Reynsluakstur:
Jeep Compass
,
árgerð
2018
Umboð:
Ísband

Reynsluakstur Jeep Compass Limited

‍Jeep Compass Limited – eigulegur jeppi með góða veghæð: 22 cm undir lægsta punkt.

Jeppar, stórir sem smáir, hafa jafnan notið mikilla vinsælda meðal íslenskra bílaeigenda. Raunar er það svo í dag að stór hluti hins raunverulega „fólksbílamarkaðar“ er undirlagður af bílum sem í raun og veru eru ekki „jeppar“ sem slíkir, en veita samt notagildi og akstursupplifun eins og að þeir væru á jeppa. Nægir þar að nefna bíla á borð við „bíl ársins“ Peugeot 3008, Nissan Qashqai, VW Tiguan og Skoda Karoq.

En í hugum margra eru þetta ekki raunverulegir jeppar og þeir hinir sömu vilja frekar horfa til bíla sem byggja á „arfleifð upprunans“ ef svo má að orði komast, og bíllinn sem er í reynsluakstri í dag byggir einmitt á arfleifð frá hinum upprunalega Jeep – því það er Jeep Compass Limited sem er til skoðunar hér.

Það var með nokkurri eftirvæntingu sem haldið var í þennan reynsluakstur. Ýmsar gerðir af Jeep Cherokee og Grand Cherokee hafa verið á heimilinu í áranna rás og „aukabíllinn“ í dag er 16 ára gamall Jeep Liberty Sport, þannig að viðmiðin eru mörg.

Hlaðinn búnaði

Söluaðili Jeep á Íslandi í dag er Ísband í Mosfellsbæ og þar á bæ var mér fenginn í hendur Limited-útgáfan af Compass með dísilvél og töluvert af aukabúnaði, svo sem pakki sem aðstoðar við að leggja í stæði (með bakkmyndavél og fleiru), upplýsingatæknipakki, sem býður upp á stærri skjá í mælaborði, leiðsögukerfi og fullkomnari hljómtæki. Til viðbótar var þessi bíll búinn tvöföldu glerþaki og 19 tommu álfelgum. Til viðbótar er ýmis staðalbúnaður sem fjallað er um hér á eftir.

Í raun má segja að með öllum þessum búnaði er Jeep Compass frekar eins og „minnkuð útgáfa“ af stóra bílnum Jeep Grand Cherokee.

‍Mælaborð og stjórntæki eins og best verður á kosið.

Aðeins um innanrýmið

Það er þægilegt að aðlaga framsætin að þörfum ökumanns og farþega og sama á um stýrið. Yfirsýn fram á veginn er góð vegna stöðu sætis sem býður upp á gott útsýni fram yfir vélarhlífina.

Stjórntæki á mælaborði eru svolítið samþjöppuð og örugglega ruglingsleg í byrjun fyrir suma, en flestum hlutum eru stjórnað með snertitökkum á skjá upplýsingakerfisins, en einnig eru margir aðrir hnappar þar fyrir neðan. Skjárinn er bjartur og auðvelt er að fletta í gegnum valmyndirnar. Stjórnhnappar á stýrishjólinu venjast fljótt og eru aðgengilegir.

Fínn innanbæjar – bestur á góðum þjóðvegi

Það fór ekki á milli mála að það var dísilvél undir vélarhlífinni þegar sett var í gang, en sú tilfinning hvarf alveg þegar ekið var af stað. Góð hljóðeinangrun og léttur gangur eyðir greinilega „dísilhljóðinu“ nær alveg í venjulegum akstri. Það er aðeins þegar gefið er hressilega inn sem dísilvélin minnir á sig aftur. Fyrir mína parta mætti þessi tveggja lítra dísilvél vera snarpari, en hún togar mjög vel og heldur bílnum á góðri siglingu.

Það er hins vegar 9 gíra sjálfskiptingin sem sér um að skila aflinu á þann hátt til hjólanna að þess verður aldrei vart að það vant í raun og veru afl.. Í venjulegum akstri verður ökumaðurinn alls ekki var við það að bíllinn sé að skipta sér.

Svörun stýris er mjög góð. Hægt er að snúa stýrishjólinu með einum fingri þegar verið er að leggja í stæði. Snúningur þess þyngist greinilega þegar komið er á meiri hraða, en hefði að mínu mati átt að þyngjast meira þegar komið er upp í hámarkshraða á þjóðvegum.

Compass er lipur bæjarbíll, og búinn fullt af búnaði sem auðveldar akstur í mikilli umferð. Skynjarar láta vita þegar bílar eru nálægt á næstu akrein, einnig er gefin viðvörun þegar ekið er of nálægt næsta bíl fyrir framan, til dæmis á ljósum. Umbúnaðurinn í framrúðunni í kring um baksýnisspegilinn, þar sem regnskynjarinn er sem kveikir sjálfvirkt á rúðuþurrkunum, skyggir nokkuð á útsýni ökumanns fram til hliðar, en þetta vandist fljótt.

Það er hins vegar þegar komið var á alvöru þjóðveg þar sem þessi bíll nýtur sín best. Góð fjöðrun, góð sæti og góð yfirsýn – jafnt fram á veg og á stjórntæki í mælaborði gera það að verkum að aksturinn er áreynslulaus.

Arfleifðin frá eldri gerðum Jeep er sýnileg á framendanum.‍

Snögg fjöðrun í holum

Ein og getið var í inngangi var búið að setja 19 tommu álfelgur undir bílinn, sem gerir það að verkum að dekkin eru með minna loftrými og fjaðra minna. Í öll þau ár frá árinu 1972 sem ég ef verið að reynsluaka bílum eru ákveðnir vegakaflar sem hafa verið notaðir til samanburðar. Einn þeirra er „Hafravatnshringurinn“ og sem betur fer hefur malavegskaflinn norðan við vatnið fengið að halda sér óbreyttur öll þessi ár, og þar er enn að finna ágætar holur á malaveginum sem reyna vel á fjöðrunina.

Á þessum „holukafla“ er fjöðrunin í Compass á þessu dekkjum nokkuð snögg, og er ekki að efa að á staðalbúnaði hjólbarða á 17 tommu dekkjum, þar sem bæði meira gúmmí og meira loft hjálpa til við fjöðrunina, þá finnst minna fyrir svona holum.

En ólíkt gömlu Cherokee-jeppunum þá haggaðist Compass ekki í þessum holuakstri og hélt sínu striki, sem er til fyrirmyndar.

Þegar vélarhlífin er opnuð sést ekki mikið af dísilvélinni sem sér bílnum fyrir nægu afli.‍

Góður „vinnustaður“ ökumanns

Ökumaðurinn hefur ágæta yfirsýn yfir öll stjórntæki þegar sest er undir stýri. Líkt og í allflestum bílum í dag er búið að þrengja að ökumanninum, sem er bæði kostur og galli. Kostur er að það er styttra að ná til stjórntækja, sumu er stýrt með hnöppum í stýrishjóli, öðru með hnöppum og búnaði í mælaborði og enn öðru með snertihnöppum á skjánum. Skjástýringarnar er best að framkvæma áður en ekið er af stað, því ella missir ökumaðurinn athyglina fram á veginn. Skjárinn er líka eins aðgengilegur fyrir farþega í framsæti, sem getur þá gripið inn í stillingar á miðstöð, útvarpi eða leiðsögn ef þarf.

‍Góð hönnun á afturenda

Einfaldur stjórnbúnaður fjórhjóladrifs

Ekki eru lengur neinar skiptistengur til að setja í hátt eða lágt drif, aðeins stór snúningsrofi í miðjustokki, sem læsir „Select-Terrain“-fjórhjóladrifinu, og síðan er rofanum snúið til að velja akstursaðstæður, sjálfvirka stillingu, snjó, sand eða drullu.

Ekki voru aðstæður til að reyna kosti fjórhjóladrifsins í þessum stutta reynsluakstri og verður því hugsanlega reynt betur síðar.

Ekki er heldur handfang fyrir stöðuhemil, aðeins rafdrifinn rofi sem setur hann á eða tekur af.

‍Hér er stór snúningsrofi í miðjustokki, sem læsir „Select-Terrain“-fjórhjóladrifinu, og síðan er rofanum snúið til að velja akstursaðstæður, sjálfvirka stillingu, snjó, sand eða drullu.

Gott aðgengi að framsæti, þrengra að aftursæti

Í heildina litið er ágætt aðgangi að Compass. Framhurðir opnast vel og veita mjög gott aðgengi. Það er passlega hátt upp í þennan bíl fyrir flesta.

Það þarf aðeins að sýna meira lag að fara í aftursætið, hurðir opnast vel en hurðaropið þrengist að aftan sem gefur aðeins lakar aðgengi. Fyrir yngra fólk og börn er þetta engin hindrun. Það er annars mjög gott pláss fyrir farþega í aftursætum, og þrátt fyrir að glerþakið tekur nokkuð af höfuðrýminu, þá er nægt pláss fyrir þann sem þetta skrifar sem er 183 cm á hæð og nokkuð fótalangur.

Farangursrýmið er dágott, alls 468 lítrar og gott að umgangast það. Það var fullreynt með því að kaup nýtt grill til heimilisins og farangursrýmið gleypti þennan stóra kassa (að vísu með því að leggja aftursætisbakið fram). Afturhlerinn opnast vel upp og er ekki fyrir þegar verið er að nýta farmrýmið. (hægt er að fá rafdrifinn afturhlera ásamt ýmsum viðbótarbúnaði með svonefndum „Premium“-pakka).

‍Farangursrýmið er rúmgott – 468 lítrar og afturhlerinn opnast vel upp.

Góð baksýnismyndavél

Í þessum bíl var aukapakki með aðstoð til að leggja í stæði og góðri bakkmyndavél. Ég hef prófað bakkmyndavélar í nokkrum bílum, en þessi er afbragð. Stór skjárinn og tilvísunarlínur sem birtast á skjánum gera það að verkum að hægt er að bakka viðstöðulítið og örugglega.

Bakkmyndavélin er mikill kostur í Jeep Compass – aukabúnaður sem ætti nánast að vera sjálfsagður.‍

Niðurstaða

Jeep Compass Limited er með þeim búnaði sem var í þessum bíl er mjög svo álitlegur bíll fyrir alla þá sem vilja halda í „jeppatilfinninguna“ en sameina jafnframt kosti góðs fólksbíls.

Í grunnútgáfu kostar Compass Limited kr. 5.490.000 með 170 hestafla bensínvél, en á bilinu 5.590.000 til 5.790.000 með tveggja lítra dísilvélum, 140 og 170 hestöfl.

Í þessum reynsluakstursbíl var kominn ýmis aukabúnaður sem lyftir verðinu allnokkuð. 19 tommu álfelgurnar kosta kr, 165.000, „upplýsingatæknipakkinn“ með stærri skjá, leiðsögukerfi og betra útvarpi kostar kr. 165.000, stóra opnanlega glerþakið, sem nær yfir nánast allt þakið, kostar kr. 195.000, og bakkmyndavélin með „bílastæðaaðstoðinni“ kostar kr. 115.00. Allt þetta hækkar verð bílsins, en gerir hann jafnframt að miklu eigulegri bíl. Ég er eiginlega alls ekki viss um hverju af þessu ég myndi vilja fórna ef Jeep Compass væri bíllinn sem ég væri að kaupa.

Vissulega álitlegur bíll, kostar að vísu aðeins meira en sumir þeirra bíla sem margir horfa til sem keppinauta – en hér fylgir arfleifðin frá Jeep með sem bónus.

‍Gott aðgengi að framsætum og gott fóta- og höfuðrými.
‍Þótt þessi bíll sé með stóru opnanlegu glerþaki er nægt höfuð- og fótarými fyrir fullorðna. Aðeins þrengra aðgengi að aftursætum en framsætum.
Aðgengilegur miðjustokkur með sjálfskiptistöng og stjórnbúnaði fyrir fjórhjóladrif. USB-tengi og tengi fyrir 12 volta rafbúnað. Annað USB-tengi er einnig fyrir aftursætið.‍
Gefið út þann:
22/3/18
í flokknum:
Jeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Jeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.