Evrópufrumsýning á nýjum GMC pallbíl á Selfossi

TEGUND: GMC 3500H Denali Crew Cab

Árgerð: 2020

Orkugjafi:

137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Evrópufrumsýning á nýjum GMC pallbíl á Selfossi

3500H Denali Crew Cab með 6,6 lítra Duramax V8-túrbódísilvél

Stórir pallbílar eru meðal mest seldu bíla á Bandaríkjamarkaði, og þótt horft sé á allan markaðinn. Með breyttu neyslumynstri hér á landi hefur hlutfall pallbíla minnkað aðeins, og þá sérstaklega þessara stóru frá Bandaríkjunum, en þeir eiga samt sinn aðdáendahóp og marga trygga kaupendur.

Framendinn á GMC Denali er áberandi svo ekki sé meira sagt, en hann undirstrikar líka að hér er á ferðinni „alvöru“ pallbíll.

„Fyrirtækið IB Ehf á Selfossi er meðal þeirra sem halda uppi merki bandarískra pallbíla á Íslandi og flytur inn marga af þeim stóru bandarísku pallbílum sem við sjáum hér í umferðinni og hefur gert í rúm 20 ár”.

Heildaryfirbragðið er flott, og sérstaklega vekja hliðarljósin sem eru felld inn í hjólbogana bæði við fram- og afturhjól athygli.

Áhersla hefur verið lögð á þjónustu og ábyrgð og eiga helstu slithluti á lager fyrir pallbíla, þjónustuaðillar á Norðurlandi eru KS Sauðárkróki og Cobolt Akureyri ásamt nýjum þjónustuaðila á höfuðborgarsvæðinu, sem er Bíljöfur, en fáir hafa meiri reynslu við þjónustu Bandarískra bifreiða en þeir.

Evrópufrumsýning

Við litum við hjá Ingimar á dögunum og forvitnuðumst hvað væri helst á döfinni.

Stórir hliðarspeglar, sem ekki veitir af á þessum bíl, og öflug gangbretti auðvelda alla umgengni.

„Það er fyrst og fremst frumsýning hjá okkur um næstu helgi á splunkunýjum pallbíl frá GMC, 2020-árgerð af 3500H  Denali Crew Cab með 6,6 lítra Duramax V8-túrbódísilvél. Þetta er í raun Evrópufrumsýning því þessi bíll hefur ekki sést áður í öðrum Evrópulöndum“, segir Ingimar og leiddi okkur að þessum stæðilega pallbíl.

Stór afturljósin gefa afturhlutanum áberandi yfirbragð. Öflugur afturstuðari með stigbrettum.

Fjölhæf not

Strax við fyrstu sín er ljóst að þetta er pallbíll sem er hannaður fyrir fjölhæf not. Eða eins og þeir hjá GMC segja: „Hvort sem það er heima, í vinnunni eða í burtu frá þessu öllu, þá hefurðu miklar væntingar um hvað þungur pallbíll ætti að vera. Við hjá GMC leitumst við að uppfylla ekki aðeins þær væntingar – heldur settum einnig nýjan staðal um hvað þungaflutningar geta verið – með næstu kynslóð, árgerð 2020 GMC Sierra Heavy Duty“.

„Við settum nýja staðla fyrir snjalla hæfileika, djarfa hönnun og háþróaða tækni í hálfs tonns pallbílum með Sierra 1500 árgerð 2019,“ segir Jaclyn McQuaid, yfirverkfræðingur Sierra. „Okkur langaði til að gera það sama í stærri bílnum og samtímis auka styrk og afköst. Við vorum staðráðnir í að gera þennan pallbíl/ flutningabíl/dráttarbíl eins góðan og hægt væri fyrir okkar viðskiptavini“.

Umgjörð allra ljósa vekur eftirtekt á þessum nýja GMC. Jafnt aðalljósin, ljósin í stuðaranum og á þakinu.
Það er gríðarlega gott aðgengi að framsætum. Stórar hurðirnar opnast vel og gott stigbrettið bætir innstigið.
Sama á við um aðgengi að aftursætum, þar er bæði gott höfuðrými og pláss fyrir hné.

Kraftur í fyrirrúmi

Sierra hefur byggt upp orðspor fyrir ótrúlega frammistöðu, sérstaklega þegar kemur að stærri pallbílum með dísilvél, Fyrir árið 2020 heldur Sierra Denali Heavy Duty ekki aðeins þeirri hefð áfram – hún færir hana á ný stig að sögn GMC.

