportjepplingurinn á markaðnum. Sá nýi hefur vakið óskipta athygli fyrir tækni, byggingu og öryggi. Nýr Korando er byggður úr sérstyrktu stáli sem gerir hann sterkari en sambærilega bíla í samkeppni. 74% af stálinu í bílnum er með meiri styrkleika en gerist og meðal samkeppnisaðila.

Nýr Korando kemur með LED ljósum allan hringinn.

Öruggur í alla staði

Nýr Korando kemur sérlega vel út úr Euro NCAP prófunum með fimm stjörnur og 88% skor í öryggi ökumanns. Bíllinn er stútfullur af öryggisbúnaði s.s. 6 loftpúðum og þar með talið loftpúðum fyrir hné. Að auki er í bílnum bremsuaðstoð sem virkar þannig að ef vegfarandi gengur í veg fyrir bílinn aðstoðar bíllinn ökumann við hemlun.

Þægileg sæti sem halda vel við bak og fætur.
Sérlega gott höfuð- og fótarými afturí. Nýr Korando er einnig breiðari en forverinn.

Að sama skapi aðstoðar bíllinn við hemlun ef hjólreiðamaður hjólar í veg fyrir bifreiðina. Fjarlægðarskynjarar að framan og aftan, kýrskýr bakkmyndavél, ökumannsvaki sem skynjar athygli ökumanns og lætur vita ef talið er að hann fylgist ekki nægilega með akstrinum. Skriðvörn, veltivörn og brekkuhjálp sem varnar því að bíllinn renni aftur á bak þegar tekið er af stað í brekku.

Falleg og hagnýt hönnun

Nýr Korando er sannarlega snotur bíll og hann leynir á sér. Á mynd er svo sem ekki hægt að sjá annað en þetta sé enn einn sportjepplingurinn. En við nánari skoðun er þessi bíll bara svo miklu meira.

Hægt er að fá bílinn beinskiptan og framdrifinn.

Í fyrsta sinn er Korando nú boðinn með framhjóladrifi og Bílabúð Benna býður hann aðeins með 1,5 lítra, 163 hestafla bensínvél með forþjöppu sem togar um 260 Nm. Hægt er að fá bílinn með sex gíra beinskiptingu eða sex gíra sjálfskiptingu. Hann kemur í fjórum gerðum; grunngerð, Premium, Adventure og Ultimate. Þær tvær síðastnefndu eru fjórhjóladrifnar.

Stafrænt upplýsingaflæði

Við fengum að reynsluaka Ultimate bílnum. Sá bíll kemur með leðuráklæði, 19 tommu felgum, rafdrifnum framsætum með mjóbaksstuðningi og Infinity 3d innréttingu. Það er skemmst frá því að segja að bíllinn sá er glæsilegur á alla vegu.

Skjárinn er kýrskýr og fljótur að vinna.
Mælaborðið er mjög vel heppnað. Auðvelt að nota og sýnir einfaldlega allt sem ökumaður þarf á að halda við aksturinn.

10.25 tommu stafrænt mælaborð og 9 tommu margmiðlunarskjár eru kýrskýrir og svörunin á margmiðlunarskjánum er mögnuð. Einn besti skjár sem við hjá Bílablogg höfum séð undanfarið.

Kemur vel út

Aksturinn er átakalaus og vélin vinnur sérlega vel með 6 gíra sjálfskiptingunni. Togsviðið er mest á lágum snúningi vélarinnar og maður finnur hvernig sjálfskiptingin vinnur fullkomlega með vélinni. Þannig er bíllinn snarpur og snöggur þegar stigið er á inngjöfina.

Hægt er að fá bílinn á 30 tommu dekkjum og verður hann þá ansi vígalegur.

Fjöðrunin er frekar stíf án þess að það trufli aksturinn en þó er ekki hægt að segja að bíllinn sé hastur. Stýrið er nákvæmt og hann leggst ekkert í beygjurnar. Korando er búinn rafmagnsstýri sem er skynjar hraða bílsins og þyngist með meiri hraða en er létt og leikandi á minni hraða.

Sportjepplingur með læstu drifi

Korando býr yfir tæknilegu rafdrifnu fjórhjóladrifi og því er hægt að læsa. Hægt er að velja um þrjá mismunandi akstursstillingar, Normal, Sport og Winter. Við ókum bílnum talsvert í Sport stillingunni og var bílinn mun snarpari í akstri í þeirri stillingu.

Hægt er að læsa drifinu fyrir meiri átök.

Winter stillingin er hugsuð fyrir talsvert mikla og þunga ófærð þar sem þú þarft að aka á lágum snúningi og getur þá læst drifinu.

Þægileg umgengni

Aðgengi er gott. Inn- og útstig þannig að maður sest bein inn í bílinn og stígur átakalaust út. Hurðir opnast vel – bæði að framan og aftan. Farangursgeymslan er um 550 lítrar og stækkanleg í um 1250 lítra með því að fella niður sætin en þau má fella niður 40:60. Eina sem við fundum að þegar maður spennir öryggisbeltið í framsætum er dálítið þröngt að koma því ofan í slíðrið vegna miðjustokksins.

Hurðir opnast vel og þú sest inn í bílinn en ekki ofan í hann.
Afturhurðir opnast vel og þægilegt aðgengi er um allan bílinn.

Innréttingar eru þéttar og vel byggðar og úr fallegum efnum. Mælaborðið farþegamegin er búið stemningslýsingu sem virkar eins og maður sé að horfa á þrívíddarmynd. Hægt er að velja um mismunandi stemningslýsingu í innanrýminu. Hægt er að velja um sjö liti og þrjá mismunandi liti á leðurinnréttingu.

Stórt og gott farangursrými - 551 líter og stækkanlegt í um 1250 lítra með því að fella niður sætisbökin.
Afturhlerinn opnast vel og hátt upp þannig að maður þarf ekki að beygja sig inn undir.

Þú færð mikið fyrir peninginn

Ssangyong Korando er glæsilegur bíll sem kemur verulega óvart. Þú ert að fá mikið fyrir peninginn og þessi bíll nýtist mörgum. Til dæmis hentar hann sérlega vel fjölskyldufólki með börn – auðveldur í borgarumferð og öflugur í lengri ferðir – og hann er eflaust duglegri en margir af bílum samkeppnisaðilanna sem ekki hafa læsingu á drifi.

Ný og öflug 163 hestafla vél skilar sínu vel.

Hægt er að fá 30 tommu dekk undir bílinn sem víkkar notagildi hann enn meira. Kominn á slík dekk fer bílinn úr rúmum 18 sentimetrum undir lægsta punkt upp í tæpa 23 sentimetra.

Helstu tölur:

Verð frá 4.390 þús. (Reynsluakstursbíll kr. 6.590 þús.)

Vél: 1500 rms.

Hestöfl: 163 hö.

CO2: 153-173 g/km.

Eigin þyngd: 1480-1510 kg.

L/B/H 4450/1870/1629 mm.

Myndband og klipping: Dagur Jóhannsson.

Aðstoð við upptöku: Magnús Pétursson

Gefið út þann:
24/1/21
í flokknum:
Sportjeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Sportjeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.