Reynsluakstur:
Mercedes Benz eCitaro
,
árgerð
2020
Umboð:
Askja

Fyrir rafmögnuð ferðalög

Að ég skuli vera spenntur yfir nýjum strætisvagni þá er alveg hægt að segja að tímarnir séu áhugaverðir. Það eru komin yfir tólf ár frá því að ég hafði það sem atvinnu að keyra strætisvagn og skutla þannig fólki á milli staða. Þegar mér bauðst að prufa Mercedes Benz eCitaro, kviknaði allt í einu aftur ástríðan og löngunin til þess að rúnta um á fallegum strætisvagni. Þó ég hafi hvorki fengið greitt fyrir það í þetta sinn, né komið nokkrum manni á milli staða, var upplifunin samt gífurlega ánægjuleg.

Fólk hugsar ekki dags daglega um strætisvagna, nema þá hvar hann sé og hvenær hann komi. Amma mín hugsar bara um þá þegar hún ekur um bæinn. Þá finnst henni ósanngjarnt að vagnarnir fái sínar eigin akreinar en gamalt fólk ekki. Svo er hún sannfærð um að þeir séu allir að reyna að klessa á sig. Ég hef hinsvegar alltaf haft örlítinn áhuga á strætisvögnum og finnst þeir ekki fá þá athygli sem þessir gripir eiga skilið. Mercedes Benz eCitaro er til að mynda einn fallegasti strætisvagn sem ég hef séð á vegum landsins.

Ég tala nú ekki um tilfinninguna við að taka strætó, því þá fyrst finnst mér ég vera konungborinn, að hafa einkabílstjóra að skutla mér á milli staða á 40 milljón króna bíl.
Spurðu hvaða hönnuð sem er og hann mun staðfesta, að eitt það erfiðasta sem hægt er að hanna er fallegan stóran kassa.

Eins og stafurinn e í nafninu gefur til kynna þá er eCitaro fyrsti rafvæddi strætisvagn Mercedes Benz. Hægt er að panta hann í tveim lengdum og með tveim mismunandi útgáfum af rafhlöðum. Sú fyrri er kölluð NMC og sú síðari er kölluð lithium-metal-polymer solid state. Ef þú þekkir muninn og kosti og galla hvorrar tegundar rafhlöðunnar máttu endilega sleppa því að bjóða mér í kvöldmat. Á mannamáli er helsti munurinn sá að fyrri týpan er fyrir fyrirtæki sem þurfa að hlaða bílinn hratt og gera það í gegnum þar til gert loftnet á þakinu. Seinni týpan er fyrir þá sem þurfa þess ekki.

Þarna má sjá undir vélarhlífina á Mercedes Benz eCitaro. Allt þarna er mun einfaldara og hljóðlátara en í vögnum sem hafa dísilolíu sem aflgjafa. Helst er að sjá hversu mikið pláss verður til við að hafa rafmagnsmótorana á drifskaftinu sjálfu og því er hægt að koma fyrir rafhlöðum í vinstra afturhornið þar sem annars væri dísilvélin.
Þarna í horninu eru rafhlöður eCitaro.
Aftan við fremri hurðina og yfir hægra framhjóli er CCS hraðhleðslutengingin staðsett.

Þegar fyrirtæki, sem hafa í sínum rekstri strætisvagna, kaupa bíla þá þarf að huga vel að hvernig hann á að vera útbúinn. Ef þess gerist þörf er hægt að setja rafhlöður á topp vagnsins og þá hefur hann þetta útlit eins og strætisvagninn á myndunum sem fylgja þessarri grein hefur. Hægt er þó að fá hann aðeins með rafhlöður í skottinu og þá er hann ögn lægri. Ef þú pantar strætisvagn frá verksmiðju er hægt að fá hvaða lit sem er. Áhugavert er þó að ákveða þarf hversu margar hurðir eiga að vera á vagninum. Það er ekki hægt við kaup á Renault eða Toyota.

Aðstaða ökumanns í Mercedes Benz eCitaro.

Það er atvinnubílstjórum mikilvægt að hafa góðan stað til að vinna á. Aðstaðan í Mercedes Benz eCitaro er eins og best verður á kosið. Um bílstjórann er nægt pláss, alveg flatt gólf og lítið sem ekkert óskiljanlegt á mælaborðinu. Hvað meina ég með því? Jú, þú færð borgað fyrir að keyra, en ekki að lesa eigendahandbækur heima hjá þér. Allir takkar verða því að vera auðskiljanlegir og ef þeir hafa AUTO stillingu er fínt að hafa þá bara þar. Hægt er að velta stýrinu og mælaborðinu að bílstjóranum með einum takka. Sætið er á loftpúða og fjölstillanlegt á alla vegu. Mjóbakstuðninginn, hliðarstuðninginn, armpúða, hæðina og hallann á sætinu er ekkert mál að stilla.  Rými bílstjórans er einnig lyft örlítið frá gólfinu og bílstjórinn er því í góðri augnhæð þegar kemur að samskiptum við farþega.

Ökurita og stjórnborð fyrir loftkælingu er að finna í stokknum fyrir ofan ökumann. Ásamt afar einföldu útvarpi.
Speglarnir á eCitaro eru ágætir til síns brúks en best af öllu er að það er bakkmyndavél sem hefur hátt og vítt sjónarhorn fyrir aftan vagninn.
Þægilegast við aðstöðu ökumanns er hve gott útsýni er úr vagninum og hve einfalt og auðvelt er að átta sig á stærð hans.
Það eru ekki margir bílar á markaðnum í dag sem koma með herðatré sem staðalbúnað.
Allt innanrými eCitaro er bjart og fallegt. Við hvert sæti í þessum bíl var USB hleðslutengi og fallegt blátt áklæði á sætunum. Það var líka plastparket á gólfum.

Fyrir farþega vagnsins er innanrýmið ánægjulegur staður til að vera á. Það er mikið af náttúrulegu ljósi sem kemur inn um stóra glugganna. Ef það er dimmt úti þá eru loftljósin hæfilega skær og lýsa vel upp innanrýmið. Sætin eru ágætlega þægileg og nægt pláss um allan bílinn fyrir þá sem neyðast til að standa. Flatt gólfið gerir það að verkum að skrefið inní bílinn er það eina sem þú stígur upp á við. Vagninn er einnig útbúinn þar til gerðum rampi fyrir hjólastóla og barnavagna við afturhurðina. Öll sætin í vagninum sem ég fékk að prófa voru með sætisbelti, ekki það að nokkur farþegi í sögu mannkynsins hafi sett þau á sig. Hver treystir ekki strætóbílstjóranum sínum?

Best af öllu er þó hversu ótrúlega hljóðlátur vagninn er. Hröðun hans er gífurlega mjúk og þægileg. Titringur er enginn á meðan vagninn er stopp. Það er enginn hávaði frá gírkassa, drifi eða dísil mótor og er vagninn því einstaklega ánægjulegur staður til að vera í, hvort sem þú sért farþegi eða bílstjóri.

Lokaorð

Nú eru spennandi tímar þegar kemur að almenningssamgöngum. Það er krefjandi verkefni að koma okkur áfram á milli staða með hagkvæmum og umhverfisvænum hætti. Það var mér mikil ánægja að fá að prufa þennan vagn og kynnast framtíðinni í að koma fólki á milli staða. Vagninn sem hér er myndaður var fenginn í láni frá rútusviði ISAVIA og þakka ég þeim kærlega fyrir. Rekstrarstjóri vagnanna sagði mér að hann sjálfur væri svo spenntur að fá fleiri svona vagna í rekstur hjá þeim að hann ætti erfitt með að leyna spenningnum. Ég skil hann vel og öfunda mennina sem fá svona frábæran vagn sem starfsvettvang. Það er erfitt að mæla með hvernig útgáfu þú ættir að kaupa þér, ég verð að láta Öskju umboð Mercedes Benz á Íslandi um það.

Ég get hinsvegar, sem bæði fyrrum atvinnubílstjóri og notandi almenningsvagna, mælt heilshugar með Mercedes Benz eCitaro. Hann gæti jafnvel verið besta leiðin til að fá mig um borð.

Ef þér lýst á’ann, kauptann!

Gefið út þann:
7/2/20
í flokknum:
Atvinnubílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Atvinnubílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.