Reynsluakstur:
Isuzu D-Max Lux
,
árgerð
2021
Umboð:
BL
Vel búinn, þægilegur í akstri, flottur
Tog mætti vera meira

Fjölnota dugnaðarforkur

Við höfum verið duglega að skanna pallbílamarkaðinn undanfarna mánuði. Nýverið frumsýndi BL glænýjan og mikið endurbættan Isuzu D-Max. Isuzu kynnti þennan reynslugóða pallbíl fyrst til leiks árið 2002.

Glæsileg LED aðalljós. Á dýrari gerðum eru LED ljós allan hringinn.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og bílinn hefur breyst mikið til hins betra frá því að fyrsta útgáfa leit dagsins ljós. Isuzu hefur framleitt trausta bíla og endingargóða en dísel vélar þessa framleiðanda hafa fengið afburða góða dóma.

Fjölbreytt úrval

Isuzu D-Max er boðinn í þremur útfærslum hjá BL. Basic útfærslan af double cab bílnum er mjög vel búin.Til að mynda eru í honum loftbúðagardínur, hliðarloftpúðar og loftpúðar sem verja hnén. Allar gerðir koma með start/stop búnaði, akreinavara, aðvörun á hliðarumferð og sjálfvirkri neyðarhemlun. Einnig er bíllinn búinn sérstöku stöðugleikakerfi sem virkar þegar eftirvagn er dreginn á bílnum.

Að auki erum við að tala um blindhornaviðvörun, hitaða og aðfellanlega hliðarspegla, LED aðalljós og regnskynjara á framrúðu. Basic bíllinn kostar frá 7.090 þús. krónum.
Isuzu D-Max hefur fengið veglega uppfærslu.

Pro bíllinn er sá í miðið og þá erum við að sjá gangbretti, langboga á toppi, LED ljós hringinn, hituð framsæti og rafdrifið ökumannssæti, leðuráklæði, bakkmyndavél og fjarlægðarskynjara að framan og aftan. Pro bíllinn er á 8.390 þús. krónur.

Rúmgóður pallur með heithúðuðu yfirborðsefni.

Töff í sportið og útivistina

Lux bíllinn sem er toppútgáfan af Isuzu D-Max er síðan að auki með akreinastýringu, sjálfvirka stillingu á aðalljósum, skynvæddan hraðastilli, 8 hátalara og 9 tommu margmiðlunarskjá.

Þá erum við komin í um 8.700 þús. krónur sem verður samt sem áður að teljast gott verð miðað við samkeppnina.
Hurðir opnast vel og innstig er þægilegt. Bíllinn er rúmgóður og þægilegt er að sitja undir stýri.
Sama er að segja um afturhurðir, þær opnast prýðilega og innstig er þægilegt og fótapláss nægt.

Þægilegur í akstri

Tveggja lítra dísel vél með sjálfskiptingu eða beinskiptingu. 160 hestöfl og togar 360 NM. Fjórhjóladrifið er búið háu og lágu mismunadrifi og hægt að læsa að aftan. Eyðslan á vélum sem þessum er frá 8,3 ltr. á 100/km. með beinskiptingu en um 9,2 ltr. á 100/km. með sjálfskiptingu. Stýrið er létt og leikandi og gerir bílinn lipran og þægilegan í borgarakstri.

Vélarhljóð er í hærra lagi án þess þó að það trufli eitthvað að ráði. Við fengum að reynsluaka þessum nýja pallbíl á sólríkum degi í janúar mánuði.
24 sentimetrar eru undir lægsta punkt.

Renndum sem leið lá upp í Grafarholt og þaðan ákváðum við að renna Hafravatnsleiðina til að reyna bílinn á möl. Það kom okkur þægilega á óvart hversu þýður bílinn var og alls ekki hastur. Að sjálfsögðu vorum við ekki með neitt á pallinum og bíllinn því laufléttur að aftan. Hann hjó lítið í holurnar og var bara nokkuð þjáll í akstri.

Góðir hálkukaflar voru á veginum með fram vatninu og þá fannst vel að bíllinn vildi aðeins skríða til að aftan í hálkunni.

Við settum bílinn svo í fjórhjóladrifið og þá var eins og hann límdist við veginn að aftanverðunni.

Hemlalæsivörn sem virkar vel

Á leiðinni aftur til þéttbýlisins ókum við hinn nýlega Hólmsheiðarveg liggur frá veginum frá Suðurlandsvegi upp að Hafravatni, og byrjar við fangelsið á Hólmsheiðinni  og sem endar efst í þéttbýlinu fyrir ofan Grafarholtið. Þetta er breiður malarvegur sem hentar mjög vel til reynsluaksturs, vegna þess að vegurinn er breiður og með litla umferð.

