Flottur Maxus Euniq fjölnotabíll
Fyrsti Toyota bíllinn kom til Íslands árið 1965. Salan var treg í upphafi og menn höfðu mismikla trú á þessum japanska bíl. Er það bara þannig að við hræðumst það sem við þekkjum ekki?
Nú, rúmum fimmtíu árum síðar er kominn hátæknibíll frá einu fjölmennasta ríki heims, Kína.

Enn eru menn að velta fyrir sér mismunandi gæðum bíla, hvað þeir geta, hvað þeir endast og hvort þeir vilja eiga hinn eða þennan bílinn.
Við ætlum aðeins að skoða þetta betur með reynsluakstri á nýjum Maxus Euniq, kínverskum fjölnotabíl sem vakið hefur athygli fyrir margra hluta sakir.


Vinsælar vörur frá Kína
Vissuð þið að Volkswagen var að opna eina fullkomnustu bílaverksmiðju í heimi í Kína – í samstarfi við Anhui Jianghuai Automobile Co., Ltd um þróun rafdrifinna ökutækja. iPhone er framleiddur í Kína, Canon er vörumerki framleitt í Kína og eggjarúllur er einn þekktasti réttur þeirra kínverja.

Hvar er samkeppnin í þessum flokki?
En snúum okkur að umræðu dagsins. Það er Maxus Enuiq, rafdrifinn fjölnotabíll.
Þéttur á velli og sterklegur ásýndar er um að ræða sjö sæta bíl með drægni skv. WLTP staðlinum upp á rúma 350 kílómetra. 52.5 kWh rafhlaða sem gefur bílnum 177 hestöfl og 310 Nm tog gerir þennan bíl nokkuð athygliverðan.
Maxus er hægt að aka á allt að 160 kílómetra hraða á klukkustund – þó svo að við hér á Íslandi höfum svo sem ekki mikið með þann hraða að gera – sýnir það hve þessi bíll er öflugur í samanburði við rafmagnsbíla á markaðnum.


Það er annars ekki auðvelt að negla Maxus Euniq niður í ákveðinn flokk rafmagnsbíla því það er í raun enginn svona stór, rúmgóður og tæknilega vel búinn bíll á nálægt því eins góðu verði.
Sá eini sem mér dettur í hug akkúrat núna er Mercedes Benz EQV átta sæta en þar er byrjunarverðið tæpar 12 milljónir á meðan Maxus Euniq kostar kr. 6.690 þús.
Ótrulega vel búinn
Maxus Euniq er ótrulega vel búinn bíll. Maður finnur ákveðin gæði um leið og maður sest undir stýri. Mjúk og þægileg leðursætin eru vel hönnuð og maður situr mjög vel. 12.3 tommu panorama margmiðlunarskjár er kýrskýr og hraður. Upplýsingaskjár í miðju mælaborðs gefur manni greinagóðar upplýsingar um stöðu mála varðandi akstur, rafmagnsnotkun og aðarar hagnýtar upplýsingar.

Vel formuð LED ljós eru bæði að framan og aftan ásamt fjarlægðarskynjurum, brekkuvara, akreinavara, skynvæddum hraðastilli, blindpunktaviðvörun og sjálfvirku neyðarhemlunarkerfi.

Örugguglega öruggur
Loftpúðar fyrir ökumann og farþega frammí, hliðarloftpúðar, gardínuloftpúðar, bakkmyndavél ásamt öðrum þeim öryggisbúnaði sem við viljum sjá í nútíma bílum í álfunni.
Við erum að tala um viðvörun fyrir öryggisbelti í öllum sætum ásamt Isofix festingum í þremur sætum.


Hvernig er að aka?
Lipur, rúmgóður og með fína fjöðrun. Léttur og þægilegur bíll, þéttur að velli og fer ákaflega vel með mann í akstri.
Aflið í rafmótornum sem er gefið upp um 177 hestöfl er að okkar mati nægt fyrir bílinn.
Við vorum að reynsluaka bílnum í skítaveðri, hvassviðri og næstum snjókomu og það heyrðist aðeins vindhljóð og pínu veghljóð – alls ekki neitt sem er frágangsök fyrir þennan annars ljómandi fína bíl.

Er Maxus Euniq hentugur fyrir þig?
Bíllinn hentar án efa mjög breiðum hópi. Fjölskyldufólk í útivist, barnmargar fjölskyldur sem standa í skreppi og skutli.
Ef þú ert í golfi hentar farangursgeymslan meira fyrir heilt lið en þig einan.
Ég er líka nokkuð viss um að leigubílstjórar eigi eftir að sjá sér hag í notkun þessa bíls í slíkan rekstur.


Ferskur andblær inn á bílamarkaðinn
Við erum að tala um ótrúlega vel búinn og athygliverðan bíl. Plássið er frábært, aðgengi er eitt það besta sem maður sér og þægindin aldrei langt undan. Þráðlausa símahleðslan er á sérlega þægilegum stað í miðjustokknum, USB hleðslutengi frammí og afturí ásamt tvískiptu loftfrískunarkerfi sem blæs á aftursætisfarþega í báðum aftari sætaröðunum. Það er rafdrifinn afturhleri og lyklalaust aðgengi.

Maxus Euniq er frábær kostur fyrir stærri fjölskyldur. Hann er búinn öllum nútímaþægindum og nýjustu tækni. Hann er á alveg frábæru verði og hann er líka fjallmyndarlegur.
Við hjá Bílabloggi mælum með því að þú skoðir þennan bíl sem alvarlegan kost í bílakaupum ef þú ert að leita að hagkvæmum og tæknilega vel búnum bíl fyrir fjölskylduna – til ferðalaga, í vinnu eða ísbíltúra.
Helstu tölur:
Verð frá 6.690 þús.
Rafhlaða: 52,5 kWh.
Drægni: 356 km. skv. WLTP.
Hestöfl: 177.
0-100 km á klst. 9,5 sek.
Hámarkshraði: 160 km/klst.
CO2: 0 g/km.
L/B/H: 4825/1825/1778
Veghæð: 164mm.
Eigin þyngd: 1810 kg.
Hleðslutími AC 8 klst. (hitastig 25°)
Hleðslutími DC (30-80%) 30 mín.
Dráttargeta: 400 kg.
Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson