Rafmagnaður til að vera betri

TEGUND: Audi Q7 E-Tron

Árgerð: 2019

Orkugjafi:

137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Rafmagnaður til að vera betri

Verkfræðideild Audi hefur tekist að taka frábæran jeppa og gera hann enn magnaðari með því að gera hann rafmagnaðan.

Ef Evrópa færi í fullkomna lautarferð þá myndi hún fara fram í Sviss, með frönsku víni og ostum, ítölskum mat, spænskri skinku, rússneskum vodka, norskri síld, með körfu gerða af Þjóðverjum og allt skipulagt af Bretum. Íslendingar myndu svo mæta á svæðið til að borða og drekka allt saman.

Þannig er það með Audi Q7 E-Tron. Þar færðu rafmagnsmótor til að koma þér af stað, því hann er með togið á lágum snúning og öfluga díselvél, til að draga þig áfram í lengri ferðum á milli staða. Allt til að hægt sé að nota innlent rafmagn til að koma sér í og úr vinnu, en nýta díselvélina í hentugasta verkefni hennar.

Audi Q7 E-Tron tók sig vel út á dögunum í frostinu við Hellisheiðarvirkjun. Fögur og látlaus hönnunin sæmir sér vel á ljósum bíl sem þessum.

Tækni tækni tækni

Það fyrsta sem mig langar til að segja frá í sambandi við Audi Q7 E-tron er öll  tæknin sem í þennan bíl er lagt. Byrjum aftur í skotti. Þar fyrir neðan liggur 17.3 kWh batterí sem dugar í 56km. Hjá því liggur 75 lítra olíutankur sem dugar í 1.270 km. Hægra megin á bílnum er venjulegt lok og venjulegur staður til að fylla á dísel. Vinstra megin er alveg eins lok en fyrir aftan það er týpa tvö af rafmagnstengli. Á milli hjólanna má finna fimm stór og þægileg sæti, átta gíra sjálfskiptingu og stafrænt mælaborð. Þar er líka að finna fjórhjóladrif Audi, Quattro. Það er sítengt og er með sjálflæsandi miðjumismun á togi (þetta þýðir að bíllinn grípur vel og spólar ekkert).

Stafræna mælaborð Audi er hægt að stilla á marga mismunandi vegu, allt eftir hentisemi hvers og eins. Ef þú ert alltaf týndur getur þú haft kortið stórt og mikið. Ef þú ert meira fyrir eyðslutölur og að sjá hvernig tæknin í bílnum virkar er það líka ekkert mál.

En hvað er þá undir húddinu?

Jú, undir húddinu leynist síðan rúsínan í pylsuendanum, eða V6 vélin í framendanum. Hún er, eins og áður sagði, knúin díselolíu og skilar hvorki meira né minna en 190 kW (258 hestöfl) og 600 NM af togi. Við hana er síðan boltaður rafmagnsmótor sem er 94 kW og skilar hann 350NM af togi. Samanlagt skila þessar vélar því 275kW (373 hestöflum) og 700NM af togi. Það þýðir að Audi Q7 E-Tron er öflugri en fyrsti vörubíllinn sem ég ók. Þetta er því kraftmikill bíll og sést það best í því að hann getur dregið allt að þrjú og hálft tonn. Í akstri tekur þú svo ekkert eftir hvaða aflgjafi er að koma þér á milli staða. Bíllinn byrjar   alltaf akstur á rafmagninu einu saman og áður en þú veist af er hann búinn að skipta sjálfur á díselvélina. Hægt er að fikta í kerfinu og fá þann aflgjafa sem þú leitast eftir en nokkuð fljótt áttar maður sig á því að Auto er besta stillingin.

Þarna leynist V6 díselvélin falin undir plasthlífunum. Hún er með breitt togsvið og skilar sama togi frá 1.250 til 3.000 snúningum á mínútu. Það þýðir færri gírskiptingar og mýkri akstur. Uppgefin eyðsla er aðeins 1.9 lítrar á hundraðið.

Látlaus hönnun sem heillar

Hönnun Q7 er nokkuð látlaus. Bíllinn er með afar fáar línur en þær eru beinar, vel sjáanlegar og njóta sín vel. Framendinn sver sig vel í AUDI ættartréið og stórt grillið gefur bílnum kröftugt og sterkt útlit. Bíllinn sem ég var með til prufu var S-Line útgáfa en það gefur honum enn sportlegra útlit.

Hliðarsvipur Audi Q7 E-Tron er alveg eins og á öðrum Q7 sem eru knúnir einungis jarðefnaeldsneyti. Eini munurinn er E-Tron merkið á frambrettinu og „olíu lokið“ báðum megin.

Þægindi og allt innan handar

Að innan er Q7 með stórt og mikið mælaborð. Miðjustokkurinn nær hátt upp og veitir góðan stuðning við olnboga bílstjórans í akstri. Öll stjórntæki fyrir afþreyingarkerfi bílsins eru líka höfð innan handar fyrir bílstjórann og þarf maður aldrei að taka augun af veginum til að leita að tökkum eða hnöppum til að ýta á. Helst ber að nefna eins konar snertiflöt, líkt og fyrir mýs á fartölvum, þar sem þú einfaldlega skrifar með fingrinum heimilisfangið sem þú leitar að í leiðsögukerfinu.

Mælaborðið í Q7 er stílhreint og fínt. Skjárinn í miðju rís uppúr mælaborðinu þegar bíllinn er settur í gang. Stjórntækin fyrir miðstöðina eru stór og þægileg í notkun og sérstaklega auðvelt er að lesa á skjáinn, bæði þann sem er á milli takkanna og í tökkunum sjálfum, þegar að bjart er úti.

Innanrými þar sem þú vilt vera

Sætin í bílnum sem við vorum með til prufu höfðu hvítan þráð, saumaðan í tígulform á svart leðrið. Gaf þetta bílnum virkilega sterkan svip að innan og mæli ég hiklaust með þessu útliti á sætin. Sætin sjálf eru síðan virkilega þægileg og auðvelt að stilla sig vel af undir stýri á Q7. ISIOFIX festingarnar voru allar á sínum stað. Hægt er að halla aftursætunum og þegar þau eru lögð niður myndast algjörlega flatt skottrými.

Í skottinu rúmast 650 lítrar, það opnast vel og hefur gott kassalaga form. Afturljósin opnast með skotthleranum og því hefur Q7 einnig ljós í afturstuðaranum. Hurðarnar opnast vel og er ekkert mál að ganga um bílinn.

Lokaorð

Það var erfitt að skila Audi Q7 E-Tron aftur til Heklu í morgun. Verkfræðingum Audi hefur tekist að sameina kosti stórs jeppa saman við hagkvæmni rafmagnsbíls. Jafnvel þó að þyngd bílsins sé um 2.5 tonn þá upplifir þú það ekki við aksturinn. Fáir tengitvinnjeppar á markaðinum í dag ná að sameina kosti rafmagnsmótors og díselvélar því báðar hafa, jú, sínar sterku hliðar. Ég mæli fyllilega með Audi Q7 við alla þá sem leita sér að skemmtilegum og áhugaverðum tengitvinnjeppa. Ef þú pantar hann taktu hann þá bara ekki svartan, því þá halda allir að þú sért forstjóri. Hann nýtur sín best í ljósari litum með dökkum innréttingum.

Ef þér lýst á’ann, keyptann.

Ljósmyndir Jóhannes Reykdal.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar