Reynsluakstur:
Toyota Hilux
,
árgerð
2021
Endurbætt fjöðrun, tæknibúnaður, sjónlína, lítið vélarhljóð
Enginn spegill í sólskyggni ökumanns

Margslunginn og sprækari Hilux

Félagarnir í bílaþáttunum TopGear gerðu hinn heimsfræga Toyota Hilux enn frægari þegar þeir fóru á Norðurpólinn á slíkum bíl, breyttum af Arctic Trucks.  Það var árið 2007. Árið 2010 fór einn þeirra, James May, upp á glóandi Eyjafjallajökul á Hilux. Skilst mér að rauður Hilux hafi notið mikilla vinsælda í kjölfarið en bílarnir í TopGear voru einmitt fagurrauðir.

Árið 2003, höfðu Bretarnir þrír markvisst reynt að stúta Hilux og sýndu áhorfendum hvernig það gekk. Sú stórfurðulega tilraun gekk út á að misþyrma blessuðum bílnum með það fyrir augum að athuga hvað hann þyldi.

Umræddur bíll var frá árinu 1988 og sýndi akstursmælirinn 305.775 kílómetra. Eftir að hafa gert allt mögulegt og ómögulegt (m.a. varpað honum í saltan sjóinn)  á bílnum komu þeir honum fyrir uppi á 73 metra háu íbúðar­húsi sem til stóð að sprengja.

Það var sprengt og niður hlunkaðist bíllinn. Án mikilla tilfæringa fór hann í gang eftir ósköpin og þar með var það ljóst að ekki einu sinni þessum mönnum tókst að eyðileggja Toyota Hilux.

Hvað er málið með þennan Hilux?

Ekki veit ég hvernig þetta byrjaði hjá TopGear, þ.e. að reyna markvisst að granda Hilux. Af hverju Hilux? Sennilega af því að það er áskorun. Ekki beinlínis hlaupið að því að ráða niðurlögum ódrepandi tækis sem er margrómað fyrir sterka grind og sterka yfirbyggingu. Smá WD40, ást og umhyggja og einhver verkfæri voru allt sem þurfti til að koma umræddri ´88 árgerð af stað á ný.

Ekki var skipt um varahluti í bílnum í þessari heimsfrægu tilraun.

Ástæðan fyrir því að þetta er rifjað upp hér er einfaldlega sú að þegar ég prófaði 2021 árgerðina af Hilux fór ég að hugsa um hinar fjölmörgu tengingar þessarar tegundar við ótrúleg afrek og ævintýri.

Arctic Trucks (AT) hafa m.a. breytt Hilux í stórkostleg brautryðjandi tæki sem hafa komið mönnum á staði býsna langt frá byggðu bóli.

Á suðurskautinu er floti 4x4 og 6x6 AT-breyttra Hilux sem notaðir eru í rannsóknarleiðangra og hin ýmsu verkefni. Hilux er víða og skýtur upp „kollinum“ í tengslum við áhugaverða hluti og það sem jafnvel var talið ómögulegt.

Fyrir ofurhetjur, sjóara, mig og þig

Það mætti halda, miðað við þennan langa inngang, að hér sé ætlunin að greina frá einhverju ótrúlegu sem ég gerði þegar ég reynsluók bílnum. Til dæmis að ég hafi ekið yfir úfið hraun eða eitthvað álíka.

Nei, lesendur góðir, ekkert svoleiðis.

Hins vegar naut ég þess að prófa bílinn við hefðbundnar aðstæður á suðvesturhorni landsins.

Margir hafa í gegnum tíðina sagt að Hilux sé algjörlega ódrepandi vinnutæki en hins vegar einkar óþægilegur og hastur ferðabíll.

Það er vissulega rétt að Hilux getur verið nokkuð hastur, enda léttur bíll með öfluga drifrás. Nú er ég komin út á hálan ís, því drifbúnaður, hásingar, hlutföll, afl- og eðlisfræðilegir kraftar er eitthvað sem ég eftirlæt öðrum að fjalla um.

Nema hvað! Það er mikill munur á fjöðruninni enda búið að gera töluverðar breytingar og upp úr stendur, án tæknilegra útskýringa hér, að það er ljómandi fínt að aka Hilux og gæti ég vel hugsað mér hann bæði sem vinnuþjark og fjölskyldubíl. Það er einmitt þetta tvennt sem nýr Hilux á að tengja betur saman.

Pallhúsið er ekki endilega það sem allir vilja hafa á pallbílum. Æ fleiri kjósa frekar rennihlíf yfir pallinn og fyrir Hilux er fáanleg létt og lipur álhlíf sem hægt er að læsa og ver hún góssið á pallinum fyrir vatni og vindi. Aukabúnaður á borð við stuðarahlíf, veltigrind og hlífar fyrir framhluta o.fl. er hægt að kaupa og breyta þannig notagildi bílsins.

Ódýrasta gerðin gæti hentað sem vinnubíll sjóarans, mikið breyttur Hilux fyrir ofurhugana sem ætla yfir pólana og svo hæfilega breyttur, 33” t.d. með brettaköntum, pallloki og pallklæðningu fyrir mig. Og ekki má gleyma dráttarkróki! Það er með öðrum orðum hægt að setja saman Hilux á ýmsa vegu og þess vegna segi ég að hann sé margslunginn.

Ný vél; hljóðlát og öflug

Vélin í bílnum er frábær að mati undirritaðrar! Þetta er 2,8 lítra dísilvél sem skilar 204 hestöflum og rosalegu togi, eða allt að 500 Nm togi takk fyrir! Með öðrum þá er útkoman bíll sem er öflugur og seigur. Auðvitað vinnur margt saman eins og drifhlutföll, skipting og fleira sem heitir fallegum nöfnum en upplifunin er það sem hér skal koma fram.

Við könnumst nú flest við rymjandi og jafnvel glamrandi dísilvélahljóð. Það getur verið notalegt og minnt á gömlu góðu dagana úr sveitinni. En að sama skapi getur verið algjör snilld að vera hreinlega laus við þetta hljóð. 2,8 lítra vélin er með eindæmum hljóðlát og minnir á þýða og malandi bensínvél. Þegar við mæðgin settumst inn í hlýjan bílinn eftir myndatöku á Hópsnesi sagði sonur:

„Ætlarðu ekki að setja í gang?“ Nei, bíllinn var í gangi! Hljóðlátur eins og vel upp alinn herramaður.

Þegar fjölskyldan fer á flakk skiptir miklu máli, að okkar mati, að sá sem hlýtur þau örlög að sitja aftur í, heyri í þeim sem sitja á „fyrsta farrými“ og í jeppum og sérstaklega pallbílum getur það reynst býsna erfitt.

Í Hilux með þessa vél: Ekkert mál. Sonur var ekki afskiptur þó hann sæti aftur í. Annað sem hann nefndi var að hann sæti sérlega hátt og sæi vel út. Stráksi er nú ekkert peð en þetta er góður punktur. Börn vilja sjá út!

Því skal haldið til haga að bíllinn fæst einnig með 2,4 lítra dísilvél.

Draumabíll Marty McFly

Toyota Hilux kom fyrst á markað árið 1968 og hefur komið víða við. Í bæklingi Toyota um bílinn eru margir bráðskemmtilegir fróðleiksmolar um Hilux (bæklingurinn er rafrænn og má nálgast á vef Toyota) og einn þeirra tengist myndinni Back to the Future. Michael J. Fox lék eftirminnilega Marty McFly og var það draumur McFly að eignast fjórhjóladrifinn, svartan Hilux með löngu húsi af árgerð 1985.

Eins og glöggir muna þá spilaði hinn svarti Hilux mikilvæga rullu í myndinni, fram og aftur í tíma. Skemmtileg tenging og alltaf gaman að horfa á Back to the Future!

Heldur bílstjóranum við efnið - og veginn!

Jæja, aftur til framtíðar! Hilux er í dag búinn geysimiklum öryggisbúnaði og sérfræðingarnir í Japan vita sannarlega hvað þeir syngja bæði þegar kemur að tækni- og öryggisbúnaði.

Toyota Safety Sense kallast kerfi sem skynjar og greinir m.a. gangandi og hjólandi vegfarendur og lætur bílstjórann vita af því sem mannsaugað gæti séð aðeins of seint.

Kerfið byggir bæði á notkun myndavéla og leysigeislatækni og ætti því að vera býsna nákvæmt.

