Hagkvæmur og þægilegur dugnaðarforkur

TEGUND: Dacia Jogger

Árgerð: 2022

Orkugjafi:

Bensín

Rými, verð, akstursþægindi
Hart plast í hurðarspjöldum og plast og tauefni á mælaborði
138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Hagkvæmur og þægilegur dugnaðarforkur

Það vita væntanlega flestir að Dacia er byggður á frænda sínum frá Frakklandi, honum Renault. Í bílnum eru hlutir sem samnýttir eru í framleiðslu fyrirtækjanna. Þannig er Dacia Jogger náskyldur Renault Clio og byggður á sama grunni.

Dacia Jogger er rúmgóður og flottur fjölskyldubíll.

Að því sögðu skulum við líta á þennan sniðuga og ekki síst hagkvæma bíl.

Við mælum með að eftir lestur greinarinnar skoðir þú myndbandið sem fylgir umsögn okkar um bílinn.

Skemmtilega hannaður framendi, þéttur og sterklegur.

Ótrúlega rúmgóður

Dacia Jogger er sjö sæta „gemlingur” (ekki jepplingur), framdrifinn með 1 lítra, þriggja strokka mótor með forþjöppu sem gefur um 110 hestöfl.

Jogger er að toga þetta 200 Nm sem gerir þennan ágæta fák svo sem ekkert sérlega kraftmikinn í upptaki.

Hins vegar er mótorinn tengdur afar liprum sex gíra kassa sem hægt er að spila á eins og hljóðfæri. Með því er bara frábært að aka þessum bíl – allavega um götur bæjarins.

Dacian kemur í tveimur útfærslum; Essential og Comfort. Reynsluakstursbíllinn er í Comfort útfærslunni.

Einfalt er oft betra

Um er að ræða tiltölulega einfaldan bíl – enda hefur margt gott fólk „einfaldan smekk” eins og sagt er. Dacia Jogger er nefnilega flottur bíll í einfaldleika sínum.

Allt efnisval er ágætt – nema kannski tauið í mælaborðinu sem ruglar mann pínu í ríminu en það minnir helst á truflanir í sjónvarpsútsendingu. Samt flott.

Einfalt er oft mest aðlaðandi.

Í bílnum er miðjuskjár með öllu því helsta sem við þekkjum í dag. Gerðirnar í boði hjá BL eru tvær; Essential og Comfort. Við reynsluókum Comfort bílnum en hann er aðeins betur búinn en Essential týpan.

Þannig er Comfort með bakkmyndavél, Android Auto og Apple Carplay og skynjurum að framan og aftan svo þú akir síður utan í aðra bíla til dæmis þegar þú leggur honum.  

Comfort týpan er einnig með blindhornaviðvörun – sem er sérlega þægilegur fídus þegar ekið er í þungri umferð.

Stílhreint útlit á afturenda.

Nánast eins og sendibíll

Það skemmtilega við þennan bíl er að plássið er eins og í íþróttahúsi áður en dekkað er upp til fermingarveislu.

Þú getur einnig auðveldlega hjálpað Stínu frænku að flytja þvottavélina eða skroppið í Ikea og skellt eins og einum stofuskáp í skottið á Daciunni.

Þú bara smellir aftursætunum úr og lyftir fremri sætalengjunni fram.

Taktu nú hár úr hala mínum, segir í kvæðinu – allt að 1.800 lítra farangursgeymsla fyrir aftan ökumann og farþega í framsæti.

Þannig getur þú náð allt að 1.800 lítra plássi fyrir aftan framsætin. Og þetta magn í lítrum er næstum það sama og heiti potturinn í sundlauginni á Suðureyri við Súgandafjörð.

16 tommu álfelgur.

Hitt er, og ekki síðra, að Dacia Jogger hentar mjög „breiðum” hópi kaupenda. Ef það er eitthvað sem viðkomandi hefur áhyggjur af – að hann komist ekki fyrir er ég sko til í að sýna fram á þær áhyggjur eru ástæðulausar. Skoðið myndbandið.

Þriðja sætaröðin passar fullorðnum

Plássið í aftursætum er nægt og höfuðplássið ágætt. Fram í eru sætin með nægt fótapláss, gott inn- og útstig er bæði að framan helstu bílaframleiðendum sem þorað hafa að troða tveimur sætum fyrir fullorðna í skottið á bílum sínum.

Það myndi ekki væsa um mann hringinn þarna aftur í, svo þægileg eru þessi sæti og plássið aftur í.

Sætin eru djúp og ná vel undir hnésbæturnar. Virklega þægileg sæti.

Dacia Jogger er ótrúlega þægilegur í akstri, lipur, léttur í stýri og gott útsýni um alla glugga.

Fjöðrunin er frekar mjúk og hann leggst eilítið í beygjur en þetta er „venjulegur fólksbíll” með vélina fram í.

20 sm. undir lægsta punkt.

Fínt verð

Þessi bíll er bara algjör bomba og þú færð vel fyrir það sem þú borgar. Að því sögðu er þessi bíll á fínasta verði eða um 3.890.000 og upp í 4.390.000 krónur.

Hægt er að velja úr fjölda skemmtilegra lita og þú getur hengt á bílinn alls kyns aukahluti sem gera hann enn nýtilegri.

Þar má nefna tengdamömmubox, dráttarbeisli, hjólafestingar og gluggahlífar – semsagt má gera hann kláran í næstum hvað sem er.

Hurðir opnast upp á gátt bæði að framan og aftan.
Skotthlerinn slúttir ekki niður þannig að hávaxnir reki höfuðið í hann við hleðslu.

Hentar mörgum

Dacia Jogger hentar frábærlega sem fjölskyldubíll, ferðabíll, konubíll, karlabíll, fyrsti bíll, rallý bíll eða bara alhliða bíll sem nýtist fyrir ungu hjónin með nýfædda barnið, vagninn, kerruna og tvö eldri börn.

Jafnvel eldri hjónin sem fara í golf fimm sinnum í viku, kaupa ís með barnabörnum á björtum sumarkvöldum og í sumarbústaðinn þess á milli.

Einfaldur skjár með Apple Carplay og Android Auto.

Að vísu erum við að tala um hart plast í mælaborði og rímisruglandi tauefni – en það eru þvílík smáatriði að á þau er vart hægt að minnast. Upptakið er í lakara lagi en þegar forþjappan kemur inn togar bíllinn ágætlega.

Helstu tölur

Verð frá 3.890.000 kr. Reynsluakstursbíll 4.390.000 kr.

Hestöfl: 110 hö.

Vél: 1.000 rms., þrír strokkar.

Tog: 200 Nm.

Eyðsla bl.ak.: 5.7 ltr/100km.

Eigin þyngd: 1.200 kg.

L/B/H 4.547/1.784/1.632mm.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar