Reynsluakstur:
Fiat 500e La Prima
,
árgerð
2022
Umboð:
Ísband
Mjög viðunandi drægni, mikið af staðalbúnaði
Lítið pláss í aftursæti

Lipur, snöggur og með ágæta drægni

Flott ítölsk hönnun á bíl sem er lítill að utan en stærri að innan og með fullt af búnaði

Fiat 500 (Cinquecento á ítölsku) var lítill fjögurra sæta borgarbíll með vélinni að aftan sem var framleiddur og markaðssettur af Fiat Automobiles frá 1957 til 1975.

Kom á markað á sínum tíma sem sá „nýi” (Nuova) 500 í júlí 1957, sem arftaki 500 „Topolino“, þetta var ódýr og hagnýtur lítill bíll.

Fiat 500, sem var 2,97 metrar, og upphaflega knúinn af 479 cc tveggja strokka, loftkældri vél, var 24,5 sentímetrum minni en Fiat 600, sem kom á markað tveimur árum áður, og er talinn einn af fyrstu sérhönnuðu borgarbílunum.

Árið 2007, 50 ára afmæli Nuova 500, setti Fiat á markað annan nýjan 500-bíl, útlitslega innblásinn af 1957 Nuova 500, núna með vélina að framan og framhjóladrifi.

Á þessum tíma var ég ekki að skrifa um bíla, en átti samt leið til Tórónó, heimaborgar Fiat, ári eftir frumsýninguna og lagði leið mína út að verksmiðjunum gömlu, Lingotto.

Þar mátti sjá nokkra af þessum þá til þess að gera splunkunýju bílum, og mikið klæjaði mig í „prufutúr“.

Ekki varð að því þá og ég reyndi síðan í tvígang að fá svona bíl sem bílaleigubíl á ferðalagi í útlöndum, en það gekk ekki heldur, fékk Polo í bæði skiptin í staðinn.

Aldrei varð því að því að ég næði að taka svona bíl í reynsluakstur, en núna er röðin hins vegar komin að rafdrifna arftakanum, sem Ísband í Mosfellsbænum býður í tveimur útgáfum, 500e Action og síðan 500e La Prima, betur búinni 3ja hurða útgáfu, sem er í reynsluakstri hjá okkur í dag.

Skemmtileg hönnun

Það fyrsta sem grípur augað á Fiat 500e er skemmtileg, ávöl hönnun bílsins að utan. Framjósin munna á tvö „augu“ sem horfa fram á veginn, allan línur eru mjúkar.

Hliðarhurðirnar eru stórar, og ná vel aftur fyrir miðjan bílinn og opnast vel út og gefa mjög gott aðgengi að framsætunum.

500e er fáanlegur hjá Ísband í tveimur gerðum, grunngerðin er 500e Action, en bíllinn sem við erum með í reynsluakstri, La Prima, er betur búin af gerðunum tveimur.

Skoðum grunngerðina nánar:

500e Action kemur með hæðarstillanlegu stýri, hita í afturrúðu, rafdrifnum rúðum, þráðlausri hleðslu fyrir farsíma, varmadælu, rafdrifinni sjálfskiptingu, afturrúðuþurrku, vökvastýri, sjálfvirkri miðstöð með loftkælingu, 12v tengi á milli sæta og í farangursrými, höfuðpúðum á aftursætum, niðurfellanlegt aftursætisbak 50/50, hillu yfir farangursrými, þráðlaust Apple/Android Carplay, hita í sætum, 50KW hraðhleðslu, vösum aftan á framsætisbökum, ESC stöðugleikastýringu, 15″ stálfelgum, loftþrýstingsskynjara í dekkjum, hvítri baklýsingu í mælaborði, LED dagljósum og afturljósum, ljósi í farangursrými, LED ljósi yfir miðjustokk, þokuljósi að aftan, rafdrifinni handbremsu, samlitum hliðarspeglum, rafdrifnum upphituðum útispeglum, 7″ útvarpsskjá, lykillausri ræsingu, hraðaskiltalesara og 7″ mælaborði.

Sérlega vel búinn

Til viðbótar í La Prima:

500e La Prima útgáfan kemur að auki með sjálfdimmandi baksýnisspegli, armpúða, 10,25″ útvarpsskjá með leiðsögukerfi, 6 hátölurum, blindhornsvörn, akreinavara sem heldur bílnum á miðri akrein, glerþaki, sjálfvirkum aðalljósum og háljósum, leðursætum (Ecoleather), LED aðalljósum, 17″ álfelgum, 360°fjarlægðaskynjara að framan, aftan og á hliðum, regnskynjara, 85KW hraðhleðslu, fjarlægðastilltum hraðastilli með bakkmyndavél, 42KW rafhlöðu og allir litir nema mattur og Tri-Coat.