Svo er það eitt af mínu uppáhalds: Akreinaskynjarinn! Íslenskir vegir eru ekki alveg í toppgæðum og merkingarnar (málningin) á malbikinu oft illlæsilegar fyrir akreinaskynjara. Því miður. En oft nær bíllinn að lesa veginn rétt og það er algjör snilld hvernig þetta virkar í Hilux; Aki maður yfir óbrotna línu, eða brotna án þess að gefa stefnuljós, sveigir bíllinn (stýrið snýst sjálfkrafa) aftur inn á veginn og eins og hann hægi örlítið ferðina.

Þetta virkar þó ekki þannig að völdin séu alfarið tekin af bílstjóranum heldur er hann minntur á að halda sig á veginum bæði með þeim hætti sem lýst var hér að ofan en líka mynd- og hljóðrænt. Þetta gerist mjög yfirvegað en ákveðið, ef svo má segja.

Þetta má stilla á ýmsa vegu og auðvitað er líka hægt að slökkva á akreinaskynjaranum.

Aðstoð við að taka af stað upp í móti í brekku og spólvörnin er eitthvað sem gott er að geta treyst á t.d. þegar hestakerra hangir aftan í. Þrjú og hálft tonn getur Hilux dregið, auk þess sem burðargeta er eitt tonn. Hér kemur einmitt enn ein snilldin í öryggisbúnaði Hilux: Stöðugleikastýring eftirvagns. Stýringunni er ætlað að draga úr sveigju eftirvagns í roki, á ójöfnu undirlagi og í beygjum. Auk þess sem hún greinir hristing, vagg og velting og með einhverri tæknisnilld dregur úr rugginu.

Þegar allt kemur til alls...

...þá er nýr Hilux ferskur og lipur bíll. Kaupendur hafa val um ýmsar útfærslur og pakka (t.d. torfærupakka, hlífðarpakka og flutningapakka) sem breyta bílnum mjög, bæði hvað útlit snertir og notagildi.

Í bílnum eru allir helstu tengingarmöguleikar: Bluetooth, hljóðinntak, USB-tengi, raddstýring o.s.frv. 220 V innstunga er í hólfi í miðstokki og nóg af öðrum tengjum. Gamli góði geislaspilarinn fær að lifa í þessum bíl þrátt fyrir allar tækninýjungar og spilar hann bæði WMA og MP3. Þá vantar ekkert nema segulbandstækið og ferðaplötuspilarann!

Sumir segja (ath. hef BARA heyrt karlmenn segja þetta) að maður þurfi nú ekki að hafa spegil í sólskyggni ökumanns því ekki eigi að glápa á sjálfan sig meðan á akstri stendur.

Auðvitað er spegillinn ekki hugsaður til brúks meðan á akstri stendur! Hann er til að bílstjóri geti tryggt að hann rjúki ekki út úr bílnum og beint á fund með spínat á milli tannanna.

Eða svo hægt sé að ganga úr skugga um að sá er í hann horfir sé með andlitið á réttum stað. Þar sem það var síðast. En, nei. Í Hilux er spegillinn bara í sólskyggni farþegans og það þykir mér fúlt en þó ekki frágangssök.

Fyrst ég fann eitt til að tauta yfir þá man ég eftir einu til viðbótar sem er ekki alveg eins hégómlegt og fyrra atriðið og það er að ekki er hiti í stýri. Hef ég átt bíl með hita í stýri? Nei. Kemst maður af án upphitaðs stýris? Já. Þannig að þetta er ekki vandamál. Lausnirnar við þessu tvennu eru: Spegill í töskunni, hanskar á höndum og málið er dautt!

Helstu tölur:

Verð frá: 7.090 þús. kr. Reynsluakstursbíll, Invincible 11.445.909 kr. (janúar 2021).

Vél: 2.800 rms.

Hestöfl: 204.

Tog: 500/1600-2800 Nm@snm.

CO2: 194 g/km.

Eigin þyngd: 2130-2355 kg.

L/B/H 5325/1900/1815 mm.

Eyðsla bl ak: 6,8-8,3 l/100 km.

Pallur - innanmál:

Lengd: 1525 mm.

Breidd: 1540 mm.

Ljósmyndir: Malín Brand, Óðinn Kári og Toyota

Gefið út þann:
6/2/21
í flokknum:
Jeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Jeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.