Þennan dag var snjóþekja á veginum og hálkublettir á milli, og því frábært að prófa hæfnina til hemlunar.

Og það var ekki ofsögum sagt af því að hér er hemlalæsivörn sem virkar! Og það mjög vel! Þarna er leyfður 50 km hámarkshraði og á aðeins nokkrum metrum tókst að stöðva bílinn alveg!

Pallurinn er 1570mm á dýpt og 1530 mm á breidd. Bil á milli hjólaskála er 1122 mm.

Hannaður til að puða

Isuzu D-Max er búinn fjöðrunarkerfi með hefðbundnum stálfjöðrum að aftan, gasfylltir demparar sjá um að mýkja aksturinn. Maður situr hátt undir stýri og hægt er að hækka sætið talsvert. Sætin eru þægileg og halda ágætlega við en seturnar hefðu ef til vill mátt vera með örlítið meiri hliðarstuðningi. Allur frágangur innanborðs er til fyrirmyndar og efnisval eftir því.

Gott fótapláss aftur í og hurðir opnast vel og inn- og útstig er hið þægilegasta.
Pro og Lux gerðir eru með leðuráklæði á sætum. Í Lux gerðinni (reynsluakstursbíllinn) er 9 tommu margmiðlunarskjár.

Þegar maður gefur bílnum inn finnur maður að sjálfskiptingin fær að puða. Hugmyndin er að skiptingin svari toginu þannig að ávallt sé nóg af því á þeim hraða og álagi sem ökumaðurinn býður bílnum uppá. Það gerir að verkum að bílnum þverr ekki afl á ögurstundu en vissulega er 360 Nm ekki sérlega mikið tog á vél sem gefur 160 hestöfl.

Sætinn eru þægileg og halda ágætla við. Hefði samt mátt hanna setuna þannig að hún veitti betri hliðarstuðning.
Þrælfínt að sitja í aftursætum. Gott fótapláss.

Örugg upplifun

Í það heila er skemmtileg að aka Isuzu D-Max og hann er sérlega flottur og vel búinn bíll. Ekki spillir gott verð. Bíllinn er síðan fáanlegur í átta flottum litum og Lux gerðin kemur á 18 tommu svörtum felgum sem gefa bílnum töff útlit.

Þá býður BL upp á úrval aukahluta með D-Maxinum en þar ber helst að nefna brettakanta, upplýstar sílsahlífar að framan og vandað pallhús.
Rafdrifið ökumannssæti í dýrari gerðum.
Þá eru í boði þriggja eða fimm ára þjónustupakkar á hagkvæmu verði. Til að mynda kostar 5 ára þjónustupakki 383 þús. krónur.

Fyrir hverja?

Þessi bíll er sniðinn fyrir útivistarfólk sem vill komast lengra en hinir sem hafa ekki 24 sm. undir lægsta punkt, 80 sm. vaðdýpt og 300 kg. dráttargetu. Þetta er sem sagt frábær fjölnota bíll sem hægt er að nota sem borgarbíl á virkum dögum og fullkominn útivistartrukk um helgar.

160 hestafla díselvél með sex gíra sjálfskiptingu sem togar 360 Nm. Bílinn er einnig hægt að fá beinskiptan.

Markmiðið er að torfæruprófa nokkra pallbíla með sumrinu þegar við getum ekið viðurkennda slóða, án þess að eiga á hættu að stunda utanvegaakstur. Þar með talinn nýjan Isuzu D-Max.

Falleg lína í þessum nýja Isuzu D-Max pallbíl.

Helstu tölur:

Verð frá: 7.090.00 kr. Reynsluakstursbíll, Lux 8.690.000 kr. (janúar 2021)

Vél: 1.898 cc

Hestöfl: 160.

Newtonmetrar: 360.

CO2: 219 g/km

Eigin þyngd: 2.020 kg

L/B/H 5265/1870/1785 mm

Eyðsla bl ak: 8,3-9,2 l/100 km

Pallur - innanmál:

Lengd: 1570 mm.

Breidd: 1530 mm.

Breidd milli hjólaskála: 1122 mm.

Myndbandsupptaka: Jóhannes Reykdal.

Klipping: Dagur Jóhannsson.

Gefið út þann:
21/1/21
í flokknum:
Jeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Jeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.