Hreinskilni í formi bíls

TEGUND: Dacia Sandero

Árgerð: 2019

Orkugjafi:

136
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Hreinskilni í formi bíls

Það færist alltaf í aukana að fólk tali við mig um að næsta kreppa sé rétt handan við hornið. Ef hún kemur og við þurfum að fá okkur ódýrari bíla þá erum við vel sett með Dacia Sandero.

Ég stóð í salnum hjá BL á Sævarhöfðanum einn daginn og áttaði mig þá allt í einu á því að ég væri að horfa á einn ódýrasta bíl landsins. En hvernig mátti það vera? Þetta er bara ósköp venjulegur bíll fannst mér. Hvernig getur hann verið svona ódýr? Ég bara varð að fá að prófa.

Frábært pláss

Dacia Sandero er í svokölluðum B flokki bíla. Hann er því aðeins stærri en minnstu bílarnir á markaðnum, en hann kostar samt minna en margir smábílar. Plássið að innan er til fyrirmyndar. Sætisbök eru mjó og nýtist því plássið betur fyrir aftan sætin. Ég átti ekki erfitt með að sitja í þægilega miklu plássi fyrir aftan sjálfan mig og er ég 1.84m á hæð. Lofthæð er líka mikil og ekki rakst ég í loftið aftur í.

Hurðirnar á Sandero opnast hrikalega vel og veita frábæran aðgang inn í bílinn, bæði í framsæti og í aftursæti.

Allur sá grunnbúnaður sem þarf

Að velja sér Sandero er eins einfalt og hægt er. Aðeins er ein vél í boði með fimm gíra beinskiptingu. Hægt er að bæta við nokkrum aukahlutum en samt sem áður er stærsta valið bara um litinn á bílnum. Hann kemur þó ágætlega búinn inn á íslenskan markað. Hiti í framsætum og hið fínasta útvarp með blátannarbúnaði (Bluetooth), AUX- og USB tengi. Efnisval er síðan með alveg hreint ágætum og efnin innan í Sandero virðast gefa manni tilfinninguna um að hann sé í raun dýrari en hann er.

Hönnun mælaborðsins í Sandero er stílhrein og að mínu mati fögur. Ekkert spreð í gangi en samt hefur þú geymslupláss ofan á því, ásamt því að hanskahólfið er framúrskarandi stórt. Mælar borðsins eru skýrir og einfaldir.

Frábær vél

Eins og áður sagði er aðeins ein vél í boði í Sandero. Hún er 0.9 lítra, skilar 90 hestöflum og er þriggja sílindera með túrbínu. Það sem kemur mest á óvart er að hún er framleidd af Mercedes fyrir Daciu í gegnum sameiginlega framleiðslu Daimler og Renault. Hún er með gott togsvið og hljómar frábærlega.

Þarna ber að líta öll herlegheitin í húddi bílsins. Vél þessi passar mjög vel við Sandero og fara þau saman, bíllinn og vélin, eins og Prins og kók. Frábær samsetning þarna á ferð.

Aksturseiginleikar sem koma á óvart

Dacia Sandero er skemmtilegur akstursbíll sem kom mér verulega á óvart. Hann er kvikur í stýri og lætur vel að stjórn. Þó að ekið sé í miklum hliðarvindi er bíllinn samt sem áður mjög rásfastur, jafnvel þó að verið sé að aka til vissra suðvestan horna landsins þar sem lognið var einstaklega mikið að flýta sér þennan daginn. Innanbæjar er síðan frábært hversu stutt er á milli gíranna, ásamt því hversu mjúkir pedalarnir eru.

Jafnvel þegar að bíllinn stendur sem fastast fyrir myndatöku má sjá hversu vel hann liggur á vegi. Sandero hallar lítið í beygjum og útsýnið út úr honum gerir það einstaklega auðvelt að leggja honum í stæði t.d.

Prýðisvel settur saman

Maður myndi halda að þegar að bíll kostar jafn lítið og Sandero að sparað væri eitthvað í samsetningu á honum, en það er ekki rétt. Bíllinn er einkar vel smíðaður og er greinilega hannaður frá grunni til að vera einfaldur í samsetningu, rekstri og notkun. Dacia hefur aldrei markaðsett sig sem nokkuð annað en framleiðandi sem býður uppá ódýra og vel smíðaða bíla. Frágangur er allur til fyrirmyndar og ekkert er um fúsk eða lélega samsetningu á bílnum. Gott dæmi um þetta eru sæti bílsins. Þau eru öll mjúk og góð. Einnig eru þau einföld í notkun og ekkert mál að stilla þau eftir þínum hentugleika.

Skottið á Sandero er 320 lítrar með sætin uppi, en fer upp í 1200 lítra séu þau lögð niður. Teppið í skottinu er úr mjög slitsterku og haldgóðu efni sem felur varadekk í fullri stærð fyrir neðan sig.

Lokaorð

Þegar þessi orð eru skrifuð virðist verkalýðsforysta landsins beinskeitt á að allir eigi að hækka í launum ellegar fari þau í verkfall og ný kreppa kemur. Hver svo sem niðurstaða þess verður, að laun hækki svo fólk geti keypt sér nýjan bíl eða laun lækki svo fólk þurfi að kaupa sér ódýrari bíl, þá getum við verið fullviss um það að Dacia Sandero mun svara kallinu. Sandero er bíll sem kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Vel smíðaður, ódýr og umfram allt gífurlega skemmtilegur bíll sem vel er hægt að mæla með fyrir hvern þann sem leitar sér að ódýrum og áreiðanlegum bíl með ánægjulega aksturseiginleika. Ég mæli með Sandero fyrir alla þá sem vilja ódýran og hreinskilinn bíl. Taktu hann í bláu eða rauðu og bættu við svörtum álfelgum. Aktu svo um hlægjandi að öllum þeim sem borguðu meira fyrir minni bíl.

Ef þér líst á’ann, keyptann!

Myndir: Pétur Ragnar Pétursson
Bros höfundar varð að vera deilt með grein þessari, enda ekki oft sem ég er svona hamingjusamur í aftursæti bíla.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar