Reynsluakstur:
Volvo S60, R-design
,
árgerð
2019
Umboð:
Brimborg
Útlit, fjöðrun og sæti

Negla frá Volvo

Nýjasta útgáfan frá Volvo Cars er endurhannaður S60 ásamt skutbílnum V60. Þetta er þriðja kynslóð 60 bílsins frá Volvo og óhætt segja að nú séu þeir með neglu. Reynsluakstursbíllinn af S60 gerðinni,T5 sem er rétt tæplega 250 hestafla bensínvél, Osmium grár með sanseringu. 20 tommu, fimm arma álfelgur og í R-design útgáfu. Hreint út sagt:  „Geggjaður bíll“. Bíllinn er að sjálfsögðu náskyldur nýja S90 bílnum og erfir margt frá XC60 og XC90 bílunum.

Það er einnig gleðiefni að Volvo sýni þá djörfung að setja alvöru fjölskyldu sportbíl á markað þegar bílaframleiðendur hamast við að hanna litla sportjepplinga eins og enginn sé morgundagurinn.
Glæsilegt útlit prýðir nýjan Volvo S60.

60 línan frá Volvo verður aðeins boðin með bensínvélum. Bílaframleiðendur sjá sér greinilega ekki hag í að halda úti framleiðslu á dísel vélum í koltvísýringsmengaðri umræðu útblásturs og mengunar og hafa því í  meira mæli flutt sig yfir í upp tjúnaðar bensínvélar sem eyða minna og menga síður. Hins vegar er Volvo S60, T5 með túrbínu og 2 lítra vél sem er töluvert eyðslugrönn enda eyðir hún á milli 6-7 ltr. á 100 km. í blönduðum akstri, miðað við þetta stóran og aflmikinn bíl.

Innarými er sportlegt og allur aðbúnaður hinn besti. Efnisval er fallegt og stílhreint.

Vel hönnuð fjöðrun

Tveggja arma gaffalfjöðrun að framan og innbyggð liðafjöðrun frá Volvo að aftan gera bílinn rásfastan, halda góðri þyngdarstjórnun í beygjum og sveigjum og gerir að verkum að bíllinn er mjög skemmtilegur í akstri.  Átta gíra Geartronic sjálfskiptingin er lipur og skiptir bílnum á réttum augnablikum. Gerðir í boði eru Momentum, Inscription, R-design og Polestar edition.

Í sportstillingu breytist fjöðrun bílsins og verður stífari.
R-design kemur með 18, 19 eða 20 tommu felgum eftir óskum.
Volvo gæðin leyna sér ekki í smáatriðunum.
Volvo S60 steinliggur á veginum og er sérlega rásfastur.

Þrjár öflugar vélar í boði

Reynsluakstursbíllin er með T5 vél sem skilar um 250 hestöflum með kolefnisútblæstri upp á 149 gr./km. Einnig eru í boði T6 og T8 tengitvinnvél og eru sú útgáfa með aldrifi.  T6 vélin skilar um 316 hestöflum en T8 vélin rúmum 400 hestum.  Í tengitvinn útgáfunni er það bensínmótor sem drífur framhjólin og öflugur rafmótor afturhjólin.  S60 er búinn fjölbreyttum aksturstillingum sem auðvelt er að skipta á milli í akstri. Pure akstursstillinginn er hugsuð fyrir bæjaraksturinn og þá er einungis keyrt á rafmagni þegar um tengitvinn vél ar að ræða, Power stillinginn sér um kraftinn og sjálfgefna Hybrid-stillingin skiptir á milli aflgjafa eða sameinar þá, til að gera aksturinn eins þægilegan og hagkvæman og hægt er. T8 er hægt að fá í Polestar útgáfu.

Volvo S60 er fáanlegur í Momentum, Inscription, R-design og Polestar útgáfum.
Nýr Volvo S60 er heldur betur augnayndi.

Við tókum góðan rúnt á Volvo S60 og upplifunin var satt best að segja frábær. Með T5 vélinni stendur bílinn sig mjög vel og sameinar bæði aksturshæfni og þægindi. Það hefði kannski mátt finna örlítið betri viðtökur þegar gefið er inn með það í huga að ná mikilli hröðun á stuttum tíma en T5 vélin er um 6.5 sekúndur að koma bílnum úr kyrrstöðu í 100 km hraða. Hins vegar ekkert til að kvarta yfir því þá pantar maður einfaldlega T6 eða gengur alla leið og fær sér T8 bílinn.

Það sem kemur kannski mest á óvart er hversu bílinn er hárnákvæmur í stýri og steinliggur á götunni  þó svo vegyfirborð sé mismunandi eins og gerist og gengur með íslenska vegi. Í beygjum á töluverðum hraða virkar vel hönnuð fjöðrun Volvo sérstaklega vel.

Hönnuðir Volvo hafa í tímans rás verið frekar íhaldssamir hvað útlit varðar en þessi nýi S60 bíll er heldur betur augnayndi.  Sterkleg hönnun og stílhreinar línur, frábær ljósahönnun og lágmörkun á krómpjátri gerir bílinn einstaklega sportlegan í útliti. Að innan er bílinn ekki síður augnakonfekt.  Það er ekki verið að troða tökkum á hina og þessa staði að óþörfu. Einfaldur 9 tommu skjár í miðju bílsins inniheldur allt stjórnkerfi bílsins. Aðgengilegur upphafsskjár leiðir mann inn í aðeins flóknari undirskjái sem bjóða upp á nær óteljandi stillimöguleika á þægindum. Í bílnum er að sjáfsögðu bakkmynadavél sem skilar kristaltærri mynd á skjáinn.

9 tommu tölvuskjár með flottu notendaviðmóti fyrir allt stjórnkerfi bílsins.
Sportlegur afturendinn og R-design stuðarar sem gera bílinn enn vígalegri.

Býst við að truflandi gæti verið að fikta mikið í skjánum og stillingum í stjórnkerfi í akstri en stjórnun hljómtækja, sem eru ekki af verri gerðinni, Harman-Kardon eru einnig í stýrinu. Hægt er að sérpanta Bower & Wilkins hljómkerfi í bílinn með 15 hátölurum.

Að sjálfsögðu fékk Volvo 60 línan fullt hús stiga í árekstrarprófun Euro NCAP með fimm stjörnur. Bílinn skoraði 96% í árekstraröryggi fyrir farþega og mjög hátt í öðrum þáttum.

Öryggið hefur ávallt verið í fyrsta sæti hjá Volvo enda eru Volvo bílar meðal þeirra öruggastu í veröldinni. Nýja 60 línan er búin radarstýrðri neyðarhemlun sem skynjar umferð á móti, umferð við hlið bílsins og ef eitthvað fer fyrir bílinn á ferð. Einnig er bílinn búinn skynvæddum hraðastilli, akreinavara og blindhornaviðvörun.

Stafrænt mælaborð er staðalbúnaður í öllum nýjum Volvo bílum.

Þægindi og sportfílingur

Leðurklædd sæti Volvo S60 eru eins og bestu hægindastólar með óteljandi stillingum sem gera aksturinn enn þægilegri. Til að mynda er alvöru setu framlenging í framsætunum fyrir leggjalanga einstaklinga  og hægt að hækka og lækka. Sætin eru rafdrifin og með rafdrifnum bakstuðningi.

Gott aðgengi og frábær sæti. Helst til lágur þegar sest er inn og stigið er út en Volvo V60 R-design er fjölskyldusportbíll. Hægt er að setja sætastillingar í minni.

Ekkert plássleysi

Farþegarýmið er einstaklega rúmgott og fótapláss afturí er meira en maður á að venjast í þessari stærð af bíl.  Aftursætin eru ekki niðurfellanleg og gæti það talist galli hjá einhverjum en á móti kemur að hægt er að opna sætaröðina í miðjunni sem hentar vel fyrir skíði eða einfalda flutninga.

Einstaklega gott fótapláss í aftursætum.
Skottið er rúmgott og hægt er að opna á milli þess og farþegarýmisins. Hægt er að sérpanta raf-niðurfellanleg aftursæti.

Hola í höggi hjá Volvo

Við gætum örugglega skrifað 60 blaðsíðna kaflaskipta skýrslu um þennan nýja Volvo S60 en látum það sem sagt hefur verið nægja. Þú getur hannað nýja Volvoinn þinn á vef Brimbrgar og valið í hann það sem þú vilt. Bílinn er ríkulega búinn staðalbúnaði og hægt að bæta við fjölda aukahluta. Allt eftir þínu höfði. Niðurstaðan er þessi: Volvo er hér með algera neglu, þriggja stiga körfu, fullt hús stiga eða holu í höggi. Vel heppnaður fjölskyldu sportbíll sem stendur fyllilega undir nafni. Hann stenst nokkuð vel samanburð við samkeppnina eins og BMW 3, Jaguar XE og Alfa Romeo Giulietta samkvæmt erlendum bílagagnrýnendum en það helsta sem hefur verið gagnrýnt er að svona stór sportbíll virki betur afturdrifinn með aksturseiginleika að leiðarljósi. Það er og verður matsatriði.

Volvo S60 er framleiddur í Charleston, South Carolina í bandaríkjunum.
Volvo Sensus afþreyingarkerfið býður upp á fjölbreytta afþreyingu. Apple CarPlay, Android Auto og Wifi Hotspot.

Gefið út þann:
21/7/19
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.