Nýtt kínverskt rafbílafyrirtæki klónar Mini

Það gæti farið svo að við gætum séð rafmagnsútgáfu af hinum klassíska Mini, breskum borgarbíl sem var framleiddur af BMC og arftaka hans frá 1959 til 2000. Nýja kínverska rafbílaútgáfan er frekar góður „klón“, með alls kyns töff gömlum eða „retro“ áherslum. Hlutföllin virðast vera í lagi og hann er með flotta krómaða stuðara, spegla og rúðuþurrkur.

Jafnvel loftnetið hefur einhvern gamaldags blæ og álfelgurnar líta út eins og þær hafi ferðast í tíma frá 1960 til dagsins í dag.

En það er líka nokkur munur, einkum rafhlöðupakkinn undir gólfi ökutækisins. Yfirbyggingin er aðeins sléttari og straumlínulagaðri en upprunalega, sérstaklega að framan. Að rafvæða Mini sem 2022 borgarbíl virðist svo frábær hugmynd. Maður getur velt því fyrir sér hvers vegna núverandi eigandi, sem er BMW, hafi ekki hugsað út í þetta sjálfur.

Jæja, BMW gerði það svo sem. Bráðum mun framleiðsla á rafknúnum Mini fyrir kínverska bílamarkaðinn hefjast með nýju samstarfsverkefni GWM-Mini. En sá bíll verður miklu stærri og Mini aðeins að nafninu til. Athyglisvert er að GWM er einnig eigandi ORA vörumerkisins, sem framleiðir klónuðu „bjöllurnar“ sem byggja á gamla góða VW.

Komið einkaleyfi í Kína

Einkaleyfi hefur fengist fyrir hönnun nýja rafmagns Mini í Kína. Þannig að BMW hefur misst af þessu. Fyrirtækið sem lagði fram einkaleyfið er nýtt og óþekkt, sem heitir Beijing Estech Technology Co., Ltd. (北京艾斯泰克科技有限公司). Opinberar fyrirtækjaskrár sýna að þetta fyrirtæki er stutt af tveimur fyrirtækjum: hönnunar- og verkfræðifyrirtækinu IAT Automobile Technology (IAT) og sérsniðna jeppaframleiðandanum Karlmann King. Sá síðarnefndi þróaði hinn geggjaða Karlmann King jeppa, byggðan á Ford F-450. Þessi jeppi var hannaður af IAT.

Af myndunum virðist sem rafmótorinn sé staðsettur að framan. Þessi klassíski Mini var líka með vélina að framan. Svo það er það sama og í þeim upprunalega. Vélarhlífin virðist samt töluvert lægri en á þeim breska.

Þessi nýi „klón“ er meira að segja með þessi litlu 1960 ljós sitt hvoru megin við númeraplötuna. Það er almennileg „klónunarvinna“. Hleðslutengið er falið á bak við gamaldags eldsneytislok á vinstra-afturbrettinu.

Ekkert hefur komið fram um tæknilýsingu enn þá, en samkvæmt fréttum og einkaleyfisumsókninni mun bíllinn líklegast halda sig við framhjóladrifið upprunalega, með mótor undir húddinu, sem knýr aðeins framhjólin. Hafa skal í huga að fyrirtækið á bak við þetta gæti valið að gera bílinn aðeins stærri en þann upprunalega til að gefa meira innra pláss; stærðirnar voru ekki nefndar í einkaleyfisumsókninni, svo við getum ekki enn fullyrt að nýi bíllinn verði í sömu stærð.

Vitanlega eru allir mjög forvitnir um frekari þróun þessa nýja kínverska klóns. Segjum frá því síðar þegar meira fréttist.

(fréttir á vef INSIDEEVs og CarNewsChina)
Sett inn
21/6/2022
í flokknum:
Bílaframleiðsla

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaframleiðsla

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.