Það fer vel um ökumanninn

Það vakti strax athygli hve það fer vel um ökumanninn undir stýri í þessum bíl. Það er gott pláss, jafnt fyrir höfuð og fætur, góð yfirsýn fram á veginn, og öll stjórntæki eru innan seilingar.

Bólstrun sætanna heldur vel um mann í akstrinum.
Stóri 10,25 tommu skjárinn veitir mikið af upplýsingum, en er ekki alveg eins þægilegur álestrar eins og ég hefði kosið. Á móti kemur að Fiat fær hrós fyrir þá staðreynd að fyrir neðan skjáinn er röð af tökkum til að stjórna því flesta sem ökumaðurinn þarf að breyta í akstrinum. Og eitt enn til „þæginda“ – takkinn til að hækka og lækka í útvarpinu er fremst á miðjustokknum á milli sætanna á mjög góðum stað. Öðrum stillingum útvarps er hægt að breyta með hnöppum á stýrinu.
Gott geymsluhólf með renniloki er í miðjustokki og þar fyrir framan er hnappar til að breyta um akstursstillingar vinstra megin, og rúlla til að hækka eða lækka í útvarpinu hægra megin. Í miðjuni er rafstilling á stöðuhemli.
Stýri sem fellur vel að hendi, með snjöllum hnappastillingum, gera akstursupplifunina ánægjulegri. Fyrir utan framhlið hennar, þar sem stýringar á því sem kemur fram á mælaborðsskjánum eru vinstra megin og hraðastillistillingar hægra megin, þá eru einnig hnappar á bakhlið stýrisins sem eru tileinkaðir stýringum á útvarpi og miðlum, þetta gerir það að verkum að skipt er um útvarpsstöð/lag eða hljóðstyrk þar sem maður þarf ekki að losa handarstöðu sína af stýrinu. Framan við stýrið situr 7 tommu stafrænn mælaborðsskjár, sem hægt er að sníða að eftir óskum ökumanns.
Stórar hliðarhurðinar veita mjög gott aðgengi að framsætunum.

Nægt afl og drægni

Rafhlaðan í er 42KW og er 8 ára ábyrgð á rafhlöðu og 5 ára ábyrgð á bílnum að öðru leyti. Drægnin er gefin upp305 km skv. WLTP í blönduðum akstri og allt að 433 km innanbæjar. En við erum búin að læra að tölur framleiðanda varðandi drægi verður að taka með varúð, einkum í okkar kalda loftslagi.

Þegar ég tók við bílnum fullhlöðnum við húsvegginn hjá Ísband þá gaf tölvan í bílnum upp 280 km, sem ég held að sé nærri lagi.

En þegar við horfum til þess að Fiat 500e er fyrst og fremst „þéttbýlisbíll” – bíll sem er ætlaður til styttri ferða innanbæjar í daglegri notkun þá er þetta drægni sem dugar flestum. Meðalakstur hjá fjölskyldum er 25-40 km á dag, sé miðað við daglegar ferðir í og úr vinnu og koma við í búðinni.

Með að minnsta kosti 280 kílómetra „á tanknum“ þá er þessi hleðsla miklu meira en nóg, og þá gefst einnig tími á milli til að hlaða ef þess þarf – kannski bara einu sinni í viku!.

Það kom á óvart hvað mikið er um að vera í vélarhúsinu – hafði reiknað með einföldum rafmótor, en þarna er fullt af búnaði.

Rafhlaðan er 42 kW, og samkvæmt upplýsingum aðila sem hafa prófað þennan bíl til hlítar þá er nothæf geta rafhlöðunnar 37,3 kW.

Samsvarandi afl í hestöflum er 118 hestöfl, sem skila sér vél um leið og stigið er á inngjöfina.

Hægt er að velja um stillingar í akstrinum. Ein er sparnaðarstilling sem tryggir að það sé hægt að komast heim ef orkan á rafhlöðunni er að tæmist, þessi stilling kölluð „Sherpa Mode“ er snjöll akstursstilling til að spara orku og hjálpa til við að komast á áfangastað með því að hámarka drægni bílsins.

Mér sýnist að þessi stilling komi sjálfkrafa á þegar 10% eru eftir á rafhlöðunni.

Það mun hins vegar vera hægt að „framhjátengja“ stillinguna með því að stíga inngjöfina alveg í botn, og nota síðan tækifærið og koma sér úr umferðinni.

Hinar tvær stillingarnar eru „venjuleg“ stilling, sem samvarar ein og hægt er akstri á hefðbundnum bíl með brunavél en hin stillingin tengir saman hleðsluvirkni við hemlun og venjulegan akstur, sem eykur aksturssviðið.

Stórskemmtilegur í akstri

Það er ósköp einföld niðurstaða eftir akstur á Fiat 500e – hann er stórskemmtilegur í akstri. Það var sama hvort verið var að aka á beinum brautum, eða á krókóttu malbiki á „flóttamannaveginum“ ofan Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Bíllinn situr vel á veginum, fjöðrunin er hæfilega stíf og það vottar hvorki fyrir „yfir- né undirstýringu“. Ég hafði fyrir fram reiknað með „sneggri“ fjöðrun vegna þess að bíllinn er á 17 tommu felgum, en slapp vel!

3+1

Fiat 500e La Prima hefur upp á að bjóða sérstæðan kost sem nýtis vel í daglegri umgengni. Á hægri hlið bílins, þeirri hlið sem snýr að gangstéttinni er nefnileg hægt að opna „viðbótaraðgengi“ að aftursætunum, þess vegna hefur La Prima viðbótina 3+1 í nafninu sínu.

Hliðarhurðirnar á bílnum er mjög stórar og veita mjög gott aðgengi að framsætunum. En á hægri hliðinni er hægt að grípa í hurðaropnun í karminum að aftanverðu og þá opnast „hálf hurð“ til viðbótar sem auðveldar mjög taðgengið að aftursætunum.

Einn sniðugur „fídus“ er þegar opna þarf hurðirnar innan frá. Það er ekkert „handfang“ – bara ýtt á hnapp – og rafstýring opnar hurðina!

Aftursætin eru ekki gerð fyrir fullorðna farþegar í langferðum, en duga vel fyrir börn og unglinga.

Ég prófaði sætin og í raun fór ekki illa um mig í þessum sætum, mera að segja höfuðrýmið slapp, en það þarf að færa framsætin vel fram til þess að hné fái nægt pláss.

Það má eiginlega segja að þetta sé eini „ókosturinn“ við bíl sem er í raun lítill að utan en stór að innan!
Hér er hægri hliðin á La Prima 1+3. Fyrst er sjálf hliðarhurðin opnuð…
… síðan er gripið í lítið handfang sem er á dyrastafnum/aftari hurðinni – og hún opnuð út.
Þegar búið er að opna báðar hurðirnar þá opnast ágætt aðgengi einnig að aftursætisbekknum, en jafnframt er hægt að leggja sætisbakið á framsætinu  fram til að auðvelda inngönguna enn frekar.

Farangursrýmið dugar vel fyrir heimsókn í búðina

Farangursrýmið fyrir aftan aftursætin er 185 lítrar sem dugar vel fyrir venjuleg innkaup fjölskyldunnar, en er ekki fyrri langferðir með mikinn farangur. Heildarpláss fyrir farangur með aftursætin niðri er sagt vera 550 lítrar.

Niðurstaða

Niðurstaðan eftir þennan reynsluakstur er einföld: Þetta er skemmtilega hannaður bíll sem uppfyllti allar mínar væntingar til rafbíls í þessari stærð.

Í þessari útgáfu er 500e La Prima mjög vel búinn bíll, það vantar ekkert af þægindabúnaði, öryggisbúnaður og ökumannsaðstoð er til staðar. Fullt af búnaði sem við sjáum venjulega bara í miklu stærri bílum er hér staðalbúnaður.

Fínn bíll fyrir þá sem eru fyrst og fremst á ferðinni í þéttbýli, með næga drægni á rafmagniu.

Þegar ég var með tvo bíla á sínum tíma á heimilinu hefði þetta verið fullkomin lausn á „bíl tvö“.

Fiat 500e La Prima nokkrar tölur

Lengd 3,63 metrar

Breidd 1,69 metrar (með speglum 190 cm)

Hæð 1,48 metrar

Hjólhaf 2,32 metar

Þyngd (óhlaðinn) 1400 kg, heildarþyngd 1725 kg

Drægni 320 km WLTP (okkar tilfinning er 280 km í raun)

Rafhlöðupakki / Stærð Lithium-ion / 42 kWh

Afl 87 kW / 118 hö

Heildarsnúningsvægi 220 Nm

Hröðun 0 til 100 km/klst 9,0 sek

500e La Prima er 3+1 dyra, sjálfskiptur og framdrifinn.

Verð:

Grunngerðin 500e Action frá kr 3.990.000

La Prima 3+1 frá kr 4. 999.000

Gefið út þann:
15/4/22
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.