En látum hér staðar numið og lítum aðeins nánar á bílinn sjálfan. Til þess var farið í stuttan kynningarakstur um nágrenni Selfoss og strax á fyrstu metrunum kom berlega í ljós hversu vel hönnuðum bílins hefur tekist að sameina stærð og afl og láta samt frábæra aksturseiginleika njóta sín til fulls. Hér í eina tíð voru stórir amerískir pallbílar ekkert skemmtilegir í akstri. Í dag er þetta alls ekki til staðar! Strax og sest er undir stýri er ekkert síðra að aka þessum stóra „vörubíl“ en kraftmiklum og sportlegum fólksbíl.

Mælaborð og stjórntæki eru þægileg í notkun og veita miklar upplýsingar um bílinn í akstri. Mælaborðið fyrir framan ökumanninn er til fyrirmyndar og veitir á augabragði yfirlit yfir alla helstu þætti bílsins, hvernig vélin er að vinna, hitastig, hleðslu, smurþrýsting svo fátt eitt sé tínt til.
Stýringar á miðstöð, tengi fyrir rafbúnað og síma eru hér neðst en ofar eru stýringar á útvarpi og hljómtækjum og þar fyrir ofan er upplýsingaskjárinn, sem einnig birtir myndir úr bakkmyndavél og eins myndavélum sem sýna umhverfið í akstri.
Lengst til vinstri á mælaborðinu, við hlið ökumanns, er stjórnborðið fyrir ljós (neðan) og drifbúnað (ofan). Hægt að stjórna öllu með einum fingursmelli og snúningsrofa.

Öflug vél

Sierra Heavy Duty 6,6 lítra Duramax Turbo-dísilvélin V8 skilar 445 hestöflum og 1230 Nm af togi. Við hönnun vélarinnar var þess gætt að þessi öfluga vél skili árangri með því að auka bæði kæligetu með stærri vatnskassa og viftu og bæta loftflæðikerfið.

Tvískipt inntakskerfi dregur þétt, kalt loft í gegnum bæði inntak á vélarhlíf og grillið að framan til að hámarka afköst.

Hér sjáum við ofan í vélarhúsið. Sierra Heavy Duty 6,6 lítra Duramax Turbo-dísilvélin V8, sem skilar 445 hestöflum og 1230 Nm af togi, tekur sitt pláss ásamt ýmsum öðrum búnaði.

Ný sjálfskipting

Kynning á þessum Sierra Heavy Duty markar tímamót hvað varðar gírskiptingu, með nýrri Allison® 10 gíra sjálfskiptingu – fyrsta Allison 10 gíra sjálfskiptingin sem boðið er upp á í stærri flokki pallbíla. Nýji 10 gíra gírkassinn veitir þéttara bil á milli gíra en áður, sem gerir vélinni kleift að starfa á besta aflsviðinu við allar aðstæður með mismunandi álagi.

Það er nóg pláss fyrir hjólabúnaðinn á þessum GMC. Öflugar fjaðrir að aftan, sem er að vísu búið að mýkja aðeins í þessu bíl með því að fækka um eitt blað.

Innbyggður aflhemill vélar

Duramax / Allison samsetningin er einnig með samþættum útblásturshemli vélarinnar, sem nýtir bakþrýsting vélarinnar og drifrás Sierra Denali Heavy Duty til að hjálpa við að stjórna hraða bílsins og eftirvagns þeagr dregið er úr hraða og dregur úr þörfinni á að nota aksturshemla í löngum, bröttum brekkum.

Góð stigbretti bæta aðgengið að bílnum og eins er til þæginda haganlega innfellt stigbretti fremst á pallinum til að auðvelda aðgengi að honum.

Útblásturshemillinn er einnig tengdur við skriðstillinn, sem gerir kleift að viðhalda stilltum hraða, jafnvel í hæðóttu landslagi.

Einn af kostum sem skjárinn í miðju mælaborðinu býður upp á eru myndir frá „umhverfismyndavél“ sem sýnir mynd beint ofan á bílinn vinstra megin og veginn sem verið er að aka eftir hægra megin.

Sterkur afturöxull

Afturöxullinn er með stærri og sterkari íhlutir en nokkru sinni fyrr til að bæði auka getur öxulþyngdar og skila í raun eins miklu togi til jarðar og mögulegt er. Þessi uppfærða drifrás felur í sér nýja, stærri, öflugri fram- og afturöxla, og gegnheilan 12 tommu drifkamb á 3500HD dísilbílnum. Að auki þarf Sierra 3500 Heavy Duty ekki að takmarka togið í fyrsta gír, sem gerir bílnum kleift að senda allan dráttargetu eftrivagns til hjóla frá byrjun.

Hér gefur að líta nærmynd af aðalmælaborðinu, þar sem gefur að líta allar nauðsynlegar upplýsingar um bílinn í akstri. Mælaröðin efst er smurþrýstingur, hitastig á vél, eldsneytismagn og loks hleðsla rafgeymis lengst til hægri. Þar fyrri neðan eru upplýsingar frá aksturstölvu.

Mikill tæknibúnaður

Það er nokkuð síðan sá sem þetta skrifar hefur ekið pallbíl af þessari stærð, og það var hrein upplifun að setjast undir stýrið og virða fyrir sér mælaborð og stjórntæki og reyna að gera sér grein fyrir þessu öllu í einni svipan.

Sierra Denali býður upp á fjölda háþróaðra aðgerða sem eru hannaðar til að auka stjórn og sjálfstraust þegar verið er að draga eftirvagna. Þá býður þessi Sierra Heavy Duty upp á ótrúlega sveigjanlegt myndavélarkerfi að utan með allt að 15 mismunandi útsýni – meira en nokkur annar samkeppnisbíll í sínum flokki að sögn GMC, og þar var mjög sérstakt að kveikja á þessu og fylgjast með þessu á stórum skjá á miðju mælaborðsins.

Þessi skjár, 8“ er tengdur upplýsinga- og afþreyingarkerfi bílsins ásamt baksýnismyndavél auk umhverfismyndavélakerfisins sem nefnt var hér að framan.

Til þæginda fyrir ökumann er síðan helstu upplýsingum varpað upp á framrúðuna í sjónlínuna í akstri, þannig að hann þarf ekki að taka augun af veginum til að fylgjast með.

Geta án takmarkana

Stórir pallbílar, eða „vörubílar“ eins og þessi hafa oft orðspor fyrir að leggja áherslu á burðargetu á kostnað akstursgæðanna, sérstaklega þegar þeir eru tómir eða óhlaðnir. Ekki var það svo með þennan Sierra Denali. Hönnuðir bílsins voru staðráðnir í að bjóða upp á fullkomna blöndu af getu og þægindum, með háþróaðri yfirbyggingu, nýju einangruðu stýrishúsi og breiðari dekkjum, sem einangra enn frekar ökumann og farþega frá ójöfnum í yfirborði veganna. Sierra Heavy Duty notar einnig öfluga sjálfstæða fjöðrun að framan sem skilar burðargetu en dregur úr hristingi og bætir akstursþægindi, sérstaklega með eftirvagn í drætti. Aðgengilegir eiginleikar, þar á meðal stafrænt breytileg stýrishjálp, er einnig hönnuð til að bæta meðhöndlun og draga úr þreytu ökumanna.

Í þessum bíl voru starfsmenn IB búnir að fækka um eitt blað í afturfjöðrun og setja Fox dempara ásamt 35“BFG dekkjum til að auka mýktina í akstri og hún var svo vissulega til staðar þegar við ókum um mjög ósléttan slóða upp með Ölfusánni.

Hægt er að opna afturhlerann í tveimur þrepum. Fyrst efri hluta hans, sem nýtist sérlega vel þegar flytja þarf lengri hluti, t.d. stiga eða timbur sem stendur aftur af pallinum. Þegar hlerinn er síðan opnaður alluu virkar þessi aukaopnun sem þrep.

Þegar kemur að því að fara út af sléttum vegum, er Sierra Denali með mikla getu utan hefðbundinna vega án þess að fórna neinu. Til að takast á við óslétt landslag, er Sierra Denali með að minnsta kosti 25 sentímetra veghæð óbreyttur. Hallastýring eða  „Hill Descent Control“ – sem nýtir ABS hemlunartæknina skilar mýkt í akstri niður ójafnt yfirborð í halla – er fáanlegt sem aukabúnaður, en tiltækt kerfi spólvarnar („Traction Select System“) hámarkar nýtingu á drifrás, stillingar stjórntækjanna og stillingar stöðugleikakerfis fyrir margs konar landslag og akstursskilyrði. Nýr tveggja gíra Autotrac millikassi með virkri fjórhjóladrifsstillingu er einnig fáanlegur, sem veitir óaðfinnanlega skiptingu á milli tveggja og fjórhjóladrifs miðað við aðstæður á vegum.

Sterkt útlit, sterk hönnun

Það þarf ekkert að misskilja að Sierra Denali er ekki neitt annað en GMC – og það þarf vissulega ekkert að misskilja að þetta er ekkert annað en stór pallbíll. Sérhver þáttur í útlitshönnun Sierra Denali undirstrikar þetta – sérstætt útlit framljósanna, áberandi vélarhlíf með stóru loftinntaki, sérstætt grillið og svo margt fleira – hefur greinilega verið vandlega hannað til að tákna gríðarlega möguleika.

Lítum til þess sem hönnuðir bílsins hafa að segja um útlitið: „Við notuðum hvert tækifæri til að koma sjónrænt á framfæri styrk og getu sem liggur undir yfirborðinu,“ segir Matt Noone, forstöðumaður útlitshönnunar GMC. „Hækkuð lína vélarloks, sterkar línur, sláandi framgrill – þessar vísbendingar veita þessum pallbíl ekki aðeins kröftuga en fágaða nærveru, heldur hjálpa þeim einnig að koma á framfæri styrk og afköstum sem hannaðir hafa verið og smíðaðir í sérhverjum Sierra Denali Heavy Duty“.

Stór pallurinn er með riffluðu klæddu gólfi sem tryggir að hlutir skríði síður til í akstri.

Öflugur ljósabúnaður

Sláandi sjónræn auðkenni Sierra Denali er augljós jafnt á degi sem nóttu. Ljósabúnaður er mikil og góður, veitir bæði góða lýsingu og undirstrikar jafnt útlitið. Ásamt GM-laga vörumerkis er C-laga há-styrkleika LED ljós bæði í aðalljósum og afturljósum, ásamt því að LED-hliðarljós eru innfeld í hjólbogana, nokkuð sem skapar bílnum sérstöðu.

Rúmgóður pallur

Virkni er jafn mikilvæg og form, sérstaklega þegar kemur að pallbílum. Denali er með pall sem er sérsniðinn fyrir Heavy Duty gerðir. Þessi pallur er með mikla burðargetu og er bæði breiðari og lengri en fyrri gerðir Sierra. Þessi bíll sem við erum að fjalla um hér í dag er með nýstárlegan afturhlera sem er hægt að nota á mismunandi vegu, þar á meðal sem þrep upp á pallinn og einnig er hægt að lækka hann að hluta þegar flytja þarf langa hluti. hleðslutæki fyrir langa hluti.

Rúmgott innanrými – góð aðstaða ökumanns

Það er nánast ævintýri að setjast undir stýri í GMC Denali. Við ökumanninum blasir mælaborð sem veitir aragrúa af upplýsingum á mjög auðskilinn og sýnilegan hátt. Gírskiptingin er á mjög svo „amerískan“ hátt með stóru handfangi hægra megin við stýrið. Drifbúnaði bílsins er stjórnað með sérstöku hnappaborði vinstra megin við stýrið á aðgengilegum stað.

Til aukinna þæginda – öryggis – er helstu upplýsingum um akstur bílsins varpað upp á framrúðuna í sjónlínu ökumanns fram á veginn.

Hér má sjá í FOX dempara við afturhjól.

Plássið í þessum bíl er yfirdrifið, jafn í framsætum sem aftursætum. Aðgengi er ágætt, sérstaklega með góðum stigbrettum á hliðum. Á hlið pallsins að utan, rétt fyrir framan hjólbogana er sérstakt þrep til að komast að fremri hluta pallsins.  

Liprari en við mátti búast

Þar sem ekki var um raunverulegan reynsluakstur að ræða er ekki svo gott að dæma um aksturseiginleika Denali, en það kom verulega á óvart hversu vel hann fer með ökumann og farþega í venjulegum akstri.

Það er engum blöðum um það að fletta að Denali er „stór“ bíll, 6.352 mm á lengd (með staðalgerð á palli), breiddin er 2.079 mm og hjólhafið er 3.795 mm. En um leið og maður byrjar að aka þessum bíl þá er eins og hann „skreppi saman“, hann er það lipur í akstri og góð yfirsýn fram á veginn að stærðin hættir að “vera mál“!

Vel upplýstur með ljós framan á toppnum.

Mikið afl, góð svörun og til þess að gera mýkt í fjöðrun gera sitt líka til að draga úr stærðaráhrifunum.

Niðurstaða

Þetta er öflugur bíll, sem hentar sérlega vel þeim sem þurfa á bíl til að draga þunga eftirvagna, til dæmis hestakerrur af stærri gerðinni, eða fyrir verktaka sem þurfa bíl með öfluga dráttargetu og fjölþætta eiginleika.

Þetta er ekki bíllinn til að skreppa á í Kringluna, en nýtist án efa vel við allar aðrar aðstæður.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar