Konungur jepplinganna

TEGUND: Nissan Qashqai

Árgerð: 2021

Orkugjafi:

Rými, hönnun og aksturseiginleikar
Upptak
138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Konungur jepplinganna

Nissan Qashqai hefur átt einróma vinsældum að fagna á Íslandi. Áreiðanlegur, hagkvæmur og nýst íslenskum bíleigendum ákaflega vel. Nú lítur þriðja kynslóð þessa ágæta bíls dagsins ljós – og er með öllu því nýjasta sem bíltæknin býður uppá í dag.

Það eru 18 sm. undir lægsta punkt á nýjum Nissan Qashqai.

Við hjá Bílabloggi vorum svo heppinn að fá að prófa þennan konung jepplinganna nánast um leið og hann lenti hjá umboðinu. Við tókum góðan rúnt á bílnum og satt best að segja stendur þessi nýi Nissan Qashqai undir nafni og vel það.

Stærri og flottari

Lengri, breiðari, hærri og lengra á milli hjóla. Hann er boðinn í fjölmörgum útgáfum með einni vélarstærð. Eins og áður er Qashqai boðinn fram- og fjórhjóladrifinn en nú aðeins í bensínútgáfu.

Qashqainn kemur með bensínvél sem gefur 158 hestöfl.

Tog er um 270 Nm. Það þýðir að bíllinn er þokkalega aflmikill en upptakið frekar lítið. Samt sem áður gefur þessi vél bílnum nægt afl og eftir að ferðahraða er náð malar bíllinn eins og köttur.

Skarpar og fallegar línur.

Mild hybrid

Nýr Qashqai er búinn litlum rafmótor (e. mild hybrid) sem hjálpar til við aksturinn á erfiðum tímum. Þessi mótor kemur inn þegar tekið er af stað til að hjálpa vélinni í upptakinu og auka hagkvæmnina. Eyðslan kemur líka á óvart.

Þessi nýi Qashqai er með uppgefna eyðslu frá 5,5 ltr. á hundraðið upp í 6,2 lítra á hverja hundrað kílómetra með sjálfskiptingu.

Afturendinn samsvarar sér vel og nú er rafdrifinn hleri í boði.

Frá upphafi hefur Nissan Qashqai notið vinsælda. Hann hefur dyggan kaupendahóp. Frá upphafi hafa 5 milljónir Nissan Qashqai verið framleiddir, þar af 3 milljónum í Evrópu og yfir 4000 eintökum á Íslandi.

Nissan Qashqai er boðinn í fjórum mismunandi útgáfum en taka skal fram að grunnútgáfan er sérlega vel búin.

Acenta kemur aðeins framhjóladrifinn, N-Connecta kemur fram- og fjórhjóladrifinn og Tekna og Tekna plús einnig.

Hurðir opnast sérlega vel og innstig er gott.
Afturhurðin opnast nánast í vinkil. Alveg um 90°.

Vel búin grunnútgáfa

Acenta bíllinn kemur með akreinastýringu, akreinavara, eCall öryggiskerfi, neyðarbremsuaðstoð, sjálvirkri neyðarhemlun, rafdrifinni handbremsu og er búinn brekkuaðstoð þannig að bíllinn rennur ekki þegar ekið er af stað.  

Bakkmyndavél, lykillaust aðgengi, lykillaus ræsing, vegaskiltanemar, hraðatakmarki og skynvæddur hraðastillir. Það þýðir að þessi grunnútgáfa er með betur búnu bílum í þessum stærðarflokki á markaðnum í dag.

Mælaborðið er stafrænt og stór margmiðlunarskjár fyrir miðju er auðveldur í notkun.
Góð sæti sem halda vel við, Isofix barnabílstólafestingar og slitsterk efni.
USB A og C afturí.

Hins vegar myndast verð dýrari gerðanna við val á lúxus sem gaman er að hafa en er alls ekki nauðsynlegur.

Bíllinn er þægilegur í akstri, sætin frábær, halda vel við bak og læri og áklæðin klædd slitsterkum efnum. Hægt er að fá Tekna plús með Nappa leðursætum og nuddi í framsætum.

Rafdrifni afturhlerinn opnast vel.
Slétt gólf við afturstuðarann gerir alla umgengni auðveldari.

Betri aksturseiginleikar

Qashqai er með nokkuð stinna fjöðrun, stýrið er létt og leikandi og bíllinn liggur vel á vegi. Við vorum að aka hringtorgin á Vesturlandsveginum sem eru rómuð fyrir „hálku” í bleytu. Þar stóð bíllinn sig mjög vel, leitaði ekkert út úr beygju þó um talsverðan ökuhraða væri að ræða. Pínu sport fílingur í akstrinum.

Nissan Qashqai hentar án efa stórum kaupendahópi.

Nú hefur BL opnað nýja og flotta aukahlutadeild þar sem hægt er að sníða bílinn svolítið eftir þörfum og áhugamálum kaupendanna. Það er hægt að fá flottar skíða- og hjólafestingar auk farangursboxa í úrvali.

Tekna er í boði með glerþaki.

Hagkvæmur og hentugur

Qashqai er fjölskyldubíll. Hann er plássgóður þó svo að miðjustokkur sé kannski aðeins stærri en í forveranum.

Það er gott pláss afturí og höfuðpláss þar er mjög gott. Inn- og útstig er frábært og hurðir opnast sérlega vel og þá sérstaklega afturhurðirnar sem opnast upp á gátt eða næstum 90°.

Grillið hefur tekið breytingum.

Auðvitað söknum við dísel útgáfunnar en við fylgjum stefnu og straumum í umhverfismálum og notum orkugjafa sem menga minna. Helstu samkeppnisaðilar eru bílar eins og Peugeot 3008, Skoda Karooq, BMW X1 og Volvo XC40 svo eitthvað sé nefnt.

Helstu tölur:

Verð frá : 4.690 þús. (Reynsluakstursbíll kr. 6.790 þús.)

Hestöfl: 158 hö.

Vél: 1.332 rms., fjórir strokkar.

Tog: 270 Nm.

Eyðsla bl.ak.: 6.2 ltr/100km.

Eigin þyngd: 1.400 kg.

Dráttargeta: 687/1500 kg.

L/B/H 4425/2084/1625 mm.

Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson.

Aðstoð við upptöku myndbands: Ólöf Þórðardóttir.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar