Uppruni tegundanna

Nei, þessi grein hefur ekkert með Charles Darwin að gera. Hér verður í stuttu máli fjallað um uppruna nokkurra elstu bíltegundanna og fyrirtækin sem stóðu á bakvið þær.

Sum af þessum fyrirtækjum voru nefnilega alls ekki stofnuð til að framleiða bíla.

FIAT

Ítalska fyrirtækið Fabbrica Italiana Automobili Torino var stofnað 1899 af Giovanni Agnelli og framleiddi fyrsta bílinn sama ár.

Renault

Franska fyrirtækið Société Renault Frères var einnig stofnað 1899 um bílaframleiðslu af bræðrunum Louis, Marcel og Fernand Renault.

Land Rover

Breska fyrirtækið var stofnað 1896 af fjölskyldunum Sumner og Spurrier og var nefnt Lancashire Steam Motor Company í upphafi en eins og nafnið gefur til kynna framleiddi fyrirtækið gufuknúin tæki í upphafi. Fyrsta framleiðslan voru gufuknúnar garðsláttuvélar.

Škoda Auto

Škoda Auto er tékkneskt fyrirtæki sem var stofnað 1895 en það fékk heitið Laurin & Klement í upphafi í höfuðið á stofnendum þess Václav Laurin and Václav Klement en fyrirtækið framleiddi reiðhjól, mótorhjól og bíla í Mladá Boleslav sem var þá í konungsdæminu Bóhemíu.

Mercedes Benz

Þetta Þýska fyrirtæki var ekki formlega stofnað fyrr en 1926 en það varð til úr tveimur eldri fyrirtækjum sem hétu  Daimler-Motoren-Gesellschaft (DMG) stofnað 1890 og  Benz & Companie Rheinische Gasmotoren-Fabrik stofnað 1883.

Bæði fyrirtækin framleiddu vélar í upphafi og voru stofnuð annars vegar af Karl Benz, Max Rose og Friedrich Wilhelm Eßlinger og hins vegar af Gottlieb Daimler og Wilhelm Maybach.

Fljótlega fóru þau að framleiða bíla og Benz smíðaði fyrsta bensínknúna „hestlausa vagninn“, Benz Patent-Motorwagen 1886.

Opel Automobile GmbH

Adam Opel stofnaði þetta Þýska fyrirtæki 1862 sem gengur undir nafninu Opel en það framleiddi saumavélar. Næst bættist við smíði reiðhjóla og að lokum bílaframleiðsla.

Tatra

Ignác Šustala stofnaði fyrirtækið Ignatz Schustala & Comp. 1850 og framleiddi hestvagna en síðar lestarvagna 1891 en þá var fyrirtækið endurnefnt og hét þá Nesselsdorfer Wagenbau-Fabriksgesellschaft.

Tæknistjóri Tatra, Hugo Fischer von Roeslerstamm keypti bíl af Benz sjálfum 1897 sem hann notaði sem innblástur til að smíða fyrsta bíl fyrirtækisins sem var nefndur Präsident seinna sama ár.

Peugeot

Franska fjölskyldufyrirtækið Peugeot var stofnað annað hvort 1803 eða 1810 en heimildum ber ekki saman. Fyrirtækið stofnuðu bræðurnir Jean-Pierre og Jean-Frédéric Peugeot og það rak millu sem malaði korn eða kaffi en aftur ber heimildum ekki saman.

Peugeot er elsta vörumerkið í bílasögunni.

Áður en bílasmíði og framleiðsla hófst framleiddi Peugeot m.a. sagir, gorma og fjaðrir fyrir úrsmiði, reiðhjól, kaffikvarnir og salt- og piparkvarnir. En sumt af þessu er enn framleitt og ber vöruheitið Peugeot og eru t.d. salt- og piparkvarnirnar þeirra taldar vera með þeim bestu í veitingahúsabransanum.

Bílasmíði hófst 1882 en fyrsti bíllinn merktur Peugeot var þriggja hjóla og gufuknúinn og var sýndur á Heimssýningunni í París 1889. Þess má að gamni geta að undirritaður hefur aðeins einu sinni setið í hringekju og sú er einmitt frá sömu heimssýningu og var í fullkomnu lagi síðast þegar fréttist af henni. En bíllinn vakti mikla lukku og eftirtekt á sýningunni.

Fyrsti bíllinn sem keyrði á ítölskum vegum var einmitt þessi sami Peugeot. Já, ótrúlegt en satt fyrsti bíllinn sem keyrður var á Ítalíu var Franskur.

Þetta var 1893 en Gaetano Rossi, auðugur iðnjöfur með vefnaðarvörur, pantaði bílinn frá Frakklandi 1892 og fékk hann sendann næsta ár til heimilis síns á norður Ítalíu.

Öll framantalin fyrirtæki eiga það sameiginlegt að ná að smíða sinn fyrsta bíl áður en tuttugasta öldin rann í garð. Fyrirtækjum sem framleiddu bíla fjölgaði allnokkuð næstu áratugina eftir það.

[Greinin birtist fyrst sumarið 2021]
Sett inn
9/4/2022
í flokknum:
Bílasagan

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílasagan

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.