Reynsluakstur:
Volvo C40
,
árgerð
2022
Umboð:
Brimborg
Aksturseiginleikar, hönnun og efnisval, tækni
Verð, útsýni um afturglugga

Nettur og kraftmikill Volvo C40

Nú þegar Kínverjar eiga orðið hið sænska gæðamerki Volvo skjótast út splunkunýir rafbílar í nýrri línu fyrirtækisins. Fyrstur reið á vaðið hinn knái sportjeppi, Volvo XC40 en nú lítur dagsins ljós ansi vel heppnaður Volvo sem þeir kalla C40.

Aldrifinn kúpubakur

Volvo C40 er lítill krossover eða SUV (Sport Utility Vehicle) og við eyjaskeggjar höfum verið að kalla þetta sportjepplinga. Hvað sem fyrirbærið heitir á okkar ylhýra er um að ræða meðalstóran fólksbíl með aldrifi. Lægsti punktur undir bílinn er rétt rúmir 17 sm.

Til samanburðar er lægsti punktur undir hinn nýja Ford Focus í Active útfærslunni þremur sm. hærri.
Hæð undir lægsta punkt er 17,1 sm.

Fallegur bíll

En nýi Volvo C40 bíllinn lúkkar vel. Hann situr hátt á vegi og virkar á mann sem þrælöflugur sportjepplingur sem kemst meira en hann heldur. Helstu keppinautar þessa nýja bíls eru til dæmis Tesla Y sem reyndar er milljón krónum ódýrari sem sambærilegur Volvo C40 og Audi Q4 sem til er í nokkrum verðflokkum og meðal annars á pari við Volvoinn.

Volvoinn kostar um 8.990.000 kr. í þeirri útfærslu sem við prófuðum.
Volvo C40 er mjög huggulegur bíll.
Smart hönnun og sportlegar línur.

Að vissu leyti markar þessi bíll nokkur tímamót. Hönnun hans ber þess merki að vera umhverfisvænni en margir forvera hans, enda flestallt í innréttingum bílsins endurunnin efni. Þar má nefna gólfteppin sem eru úr flísefni.

Það eru sem sagt engar dýraafurðir sem falla til við framleiðsluna og bíllinn því að sönnu „vegan” (grænkeri).
Allur frágangur er í sérflokki og efnin í innréttingunni eru án dýraafurða.
Fínt pláss fyrir aftursætisfarþega. Höfuðpláss í það minnsta fyrir stóra einstaklinga.
Rafhlaðan liggur eftir endilöngu og lítur út eins og um drifbúnað sé að ræða.

Góður í snjó og hálku

Það fór vel um okkur í reynsluakstrinum þrátt fyrir rysjótt veður en þung færð var og snjókoma á prófunardegi. Við fundum reyndar lítið fyrir veðurfarinu enda bíllinn vel í stakk búinn í smá hálku og slabb. Sætin eru þrælgóð, með mjóbaksstuðningi og rafdrifin á alla kanta.

Að aka bílnum er hrein skemmtun því ekki spöruðum við aflið í bíltúrnum. Enda 0% kolefnisspor þó sprett sé úr spori (auðvitað pössuðum við hámarkshraðann).

Skottið er þægilegt að umgangast og þú leggur beint frá þér inn í bílinn.
Það leynast víða geymslupláss.
....og það er 31 lítra geymsla frammi í líka.

Nægt afl

Volvo C40 er með tveimur 150 kW rafmótorum, einum á hvorri drifrás. Aflið í heild er um 408 hestöfl og togið um 660 Nm. Það þýðir að þess bíll er ansi snöggur af stað enda ekki nema 4.7 sekúndur í 100 km/klst.

Volvo segir að bíllinn eyði um það bil 21 kWst. á hverja 100 km. Það er að sjálfsögðu miðað við bestu aðstæður og skv. WLTP prófunarstaðlinum góða.

Skiptir það nokkru máli, maður bara hleður aðeins oftar? Það er enn þá ódýrt, ekki satt?

Rafhlaðan tekur um 78 kWst./nýtanlegt 75 kWst.

Mælaborðið ljómar í myrkri.

Sannleikurinn um drægni

Drægnin er að sama skapi ágæt eða um 444 km. skv. WLTP staðlinum. Ef reiknað er með að hagkvæmasta notkun sé á bilinu 10 til 80% af rafmagninu erum við að tala um 355 km. raundrægni að hámarki við bestu aðstæður.

Ef tekið er tillit til árstíðar og notkunarstaða bílsins (Ísland í þessu tilfelli) er hægt að draga 25-30% frá þessum 355 km. Þá erum við að tala um raunnotkun upp á um það bil 266 km. á hleðslunni.

Svo er mælt með að fara ekki niður fyrir 10% í hleðslu. Þá erum við komin í um það bil 239 km. sem við komumst á rafhlöðunni.

Ef miðað er við daglega notkun í borginni er þetta meira en nóg fyrir flesta og það miðað við að þú notir ljós, útvarp, miðstöð og varmadælu og akir eins og þú gerðir á gamla Volvoinum með bensínvélinni.

Fínt er að skoða þessar staðreyndir áður en maður les auglýsingabæklingana með rafbílum. Þessar tölur eru reiknaðar út frá mínum eigin rafbíl sem er nýr bíll í svipaðri stærð og Volvo C40 og með svipaða drægni. Það stemmir einnig við upplýsingar á EV-database.

Sérlega vel heppnuð ásýnd mælaborðs.

Öruggur á alla vegu

Volvo C40 fær auðvitað fullt hús stiga í Euro NCAP öryggisprófununum. Volvo er einfaldlega með öruggustu bílum í heimi – ennþá. Það er bakhnykksvörn, hliðarárekstrarvörn og spólvörn með stöðugleikastýringu sem meðal annars skapar gott öryggi.

Hér er allt eins og það hefur verið undanfarin ár.

Hugvit og hagkvæmni

Volvo C40 er hugvitssamlega hannaður bíll. Rafhlöðueiningin sem nú er í flestum bílum staðsett neðst í grind bílsins er sniðuglega fyrir komið í þessum nýja Volvo.

Hluti rafhlöðunnar liggur undir framsætunum og einnig í stokk eftir endilöngum bílnum – líkt og um bíl með hefðbundnum öxli sé að ræða. Það gerir að verkum að fótapláss fyrir aftursætisfarþega er meira en ella.

Hinsvegar er stokkur í miðjunni sem truflar þá miðjufarþegann aftur í. Eina sem við fundum að þessum bíl er að afturglugginn er nokkuð snollaður og gerir að verkum að útsýni er af skornum skammti í baksýnisspeglinum. Það er síðan hugvitssamleg blindhornaviðvörun í stórum hliðarspeglinum sem eykur öryggið.

Hitt atriðið sem gæti verið umhugsunarvert er verðið en það er talsvert hátt miðað við frænda hans Polestar sem reyndar er byggður á nákvæmlega sama grunni og með svipaðan búnað.

Mjög gott er að umgangast bílinn.

Tæknilega fullkominn

Volvo C40 er búinn varmadælu og þú getur auðveldlega hitað bílinn og rafhlöðuna upp á köldum vetrarmorgnum áður en lagt er í hann. Mælt er með að hita rafhlöðuna upp áður en lagt er í hann á rafbíl á köldum dögum til að minnka straumtap vegna kulda. Þú getur stillt þetta bæði í bílnum eða í appi sem fylgir honum.

Afþreyingar- og stýrikerfið er ættað úr smiðju Google og því þarftu ekki að tengja símann við bílinn nema til að tala í gegnum blátannarbúnaðinn. Volvo C40 er nettengdur.

Farangursgeymslan er þokkaleg miðað við samkeppnisbílana en hún rúmar 413 lítra og hægt að auka hana upp í rúma 1200 lítra með niðurfellingu sæta. Brimborg býður svo upp á dráttarbeisli sem aukahlut en bíllinn á að geta dregið um 1800 kg. Fjöðrun er ívið mýkri í þessum bíl en svipuðum gerðum rafbíla. Það gerir aksturseiginleika bílsins enn skemmtilegri.

Hér er hægt að hlaða allt að 22 kW í þriggja fasa heimahleðslustöð á 7 tímum. Hægt er að hlaða í 150 kW hleðslustöð á um 40 mínútum frá 0-80%

Hentar án efa mörgum

Volvo C40 er sérlega fallegur bíll. Það fylgir honum einnig sá kostur að frábært er að aka honum. Fótaplássið í framsætum er afar gott og miðjustokkurinn ekki fyrir fótunum á fullvöxnum einstaklingum. Þetta er fjölskyldubíll, ferðabíll og borgarbíll sem hentar öllum aldurshópum.

Helstu tölur:

Verð frá 8.411.920 kr. Reynsluakstursbíll af Premium gerð á 8.890.000 kr.

Rafhlaða: 78 kWh.

Dráttargeta: 1800 kg.

Drægni: 444 km.

Hæð undir lægsta punkt: 17,1 sm.

0-100 km á klst. 4,7 sek.

Farangursgeymsla: 1.205 lítrar að hámarki.

CO2: 0 g/km.

Þyngd: 2.132 kg.

L/B/H: 4.440/2.034/1.591 mm.

Gefið út þann:
27/1/22
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.