Stórmerkileg grúppa á Facebook, sneisafull (samt pláss fyrir fleiri) af sérfræðingum um rússajeppana á Íslandi og notalegt afdrep á oft hringiðukenndum samfélagsmiðlinum. Mikið rétt, þetta er grúppan Rússajeppar á Íslandi.

Fyrir stuttu síðan hófst óformleg úttekt undirritaðrar á íslenskum bíla„grúppum“ á Facebook og varð í fyrstu umfjöllun fyrir valinu ein sem í upphafi hét Lærðu að leggja en heitir núna Verst lagði bíllinn og hér er hlekkur á þá umfjöllun.

Nú er komið að rússajeppunum!

Sjálf hef ég verið meðlimur í „grúppunni“ (jú, ég fer að hætta að setja gæsalappir og nota einfaldlega orðið grúppa héðan í frá, lappalaust!) síðan haustið 2013 og játa að ég hef ekki margt lagt til málanna. Hins vegar hef ég lært eitt og annað af því fróða fólki sem deilir einu og öðru þarna inni.

Grúppan var stofnuð í febrúar 2013 og henni tilheyra rúmlega 4900 manns. Það er slatti! Tveir menn halda utan um allt saman og eru það þeir Sigurbjörn Helgason og Sigurgeir Guðmundsson.

Jeppi Sigurgeirs Guðmundssonar er af gerðinni GAZ69 og árgerðin er 1957. Persónulega þykir mér þessi nú með flottari jeppum á landinu.

Síðasta mánuðinn voru innleggin 24 talsins þannig að það er ekki ónæði af grúppunni, eins og stundum vill verða í svo fjölmennum hópum, heldur eru innleggin fræðandi, jákvæð og oftast nær líka skemmtileg. En áður en fjallað er um hvers konar umræða fer fram innan grúppunnar er rétt að skoða hvers vegna hún varð til í upphafi vega.

Þetta var nú hugmyndin

Vitna ég beint í „um-ið“, það er að segja upplýsingar um grúppuna Rússajeppar á Íslandi. Segir þar:

„Í nóvember 1955 bárust hingað tveir sýningarbílar af GAZ69 jeppum og vöktu þeir mikla athygli og strax í byrjun árs 1956 hófst innflutningur á Rússajeppanum eins og þeir voru kallaðir eftir þetta.
Er ekki að orðlengja að hann náði strax miklum vinsældum og á enn stóran aðdáendahóp hérlendis ásamt UAZ 452/469 og Lada Niva/Sport.
Þessi síða er stofnuð til að eigendur og áhugafólk þessara bíla geti sýnt myndir af sínum jeppum eða gamlar íslenskar myndir eða myndböndum teknum hérlendis af þeim,skipst á tækniupplýsingum eða varahlutum nú eða bara spjallað um ágæti þeirra.“

Þessi stefna hefur algjörlega haldist, enda er öll umfjöllun eða umræður nákvæmlega á þessum nótum og aldrei nein leiðindi, skítkast eða einhver að reyna að selja straujárn, málningarþjónustu eða tannviðgerðir í útlöndum innan „veggja“ grúppunnar, eins og því miður vill verða í sumum af þeim stærri.

Allar meðfylgjandi myndir eru úr grúppunni og birtar hér með leyfi umsjónarmanna síðunnar Rússajeppar á Íslandi.

Það eru sagðar sögur, púslin koma saman og verða að heildarmynd og gamlir bílar á ljósmyndum öðlast komast aftur á ferð þegar meðlimir bæta  við blaðsíðum eða jafnvel köflum við myndirnar.

Fortíðarþrá? Það getur verið,, en mikið er hún jákvæð og skemmtileg! Leyfum þessum orðum að lifna aðeins við með dæmum:

Skjáskot af hluta úr umræðu á Rússajeppar á Íslandi.

Að kvöldi síðasta jóladags birti Árni nokkur Alfreðsson skemmtilega frásögn og fékk ég leyfi hans til að birta hana hér auk myndar sem sögunni fylgdi.

Jólasaga Árna Alfreðssonar

„Að kvöldi jóladags fyrir tæpum 40 árum ákváðum við félagarnir að fara í ævintýraferð. Enginn skemmtistaður opinn og ekkert annað að gera en finna upp á einhverju skemmtilegu sjálfir. Einu sinni sem oftar fékk ég frambyggða Rússann hans pabba lánaðan. Hann var alltaf ónískur á að lána fjölskyldubílinn. Mikill frostakafli hafði verið dagana á undan. Og talsvert snjóað. Fórum fjórir úr Reykjavík seint um kvöldið. Þó bíllinn væri á einhverjum ofurnöglum þá náði ég samt að slæda honum þokkalega á leið niður Kambana (fyrstu stóru beygjunni). Engin umferð og því nánast engin hætta.
Eftir að keyrt var yfir gömlu Markarfljótsbrúna var bílnum beint inn á Þórsmerkurveginn. Allt var á kafi í snjó og hvergi markaði fyrir veginum. Ég þekkti þetta þó eins og puttana á mér. Fyrst var keyrt yfir Eyvindarholtsána á brú. Svo tók Hólalækurinn við. Lækurinn var eitthvað upphlaupinn eins og kallað er. Dýpri en venjulega. En samt leit þetta ekkert illa út.
Var komin í fyrsta og lága. Fannst því skrýtið að bíllinn skyldi byrja að spóla þarna í miðjum læknum. Gat ekki einu sinni bakkað. Fórum út byrjuðum að moka. Vatnið var ekki upp fyrir dekk. Það var svona tíu stiga frost. Maður þurfti náttúrlega að leggjast á kaf í vatnið til að moka frá dekkjunum. Stöðugur straumur af ís og krapa gerði moksturinn tilgangslitlan að manni fannst. Svartamyrkur var en hausljósin gerðu eitthvað gagn.
Eftir heilmikinn mokstur tókum við eftir því að felgurnar snérsust en dekkin ekki. Kom reyndar í ljós að öll dekkin voru loftlaus. Allir ventlar voru horfnir. Höfðu slitnað af slöngudekkjunum. Það sem gerst hafði var að svokallaður grunnstingull var í botni lækjarins. Þetta er svona krapasósa sem frýs þegar hann kemst í snertingu við eitthvað fast. Eins og t.a.m. dekk. Eðlisfræðilega merkilegt fyrirbæri. Svosem þekkt fyrirbæri en ekki á hverjum degi sem maður lendir í þessu. Vorum því lengi að átta okkur á vandamálinu.
Enginn var gemsinn á þessum tíma. Svo við röltum af stað upp að Stóru Mörk. Nokkurra kílómetra leið. Megnið af leiðinni var snjór í mitt læri eða klof. Aldrei séð eins mörg störnuhröp á ævinni. Komum í Vesturbæinn undir morgun.
Þarna var okkur eðlilega vel tekið. Kiddi skaust með hluta okkar á eina yfirbyggða traktornum. International. Gallinn var sá að hann var ljóslaus. Notuðum því hausljósin til að komast á staðinn. Rússinn dreginn á þurrt. Daginn eftir (annan dag jóla) rönkuðum við úr rotinu í baðstofunni í Vesturbænum um kaffileytið.
Bændur voru þá að koma með fé af Fjalli. Höfðu farið inn Nes á vélsleðum að sækja nokkrar kindur. Við vorum hálf kindarlegir þegar við loks skriðum ofan úr baðstofu niður í kaffi. En frændur mínir og fleiri höfðu frétt að þessu feiðgarflani okkar og voru búnir að dekkja Rússann aftur. Allt til að koma heimsku borgarbörnunum aftur í bæinn.
Það má alveg deila um hversu mikið skemmtanagildi þessi ferð hafði. Eins og upphaflega var lagt upp með. En við vorum a.m.k. reynslunni ríkari.“

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Sett inn
14/1/2022
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.