Reynsluakstur:
Renault Arkana
,
árgerð
2021
Umboð:
BL
Aksturshæfni, verð, hljóðlátur
Þaklína slúttir niður á hurðarop

Aðeins öðruvísi í laginu

Á dögunum fengum við nokkuð skemmtilegan og aðeins öðruvísi bíl til reynslu. Sá heitir Arkana og er nýjasta afurð Renault. Arkana er pínu öðruvísi í laginu og er blanda af SUV og fólksbíl.

Þetta lag á bílnum er svo sem ekki nýtt af nálinni en BMW og Mercedes-Benz hafa báðir verið með þetta lag á markaðnum.

Það er síðan ansi sterkur útlitssvipur með Arkana og nýjum rafbíl Ford, Mustang Mach e.

Renault Arkana er með ávalar línur og með coupé útlit.

Stærri en Kadjar

Hallandi þaklínan gefur bílnum sterkan svip og meira pláss því hann er lengri en til dæmis eldri bróðir hans Renault Kadjar. Þessi coupé lína gefur aukið skottpláss en hefur reyndar þá ókosti að minnka höfuðpláss fyrir farþega afturí.

Þó svo að Arkana sé örlítið lengri en Kadjarinn er hann samt sem áður byggður á sama undirvagni og Renault Captur.

Renault Arkana gengur fyrir bensíni og rafmagni og þarf aldrei að hlaða. Hann er svokallaður blendingur (hybrid) og með svipaðri tækni og Toyota hefur boðið um árabil. Arkana kemur með 1,6 lítra bensínvél sem gefur um 145 hestöfl og togar um 148 Nm.  

Takið eftir C laga ljósunum.
Renault Arkana er fallegur bíll.

Blendingstæknin hjá Renault er byggð á reynslu þeirra úr kappakstursheiminum. E-Tech tækni Renault byggir á að skaffa bílnum ávallt rétta blöndu orku til að aksturinn verði sem hagkvæmastur. Þeir segja líka að hægt sé að keyra bílinn á rafmagni á um 80% aksturstímans – en þá þarftu líklega að vanda þig ansi mikið við aksturinn.

Sérlega þægilegur í akstri og hljóðlátur.

Þægilegur akstur

Renault Arkana er ansi fallegur bíll og það er mjög gott að aka honum. Bíllinn er enginn kappakstursbíll enda ekki hugsaður sem slíkur. Hröðunin úr 0-100 km/klst. er um 10 sekúndur og er bara hinn þokkalegasta fyrir þorra bílnotenda.

Hér er þrælfínt að setjast inn...
...og hér líka
Hurðir lokast yfir sílsana og halda frá óhreinindum.

BL býður bílinn í tveimur flottum útfærslum. Hægt er að velja um Intens bíl sem er mjög vel búinn og RS line sem er enn betur búinn. Munur þessara tveggja gerða er í raun bara útlitslegur og aðeins meiri lúxus í RS line.

Þá er bíllinn kominn með svart þak, 18 tommu felgur, rafdrifin sæti frammí, leðuráklæði og BOSE hljómkerfi.  

Allt þetta er hægt að fá fyrir 300 þús.krónum meira í RS-line en Intens bíllinn kostar 5.690.000 kr. sem verður að teljast mjög gott verð miðað við samkeppnisaðila og búnað bílsins.

Öflugt mælaborð með stórum skjá í miðju og stafrænu mælaborði.

Hentugur og hagkvæmur

Renault Arkana er hagkvæmur bíll. Hæð undir lægsta punkt eru rúmir 20 sm. og frágangur undir bílnum að framan og aftan er þannig úr garði gerður að bíllinn hentar vel til aksturs á grófara slitlagi og jafnvel troðningum.

Ef horft er undir bílinn er hann nánast sléttur. Eyðslan er frá 4.9 lítrum á hverja 100 km.

Hér er ágætis pláss fyrir tvo fullorðna eða þrjú börn.

Að innan sker Renault Arkana sig ekki úr frá öðrum Renault bílum. Aðgengi er gott og sest er inn í bílinn en ekki ofan í hann. Sætin eru þægileg og halda vel við til hliðanna og við bak og læri. Nóg pláss fyrir fætur fullvaxinna einstaklinga. Allur frágangur er til fyrirmyndar og úr gæðaefnum.

Þaklínan slútir eilítið niður að hurðum bílsins en það gerir útstig fyrir fullorðinn erfiðara fyrir vikið.

Beygja þarf höfuðið til að reka sig ekki í karminn. Eitthvað sem venst – en er þó eftirtektarvert hönnunarsérkenni í nýrri frönskum bílum.

Farangursrými er um 480 lítrar.
Hlerinn opnast vel en er ekki rafdrifinn.

Aksturinn er ljúfur, engin læti þar á bæ. Þó svo að bíllinn sé ekkert sérlega snöggur upp er hann hljóðlátur með eindæmum. Hægt er að velja um nokkrar mismunandi akstursstillingar, Eco, Sport og MySense.

Í sportstillingunni verður bíllinn örlítið stífari og stýrið aðeins þyngra en með MySense getur ökumaðurinn valið saman þær stillingar sem honum hentar.

Það kom fyrir að við fundum fyrir því að bíllin væri aðeins hastur þegar ekið var yfir ferköntuðu hraðahindranirnar en líklega voru það þunn dekkin (low profile) sem áttu þar hlut að máli. Arkana er framdrifsbíll.

Gæti höfðað til margra

Farangursýmið í Arkana er um 480 lítrar og hægt er að stækka það í 1263 lítra með því að fella niður bæði aftursætin (40:60). Arkana er mjög vel búinn bíll.

Í honum er bakkaðstoð, bakkmyndavél, fjarlægðarskynjarar beggja megin, vegaskiltisnemi, skynvæddur hraðastillir Apple Carplay og Android Auto og hann leggur sjálfur í stæði.

Gæði á góðu verði

Renault Arkana er að okkar mati frábær viðbót í flóru Renault þar sem hægt er að samnýta kosti sportlegs bíls og jepplings.

Plássið er afar gott og allur umbúnaður glæsilegur. Bíllinn nýtist hvort sem er til borgaraksturs eða til lengri ferða, þökk sé blendingskerfinu (hybrid) og hæð undir lægsta punkt.

Arkana hentar mjög vel barnafólki og án efa góður í skrepp og skutl þar sem möguleiki er á að aka bílnum á rafmagni stóran hluta ferðar innan borgarmarkanna. Dráttargetan er um 760 kg.

Sætin eru vel formuð, mjög þægileg og úr góðum efnum.

Að sama skapi er verðið frábært eða frá 5.690.000 krónum fyrir bíl í þessum stærðar- og gæðaflokki.

Helstu tölur:

Verð frá : 5.690 þús. Intens gerð

Hestöfl: 145 hö.

Vél: 1.598 rms., fjórir strokkar.

Tog: 148 Nm.

Eyðsla bl.ak.: 4.9 ltr/100km.

Eigin þyngd: 1.400 kg.

Dráttargeta: 760 kg.

L/B/H 4568/1576/2034 mm.

Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson.

Gefið út þann:
6/11/21
í flokknum:
Fólksbílar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Fólksbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.