Reynsluakstur:
Renault Megane E-Tech
,
árgerð
2022
Umboð:
BL
Aksturseiginleikar, tækni, hönnun, stýrikerfi
Djúp farangursgeymsla, fjöldi arma í stýri‍

Nýr 100% rafdrifinn Renault Megane E-Tech

Það er sannast sagna að nýr Renault Megane E-Tech var farinn að vekja athygli okkar löngu áður en hann kom hingað til lands.

Við hjá Bílabloggi vorum hins vegar fyrst að prófa þennan bíl núna en hann verður frumsýndur nú um helgina hjá BL.
Nýr Renault Megane E-Tech er framdrifinn, 100% rafbíll.

Rafbíll frá grunni

Við fengum bílinn dagspart í vikunni og tókum ágætan bíltúr á honum. Nýr 100% rafdrifinn Renault Megane E-Tech er hannaður sem rafbíll frá grunni.

Reyndar er bíllinn byggður á sama grunni og nýr Nissan Ariya en fyrirtækin vinna saman að þróun.
Há boddýlína og lágir gluggar gera bílinn afar töff í útliti.
Afturglugginn er lítill en baksýnisspegillinn er búinn myndavél sem sýnir umferð fyrir aftan.

Fyrsti 100% rafbíll Renault var hinn smágerði Zoe sem hefur verið allnokkur ár á markaðnum. Það var því alveg kominn tími á nýjan 100% rafbíl hjá Renault. Renault hafði safnað miklu magni upplýsinga frá notkun Zoe en rúmlega 400 þúsund slíkir bílar hafa selst á líftíma þeirra.

Þessar upplýsingar voru síðan notaðar til grundvallar hönnun og smíði nýs bíls.  Nýi Megane E-Tech býr því líklega yfir haldgóðri reynslu áður en hann kemur á markað.

Hurðarhúnar skjótast út þegar þú gengur að bílnum - fullkomlega lyklalaust aðgengi.

Vel heppnaður

En snúum okkur að bílnum. Fallegur – já, sportlegur – já, rúmgóður – já þokkalega. Megane E-Tech er fyrst og fremst fólksbíll, getur varla talist til SUV eða crossover því hæðin undir bílinn er ekki nema 135 mm. Það kemur ef til vill ekki að sök því botninn er alveg sléttur og ekkert sem á að geta rekist harkalega niður á ósléttu yfirborði.

Stærð bílsins er hægt að bera saman við til dæmis Volkswagen ID.3, Hyundai Kona og Kia Niro.

Fín stærð af bíl til ýmissa nota. Hann er til dæmis styttri en Ford Focus og farangursýmið er talsvert stærra en í Volkswagen ID.3.

Hleðslugetan er um 130 kW á klukkustund í hraðhleiðslu en allta að 22 kW í heimahleðslu. Hleðsluportið er á framhlið bílsins.

Slatti af rými

Farangursrýmið er pínu sér á parti. Skottið er mjög djúpt og þú þarft að lyfta upp og ofan í það. Auka geymsla er síðan í aukahólfi undir skottgólfinu. Fyrir þá sem eru fljótir að átta sig á hlutföllum ef við tölum um lítra er stærðin 440 lítrar og líklega um 20 lítra viðbótarpláss í aukahólfinu.

Ef sætin eru lögð niður myndast ansi hár kantur frá skotti yfir í farþegarými.

Eitthvað sem myndi reyndar ekki pirra mig sem eiganda.

Sætin eru mjög þægileg og minna helst á hægindastóla.
Rýmið í aftursætum er ágætt og sætin halda vel við.
Að því sögðu er flest annað við þennan bíl bara jákvætt. Útlit fannst okkur sérlega vel heppnað.

Bíllinn er flottur með háa boddýlínu og frekar litla glugga sem gerir hann afar sportlegan. Það virðist ekkert trufla útsýnið þegar inn er komið – nema í gegnum afturgluggann.

Renault lætur reyndar ekki slá sig út af laginu vegna slíkra smáatriða því í baksýnisspeglinum er myndavél sem sýnir mjög vel afturfyrir bílinn og til hliðar við hann.

Gólf er slétt - rafhlaðan er þunn og liggur upp undir aftursætin.

Sérlega þægilegur í akstri

Það er alveg sérstaklega gott að aka bílnum. Hann er léttur í stýri, hann er rásfastur og liggur vel og leggst ekkert í beygjur.

Þar spilar væntanlega lágur þyngdarpunktur inní. Rafhlaðan sem framleidd er af LG í samvinnu við Renault er ekki nema 11 sentimetra þykkt og liggur neðst í bílnum og upp undir aftursæti.

Þess má geta að þyngdarpunkturinn er um 9 sentimetrum lægri en í eldri Megane bílnum en heildarhæð bílsins er talsvert lægri en á Renault Zoe.

Hér er allt stafrænt en samt eru takkar fyrir loftræstingu og fleira.
Efnisval er ágætt en flest í innréttingunni er framleitt úr endurunnu plasti. Þó ekki sætin í þessum bíl, þau eru með leðuráklæði.

Renault eru svo sem engir nýgræðingar í bílaframleiðslu þannig að hugvit og hagkvæmni koma manni ekki á óvart. Rafhlaðan er fóðruð með „foami“ sem minnkar hljóðmengun inn í bílinn og þessa tækni kalla Renault menn „cocoon technique“ en rafhlaðan er eins og í hýði undir bílnum.

Í bílnum er varmadæla sem nýtir hitann frá mótornum til upphitunar bílsins en rafhlaðan er vatnskæld/eða hituð eftir atvikum.
Grunngerðir koma á 18 tommu felgum en dýrari gerðirnar koma á 20 tommu felgum.

Hægindastólar

Sætin eru enn eitt undrið. Ég hef ekki enn fundið franskan bíl með lélegum eða óþægilegum sætum. Framsætin eru sportleg, halda vel við og þá sérstaklega við bak og mjaðmir.

Ekki er gerður greinarmunur á fólki með stóra rassa eða þykka leggi – það fer einfaldlega vel um mann í sætunum.

Aftur í eru sætin einnig þægileg og þar eru sætisbökin eftirtektarverð fyrir mýkt og aðhald.

Hægt er að panta nudd í sæti í Iconic gerðinni.

BL býður Renault Megane E-Tech í fimm útfærslum. Um er að ræða tvær rafhlöðustærðir, 40 kWst. og 60 kWst. Drægni skv. WLTP staðli er frá 300 km. og upp í 470 km. Allt eftir veðri, vindum og aksturslagi.

Við mælum með að þið horfið á myndbandsbloggið okkar með þessari umfjöllun til að fræðast meira um drægni og aksturslag.

Fjölbreytni

Reynsluakstursbíllinn var af Iconic gerð en sá kostar um 6.990.000 krónur. Byrjunarverð bílsins er um 5.390.000 krónur en bílar á svipuðu verðbili eru til dæmis Volkswagen ID.3, Hyundai Kona, Volkswagen ID.4 og Aiways U5 svo einhverjir séu nefndir.

Hér er leikið með liti.

Aflið er frá 130 hestöflum í bílnum með minni rafhlöðuna og upp í 220 hestöfl. Sá er um 7.5 sek. í hundrað kílómetra á klukkustund.

Ríkulegt úrval

Búnaðarútfærslur eru nokkrar en grunntýpan er nokkuð vel búin. Til dæmis er margmiðlunarbúnaðurinn keyrður með Google stýrikerfi, varmadæla er í öllum gerðum sem sparar orku við kaldara loftslag og flott bakkmyndavél á samt upphituðu stýri.

Hægt er að fá bílinn með háuljósaaðstoð, skyndvæddum hraðastilli, Harman Kardon hljóðkerfi, fjarlægðarskynjurum allan hringinn, nuddi í sætum, þráðlausa farsímahleðslu og rafdrifnum sætum fram í.

Skemmtileg áferð á skrauti í innréttingu.
Okkar mat er að hér sé á ferð nýstárlegur rafbíll sem þróaður er í samræmi við þarfir markaðarins.

Bíllinn er léttari, þökk sé einstaklega þunnri rafhlöðu og staðsetningu drifbúnaðar en bíllinn er framdrifinn. Það er sérlega ánægjulegt að aka bílnum og við hjá Bílabloggi mælum með nýjum Megane E-Tech.

Helstu tölur:

Verð frá 5.390.000 kr. (reynsluakstursbíll 6.990.000 kr.)

Rafhlaða: 40/60 kWh.

Dráttargeta: 900 kg.

Hæð undir lægsta punkt: 13,5 sm.

Drægni: 300/470km.

0-100 km á klst.: 7,5 sek.

Farangursgeymsla: 440 lítrar.

CO2: 0 g/km.

Þyngd: 1.711kg.

L/B/H: 4200/1768/1505 mm.

Gefið út þann:
11/6/22
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.