Frábær Hyundai Kona tvinnbíll

TEGUND: Hyundai Kona hybrid

Árgerð: 2020

Orkugjafi:

Pláss, fjöðrun, stýri og útlit
Hart plast í mælaborði
137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Frábær Hyundai Kona tvinnbíll

Allt frá því að hann var fyrst kynntur árið 2017 hefur Hyundai Kona notið verðskuldaðrar athygli. Bíllinn sem er í flokki smá-jepplinga „mini-crossover” er nú boðinn sem tvinnbíll hjá BL. Við fengum að prófa þennan skemmtilega bíl á dögunum og urðum ekki fyrir vonbrigðum.

Fallegur rauði liturinn á þessum Hyundai Kona og takið eftir smekklegum felgunum.

Kóna en ekki Kona

Mörgum finnst nafn bílsins koma skringilega út á okkar ylhýra en Kona vísar náttla alls ekki til kvenmanns eins og orðið gefur til kynna heldur er nafngift bílsins sótt til vestari hluta Kyrrahafseyjunnar Hawaii sem heitir einmitt Kona og er borið fram sem Kóna.

Hyundai Kona í tvinnútgáfu.

Það eru reyndar ekki margir hreinir tvinnbílar (full-hybrid) á markaðnum í þessum flokki bifreiða. Toyota CHR er einn af þeim og svo Kia Niro.

Fallegar línur og skemmtileg hönnun í bland vð töff efnis samsetningu.

Toyota hefur um árabil leitt framleiðslu á hreinum tvinnbílum og hafa sýnt að þeir bílar eiga fullt erindi á markaðinn sem sparneytnir og „grænni” bílar en bílar með hreinar brunavélar.

Grillið sver sig í ætt Hyundai fjölskyldunnar.

Tvinnbíll með öllu

Það er talsverður munur á þeim „tvinn kostum” sem eru í boði á markaðnum. Til dæmis eru boðnir bílar, svokallaðir mildir blendingar (mild-hybrid) þar sem lítill rafgeymir hjálpar til með mesta álagið – þegar bílnum er ekið af stað úr kyrrstöðu eða hraðinn er aukinn í skyndingu. Þær rafhlöður eru það litlar að þær gætu ekki þjónað bílnum með með meira afl en rétt til að aka af stað og við skyndilega hraðaaukningu.

Hurðir opnast vel og maður sest inn í bílinn en ekki ofan í hann.
Plássið aftur í er mjög gott fyrir tvo fullorðna og höfuðpláss ágætt.

Tvinnbíll er hins vegar með stærri rafhlöðu sem vinnur með brunavélinni allan tímann og skiptir á milli rafmagns og eldsneytis eftir álagi í akstri.

Stílhrein og vel byggð innrétting gerir aksturinn þægilegan og afslappaðan.

Svo við nefnum þá þriðja kostinn sem er tengitvinn er um að ræða mun stærri rafhlöðu sem kemur bílnum talsverða vegalengd (frá 30-60 km.) á rafmagni einu saman. Þar færðu meiri orku í lengri tíma en þarft á móti að stinga bílnum í samband til að endurhlaða að fullu.

Sætin eru klædd slitsterkum yfirborðs efnum og í aftursætum eru Isofix festingar.

Hyundai Kona byggir á tækni Ioniq bílsins frá Hyundai sem boðinn er í bæði í rafmagnsútgáfu og sem tengitvinnbíll.

Framsætin halda vel við og hafa góðan bakstuðning.

Afl og orka

Vélin í Hyundai Kona skilar 141 hestafli alls. Vélin togar um 254 Nm og meðaleyðslan er um 4.2 lítrar á hundraðið. Bílinn er undir 100 gr. á km. í koltvísýringsútblæstri. Rafmótorinn gefur um 32 kW og togar um 170 Nm. Það þýðir að þegar maður gefur þessum skemmtilega bíl inn – þá svarar hann með fínu afli og er bara nokkuð sprækur miðað við að um tvinnbíl sé að ræða.

Hyundai Kona kemur með 141 hestafla vél og 32 kw rafhlöðu sem gefa bílnum sameiginlega fínt afl.

Rafhlaðan geymir síðan um 1.56 kílóvattstund og hleðst ávallt í akstri bílsins. Hyundai Kona tvinnbíllinn kemur með 6 gíra sjálfskiptingu og rafdrifið stýrið er hárnákvæmt og létt.

Vel búinn og byggður

Innanrýmið er vandað og vel byggt. Þó stakk í augun að plastklæðningar eru úr hörðu plasti sem einfalt hefði verið að leysa með mýkri efnum án mikils tilkostnaðar. Annars er vandað til verka hvar sem litið er. Léttbyggð yfirbyggingin er gerð úr 51,8% sérstyrktu stáli sem skilar mesta árekstraröryggi í þessum flokki bíla.

Farangursrýmið rúmar um 540 lítra og hægt er að fella niður sætin 40/60.

Sætin eru þægileg, stinn og halda vel við bæði bak og rass. Setan hefði mátt vera örlítið stærri þannig að maður rynni síður til í kröppum beygjum. Hyundi Kona hybrid er mjög vel búinn bíll.

Góður kostur sem borgarbíll sem og ferðabíll fyrir fjölskyldufólk.

Við erum að tala um búnað eins og þráðlausa símahleðslu, 7 tommu upplýsingaskjá með Apple CarPlay og Android Auto – skjárinn er breiður og því sérlega þægilegur þegar kveikt er á leiðsögukerfinu. Einfaldur og skýr upplýsingaskjár í mælaborði og flestir hlutar þess stafrænir.

Snjallt Smart Sense öryggiskerfi

Hyundai Kona er búin mjög öflugu öryggiskerfi sem Hyundai kallar Smart Sense. Þar er um að ræða blindsvæðagreiningu, árekstaröryggiskerfi með sjálfvirkri neyðarhemlun, akreinavara og háuljósaaðstoð svo eitthvað sé nefnt.

Góður kostur

Plássið aftur í er veglegt og þar er gott að sitja. Sætin eru stíf og framsætin há þannig að maður getur stungið fótum undir þau og teygt þannig aðeins úr fótunum.

Slétt gólf afturí og fínt fótapláss undir háum framsætunum.

Höfuðrými er gott og bíllinn allur mjög aðgengilegur, bæði um framhurðir og afturhurðir. Skottið er um 540 lítrar og hægt að fella niður sætin 40/60 og stækka þannig farangursrýmið.

Vindskeið með stæl.

Prófunarbíllinn var í Comfort útgáfu en sölumenn Hyundai á Íslandi tjáðu okkur að einfalt væri að sérpanta búnað og gera þannig bílinn að sínum. Endilega kynnið ykkur málið á www.hyundai.is

Hyundai Kona er glæsilegur bíll í flokki smá-jepplinga, hann er gríðarlega vel búinn og til í fjölmörgum útfærslum. Hybrid útgáfan gæti virkað vel fyrir fjölskyldufólk sem ekur bæði lengri og styttri vegalengdir – frábær borgarbíll og hentugur ferðabíll í einum bíl.

Hér má sjá umfjöllun okkar um Hyundai Kona electric.

Helstu tölur:

Verð: 4.990.000.

Vél: Bensínvél og rafmagnsmótor.

Hestöfl: 141 hestafl / 32 kW rafhlaða.

Newtonmetrar: 265.

0-100 k á klst: 11,2 sek.

Hámarkshraði: 160 km.

CO2: 90-95 g/km.

Eyðsla bl. ak: 4,2 l / 100 km.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar