Reynsluakstur:
Mustang Mach E
,
árgerð
2022
Umboð:
Brimborg
Útlit, þægindi og akstur
Opnun húdds og framsæti fullstutt

Flottur, fjölbreyttur og 100% rafdrifinn

Það varð töluverður spenningur hjá bílaáhugafólki þegar tilkynnt var að fyrsti 100% rafbíll Ford myndi heita Mustang Mach E. Sumum finnst nafngiftin fáránleg þar sem hið næstum sextuga vörumerki hefur staðið fyrir allt öðru en rafmagnsjepplingi.

Hvað sem um nafnið má segja ætlum við að tæpa aðeins á kostum og göllum þessa frábæra bíls.

Þaklínan er sérlega vel heppnuð í Mustang Mach E. Gerir bílinn sportlegan.

Ford er hér að koma með sinn fyrsta alvöru 100% rafdrifinn bíl. Bíllinn er í alla staði ágætlega heppnaður og lítur sérlega vel út. Útlitsleg hönnun bílsins er ekki neitt sérlega „rafbílaleg” ef svo má segja en flestir þættir hennar eru þó vel heppnaðir í Mustang Mach E.

Það er þó fátt sameiginlegt með þessum bíl og nafna hans Mustang GT nema nokkur hesta merki víðsvegar um bílinn og ljósin aftan á honum.

Samt er bíllinn stórglæsilegur og skiptir þá engu hvað hann heitir.
Mustang Mach E er sérlega rúmgóður og Brimborg býður bílinn í mörgum útfærslum sem henta flestum.

Vel búinn og vandaður frágangur

Að innan tekur á móti manni ákveðinn glæsileiki sem Ford hefur staðið fyrir í áranna rás. Aðgengilegt og vel hannað mælaborð með stjórum miðjuskjá, miðjustokk sem fellur vel að innréttingunni og sætum án þess að trufla rými fyrir ökumann og farþega.

Um leið og ekið er af stað hýrnar yfir ökumanninum og hann finnur strax hve skemmtilegur bíllinn er í akstri.

Reynsluakstursbíllinn okkar var af „long range” gerð og fjórhjóladrifinn. Sá var um 351 hestafl og togið um 580 Nm. Bíllinn fer úr kyrrstöðu og upp í 100 km/klst. á rúmlega 5 sekúndum. Áætluð orkunotkun á hverja hundrað kílómetra er áætluð um 18.7 kWst. Drægni skv. WLTP staðlinum er um 540 km.

Mustang merkið prýðir bílinn.
Afturendinn er smart en stuðararnir eru „píanóglansandi" að neðan.
Flottar felgur og rauðar bremsudælur.

Brimborg býður bílinn með tveimur rafhlöðustærðum, 75 kWst. og 98 kWst. sem gefur frá 440 kílómetra á hleðslunni upp í 610 kílómetra með stærri rafhlöðunni á afturdrifnu útgáfunni.

Það er því auðvelt að velja gerð sem hentar fullkomlega áætlaðri notkun bílsins hjá kaupendum.

Allt innan seilingar í mælaborði og stór margmiðlunarskjár í miðjunni. Takkinn á skjánum tekur kannski einum of mikið pláss.

Þarf „gírstöng”?

Það er eftirtektarvert að hvergi er merki Ford á bílnum, heldur aðeins Mustang. Hins vegar er fullt af Ford tækni úr núverandi og eldri gerðum Ford.

Gírskipting sem að sjálfsögðu er einn gír áfram er stilltur með snúningshjóli á milli sætanna sem eflaust mörgum finnst frekar gömul tækni ef miðað er við það nýjasta hjá til dæmis Volkswagen með „gírhnúðnum” á mælaborðs skjánum og hjá Tesla sem hermir eftir snjallri lausn Mercedes Benz varðandi gírskiptinguna.

Farangursrýmið er prýðilegt og hægt að leggja sætin niður 40/60.
Afturhlerinn er rafdrifinn og opnast mjög vel.

Fáir takkar

Svo er það þetta með takkana. Gagnrýnendur kvarta ef þeir eru of margir en líka ef þá vantar. Hins vegar er einn ristastór “volume” takki í Mustang Mach E sem hefði alveg mátt missa sín því hann tekur um 25% af skjáplássinu.

Eflaust er þessi takki hugsaður fyrir farþegann frammí því hægt er að stilla hljóðstyrkinn ásamt fleiru í stýrinu.

Hins vegar er takkavegurinn í nýjustu rafbílunum vandrataður. Eina sem ökumaðurinn hlýtur að óska sér er að geta stjórnað bílnum örugglega burtséð frá tökkum eða snertiskjám. Svo er start/stop takki til að ræsa og drepa á.

Spurning hvort þessháttar búnaður er ekki orðinn óþarfur í svo tæknilegum bíl.
Hurðir opnast vel og inn- og útstig er hið þægilegasta.
Fínt aðgengi að aftan einnig.

Tækni og þægindi

Mustang Mach E er stútfullur af tækni og þægindum. Bíllinn er sérlega rúmgóður, bæði frammí og afturí.

Hurðir opnast mjög vel og flennipláss er fyrir fullorðna í yfirstærð afturí.

Höfuðrými er mjög gott í bílnum og þó svo að glerþakið sé valið truflar það ekkert höfuðrými farþega afturí. Það er lagt mikið upp úr öryggisbúnaði í Mustang Mach E. Bíllinn er búinn bæði radar og myndavélakerfi sem skynjar umferð og gangandi vegfarendur og í honum er einnig skynvæddur hraðastillir með Stop & Go búnaði.

Að auki er blindhornaviðvörun og viðvörun við árekstrarhættu á gatnamótum (Cross Traffic Alert) svo t.d. eitthvað sé nefnt.

Rými afturí er með því betra sem býðst í nýjum bílum í dag.

Fullt af kostum

Það sem okkur fannst frábært í bílnum er þráðlaus tenging við Apple Carplay og Android Auto ásamt öflugri þráðlausri hleðslu fyrir símann.

Mælaborðsskjárinn fyrir aftan stýrið sýnir helstu upplýsingar eins og hraða og hvernig bíllinn skynjar umhverfi sitt ásamt rafhlöðustöðu.

Hægt er að velja um þrjá mismunandi akstursstillinigar – active er stilling sem eflaust er hugsuð fyrir venjulegan borgarakstur – þú heyrir mótorhljóð og hann er stilltur fyrir snögga hröðun. Whisper stillingin er heppileg fyrir lengri akstursvegalengdir með mýkri hröðun og engu mótorhljóði.

Untamed er vísun í villihestinn sem gefur nokkurskonar urr hljóð þegar gefið er inn. Ekki ósvipað og þú gætir heyrir í V8 Mustang þegar honum er gefið hressilega inn.

Rafhlaðan liggur neðst í bílnum og gólfið því slétt.

Næmar bremsur

Aksturseiginleikar eru þrælfínir. Mátulega stíf fjöðrun, mjúk og þægileg hröðun og bíllinn liggur vel á vegi, leggst lítið sem ekkert í beygjur og stýrið nákvæmt og létt. Eina sem við tókum eftir er að bremsur eru óþarflega næmar þegar ekið er á hægum hraða og þess vegna mun betra að stilla yfir á One Pedal Driving þar sem rafmótorinn dregur úr hraða og skilar orku inn á rafhlöðuna. Við tókum hins vegar ekkert „elgspróf” enda erum við ekki í slíkum ham í reynsluakstri hér í Bílablogginu.

Við reiknum hins vegar með að Ford græi þetta með stafrænni uppfærslu innan skamms.

Það sem kemur kannski helst á óvart hjá Ford í framsetningu bílsins er að dekkjabreidd er talsvert minni en á öðrum rafmagnsbílum í sama flokki. Mustang Mach E er með dekkjabreidd 225 á meðan Tesla Model Y er með 255 dekkjabreidd og ID.4 með 255. Toggeta er uppgefin um 750 kg.

Rafhlöðueiningin er ein stærsta einstaka einingin í bílnum en Ford hefur komið henni þanning fyrir að smá brík myndast við inn- og útstig. Hæð undir lægst punkt er um 15 sm.

Tengdur snjallsímanum

Hægt er að umgangast bílinn með smáforriti sem þú hleður niður í snjallsímann, stillir hita, stjórnar aðgengi og opnar farangursgeymslu. Að framan þarf að opna húddið með handfangi undir hvalbaknum. Að framan er gott geymslurými þar sem til dæmis væri hægt að geyma sumarblómin á leiðinni heim úr Blómavali og spúla svo bara plasthólfið enda hægt að opna í gegn og láta vatnið renna út.

Mynd af máhestinum er komið fyrir ansi víða til að undirstrika að þetta sé Mustang. Hins vegar verður að segjast að lokið fyrir rafmagnsinntakið er talsvert stórt og standi langt út. Reyndar er þetta svona á mörgum nýjum rafbílum í dag. Auðvelt er að rekast í svona lok þannig að það brotni af.

Meðalhleðslutími er um 38-45 mínútur ef þú ert í 115-150 kWst. hleðslustöð. Í heimahleðslu með 11 kWst. hleðslustöð erum við að tala um tæpa sex tíma og upp í rúmlega sjö tíma.

Flottur Mustang Mach E við Keflavíkurhöfn í kvöldkyrrðinni með gosið í Geldingardölum í baksýn.

Eitthvað fyrir alla

Brimborg býður Mustang Mach E með veglegum grunnpakka en hægt er að panta meiri lúxus ef menn vilja. Þannig getur þú valið um rúmgóðan fjölskyldubíl með mikilli drægni og upp í organdi villidýr með aksturstillingu fyrir keppnisbrautir. Verðið er frá 6.890 þús. og upp í 10.990 þús. fyrir GT bílinn.

Mustang svipurinn leynir sér ekki.

Helstu tölur:

Verð frá 6.890.000 til 10.990.000 kr.

Rafhlaða: 98 kWh.

Drægni: 540 km.

Hestöfl: 351

0-100 km á klst. 5,1 sek.

Farangursgeymsla: 402 ltr.+100 að framan.

CO2: 0 g/km.

Þyngd: 1.993 kg.

L/B: 4713/1881/1624.

Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson

Myndataka: Pétur R. Pétursson og Ólöf A. Þórðardóttir

Gefið út þann:
9/10/21
í flokknum:
Sportjeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Sportjeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.