Reynsluakstur:
Jeep Wrangler Rubicon 4Xe
,
árgerð
2022
Umboð:
Ísband
Öflugur jeppi, mikið afl, rásfastur, veghæð
Lítil rafhlaða

35 tommu breyttur Jeep Wrangler Rubicon 4Xe

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við prófum Jeep Wrangler Rubicon 4Xe. En þessi er aðeins öðruvísi en hinir sem teknir hafa verið fyrir hér hjá okkur á Bílablogg. Hann er 35 tommu breyttur hjá verkstæði þeirra hjá Ísband.

Hljóðlátt villidýr

Þeir hjá Ísband hafa verið að hasla sér völl í breytingum á þeim jeppum sem þeir flytja inn. Við höfum reynsluekið nokkrum slíkum og þar á meðal Jeep Cherokee sem lesa má um hér.

Jóhannes Reykdal prófaði Jeep Wrangler Rubicon 4Xe og lét vel af honum en sá sem er til prufu hér og er 35 tommu breyttur er einmitt Wrangler Rubicon 4xe og er tengitvinnbíll.
Takið eftir kösturunum og snorkelinu.

Við tókum bílinn eina helgi fyrir skömmu og tékkuðum á torfærustillingunum. Við fórum að sjálfsögðu varlega því ekki vildum við valda náttúruspjöllum eða bjóða bílnum eitthvað sem hann réði ekki við.

Það kom hins vegar í ljós að bíllinn getur miklu meira en við buðum honum.
Blái þemaliturinn táknar að sjálfsögðu rafmagnið.

Allt til staðar enn

Eins og Jóhannes Reykdal segir í reynsluakstri á byrjunartýpu Jeep Wrangler Rubicon 4Xe í fyrra: „Og allt sem kaupendurnir hafa kunnað að meta við Wrangler er greinilega enn til staðar án mikillar málamiðlunar.

Wrangler 4Xe býður enn upp á vaðdýpt frá 70 sentímetrum (eykst með breytingapökkum), um 500 kílóa burðargetu og um 1.600 kílóa dráttargetu”.

Og enn segir Jóhannes:

„Það fer ekki á milli mála að hér erum við að tala um „alvöru jeppa“, engin „snúningstakki“ til að velja drifstillingar eða skipta í lágt eða hátt drif. Alvöru skiptistöng við hliðina á skiptistöng sjálfskiptingarinnar, og ef ekið er í torfærum er gítstöngin einfaldleg færð til hliðar í átt að ökumanninum og þá er hægt að skipta handvirkt á milli gíra”.

Hér má lesa ítarlega grein um reynsluakstur Jóhannesar Reykdals á jeppanum.
Ótrúlega vígalegur bíll sem skemmtun er að aka.

Snúum okkur að reynsluakstrinum sjálfum. Við ókum í átt að Nesjavöllum en þar vissum við um slóða sem Rarik hefur notað við að setja upp rafmagnsmöstur.

Slóðinn er grýttur og sumstaðar eru lægðir sem fara þarf varlega yfir til að tryggja að reka bílinn ekki uppundir.

Sætin eru afburðagóð.

Fór létt með smá torfærur

Wranglerinn hafði nú ekki mikið fyrir þessu og hefði án efa ekki erfiðað þennan slóða óbreyttur. Það sem er eftirtektarvert við drifbúnaðinn er hversu nákvæm inngjöfin er í torfærum.

Drifið vinnur þannig að bíllinn nær nánast alltaf gripi enda er þetta drif hannað með alvöru torfærur í huga.

Hefbðundið mælaborð sem ber keim af grófu lúkki eldri gerða.

Klifurgeta bílsins er með eindæmum – það hefur maður séð í erlendum myndböndum þar sem sérfræðingar hafa ekið bílnum í krefjandi aðstæðum.

Þægilegur í akstri

Þú finnur vart fyrir að um breyttan jeppa sé að ræða í venjulegum akstri. Algerlega hljóðlaus á rafmagninu en hljóðlátur og rásfastur með bensínvélinni.

Stýrið er þægilegt, fjöðrunin frábær og ekki annað hægt að segja en að þessi breyting sé afar vel heppnuð.
Jeppinn er á AEV Borah 17x10 Beadlock felgum.

Fjölbreyttir pakkar

Ísband er að bjóða upp á fjölbreyttar útfærslur á breytingum. Þeir bjóða upp á nokkrar útfærslur í 35, 37 og 40 tommu breytingum. Ísband er að bjóða breytingapakka frá Teraflex og Falcon sem hafa komið mjög vel út.

Það er til að mynda hægt að velja dempara með forðabúri, einnig sem hægt er að breyta innan úr bílnum.

Nú svo er hægt að fá allskyns aukabúnað ef menn vilja eins og snorkel, nokkrar gerðir af stigbrettum, hjólafestingar og ferðabox svo eitthvað sé nefnt.

Sá svarti, sem við prófuðum var ansi vígalegur með bláum þemalitnum á felgunum og fleiru. Jeppinn er á AEV Borah 17x10 Beadlock felgum.

Hér má sjá fjölbreytta aukahluti fyrir Jeep Wrangler Rubicon og verð á breytingapökkum.

Hnapparnir til að velja stillingar á milli Hybrid, rafstillingar og eSave eru neðarlega á mælaborðinu lengst til vinstri og eiginlega úr augsýn ökumannsins, sem er miður því það er ekki gott að breyta um stillinguna í akstrinum nema að líta af veginum.
2,0 lítra 273 hestafla bensínvél og 100 hestafla rafmótor tryggja samtals 375 hestöfl með 673 Nm togi - 38 Nm meira tog en í dísil Wrangler. Aflið skilar sér samtundis í einstakri akstursgetu jafnt á vegum og í torfærum.

Helstu tölur:

Verð frá 12.599.000 kr. – 35 tommu breyting frá 485.000 kr. Á reynsluakstursbíl um 710.000 kr.

Vélarstærð: 2 lítra, 4 strokka bensínvél

Afl: 375 hestöfl

Tog: 637 Nm.

Rock-Trac® fjórhjóladrif

Selec-Trac® millikassi

Tru-Loc® driflæsingar að framan og aftan

Aftengjanlegar jafnvægisstangir

Dana Heavy Duty fram- og afturhásing

Hlífðarplötur undir bílnum

ABS hemlalæsivörn

Spólvörn

Stöðugleikastýring

8,4” upplýsinga- og snertiskjár í mælaborði

Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson

Ljósmyndir, kvikmyndun og drónatökur: Jóhannes Reykdal og Pawel Karol Szaprowski.

Gefið út þann:
13/7/22
í flokknum:
Jeppar

Fleiri greinar úr flokknum: 

Jeppar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu fréttir í innhólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.