Reynsluakstur:
Jeep Renegade PHEV
,
árgerð
2021
Umboð:
Ísband

Eldur, brennisteinn og karakterinn Renegade

Það er við hæfi að hefja þessa umfjöllun um Jeep Renegade Trailhawk tengitvinnbílinn á miklu stuði. Bíllinn var nefnilega prófaður rétt áður en eldgos hófst og myndirnar voru teknar í námunda við Grindavík við undirleik mikilla jarðhræringa og veðurfræðilegra hamfara.

Hamfaraskjólið Jeep Renegade

Ekki hefði maður getað látið sér til hugar koma, fyrir fáeinum mánuðum, að maður ætti eftir að sitja inni í splunkunýjum og brakandi ferskum bíl og upplifa tugi jarðskjálfta! En þetta er nú samt staðreynd.

Orðið hamfaraskjól kom upp í hugann þegar undirrituð reyndi að mynda bílinn að innan, skammt frá Bláa lóninu og allt lék á reiðiskjálfi!

Sérstök upplifun, þessi langa jarðskjálftahrina, sem við munum seint gleyma. Og ég kem til með að tengja hana örlítið við Jeep Renegade, en ekki á neikvæðan hátt. Það var notalegt að vera inni í bílnum og andartakið ljúft; hlýtt stýrið, éljagangurinn úti, hljóðlaus bíllinn á rafmagnsstillingunni vaggandi í stöðugum skjálftunum og yfirvofandi eldgos!

Nú, nokkrum vikum síðar, er sannarlega eldgos skammt frá staðnum sem við Renegade vorum í myndatökunni og spennan sem ólgaði undir öllu hefur tekið á sig aðra mynd og allt er breytt.

Tilfinningin var eftir sem áður sú að saman hefðum við Renegade „vaðið“  eld og brennistein því veðrið var eins og í einhverri B-kvikmynd um dómsdag: Víðáttumikil, dökkgrá og þykk skýjabreiða framundan, glampandi sól í baksýnisspeglinum og skyndilega gríðarlegur dynur sem kemur nær og nær þar til haglið lemur bílinn að utan.

Og svo, á augabragði, er allt búið. Dauðaþögn, eins og ekkert hafi gerst. Já, við búum á magnaðri eyju!

En ég var að fjalla um bíl, ekki satt? Best að halda því áfram!

Liðhlaupi eða sá sem býður aðstæðum birginn?

Bílanöfn fanga iðulega athygli mína og eflaust kannast glöggir lesendur Bílabloggs við einhverjar greinar sem fjalla einmitt um bílanöfn; heppileg sem óheppileg.

Jeep má eiga það að undirtegundirnar bera oft sniðug nöfn. Og Jeep er náttúrulega dúndurnafn út af fyrir sig.

Renegade er áhugavert nafn en merking þess er m.a. liðhlaupi og svikari. Það er sú merking sem fyrst kemur upp í orðabókum. Sú merking er ekki það sem á við um þennan Jeep.

Lítum nánar á þetta áhugaverða nafnorð; renegade. Sá sem snýr baki við einhverju, t.d. stefnu, og mótar sína eigin. Það að fara sínar eigin leiðir, segja hinum almennu gildum „stríð á hendur“, skora á hólm og bjóða aðstæðum birginn, það getur verið töff. Bæði erfitt og svalt.

Varla að maður þori að skrifa „sá sem fer ótroðnar slóðir“ því það minnir á alvarlegan glæp er utanvegaakstur kallast. Síst skyldi maður hvetja til slíks.

En ótroðnar slóðir geta vissulega verið malarvegir og hinir ýmsu slóðar og þar kemur þessi „litli“ bíll á óvart.

Hann er ekkert lítill en samt er Renegade „litli bróðir“ Jeep Compass sem prófaður var rétt fyrir áramótin og lesa má um hér.

Í það minnsta vísar nafn bílsins, Renegade, til þess að bjóða aðstæðum birginn

Rakettan fer af stað - hljóðlega en vel

Þessir bílar, Jeep Compass og Jeep Renegade Trailhawk, eru loks fáanlegir í tengitvinnútgáfu og get ég ekki annað en skilið af hverju fólk tekur þeim fagnandi. Bensínvélin í þessum bílum er fjögurra strokka 1300cc túrbó sem ásamt rafmótornum skilar 240 hestöflum.

Þessi vél… maður minn! Hún virkar svo skemmtilega að erfitt er að orða það almennilega.

Ekki gat ég ímyndað mér að þetta tæki, Jeep Renegade Trailhawk, sem lítur út eins og sakleysið sjálft hjúpað málmi, gæti breyst í RAKETTU, einn-tveir og þrír!

Auðvitað hefði ég mátt vita það, búin að prófa Compass með sömu vél, en þegar undirrituð horfði á Renegade og virti fyrir sér í fyrstu þá minnti hann dálítið á bangsa.

Eitthvað svona „krúttlegt“ (ég trú ekki að ég hafi notað þetta orð!).

Eftir því sem ég kynntist bílnum betur og karakternum sem hann hefur að geyma, þá hætti hann að minna mig á bangsa. Það er eitthvað töff við hann: Lætur lítið yfir sér, heyrist ekki baun í honum þegar hann er í stuði (þ.e. á rafmagnsstillingu)  og kemst tugi kílómetra þegjandi og hljóðalaust.

Svo allt í einu er hann eins og raketta sem skýst lipurlega áfram. Eins og umskiptingur barasta! Andstæðurnar eru miklar í þessum bíl.

Lágt drif og stillanlegt fjórhjóladrif

Renegade Trailhawk er sko enginn liðhlaupi, eins og kom fram hér að ofan. Hann er brautryðjandi og vel til þess búinn. Þá á ég ekki bara við hlífðarplöturnar undir honum sem verja raflöður, bensíntank og gírkassa heldur stillingarnar fimm á fjórhjóladrifinu; Auto, snow, sport, sand&mud og síðast en ekki síst „rock“ sem hljómar vel í eyrum okkar rokkaranna en tengist músík þó ekki.

Lágt drif er síður en svo sjálfgefið að sé í bíl af þessari stærð. En það er í Renegade og Compass sömuleiðis.

Það væri hægt að telja upp allan þann búnað sem bílnum fylgir en sá listi er langur og nú þegar tilbúinn á vefsíðu ÍSBAND og hann má skoða hér.

Undir lægsta punkt eru 20,1 cm og dráttargeta bílsins er 1150 kíló. Bensíntankurinn er frekar lítill, eða 36,5 lítrar, en til hvers að vera með risatank í bíl sem eyðir litlu?

Eyðslutölurnar sem framleiðandi gefur upp eru í blönduðum akstri 2 lítrar á hundraðið.

Eitthvað voru tölurnar nú hærri í bíltúrnum í dómsdagsveðrinu en þó innan við 6 lítrar á hundraðið en hafa ber í huga að ég núllstillti eyðslumælinn þegar rafhleðslan var orðin lág, svo það gefur ekki rétta mynd. Sú tala, 6 lítrar á hundraðið, miðast þá eingöngu við bensínmótorinn og það í veðravíti.

Skemmtileg smáatriði hér og þar

Það er lúmskur húmor í hönnun bílsins. Ótal smáatriði dúkka upp hér og þar. Munið þið eftir bókunum um Valla?

Hvar er Valli? Í Renegade sér maður JEEP-lógóið á ótrúlegustu stöðum og sömuleiðis form afturljósanna.

Glasahaldarinn í miðjustokknum er til að mynda í laginu eins og afturljósin (sjá mynd) og skoði maður vandlega sjálf afturljósin má sjá JEEP-lógóið þar. Hátalararnir eru í laginu eins og lógóið sjálft og áfram mætti telja.

Jeep Renegade Trailhawk kostar tæpar 5,5 milljónir króna og er bíllinn í rauninni með „öllu“ ef svo má segja. Hann er stappfullur af flottum búnaði, mengunargildið er lágt (46 g/km) og eyðslutölurnar koma skemmtilega á óvart.

Hann er með eindæmum vel hljóðeinangraður - sem er stórgott þegar maður býr á Íslandi. Renegade hefur fjölmarga kosti og svo er það nú punkturinn yfir i-ið: Akstursánægjan!

Gefið út þann:
14/4/21
í flokknum:
Jeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Jeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.