Ný vottun viðgerða verndar neytendur

Ný Evrópuvottun á bílaviðgerðum á Íslandi tryggir fulla árekstravörn, óskerta verksmiðjuábyrgð og 3ja ára ábyrgð á tjónaviðgerðum.

Fyrsta Eurogarant vottunin á Íslandi afhent. Torfi Þórðarson, stjórnarmaður FRM (Félags Réttinga- og málningarverkstæða), Stefán Magnússon, BSI á Íslandi og Kristmundur Árnason, Bílastjörnunni.

Áhersla á umferðaröryggi almennings, aukin neytendavernd og áframhaldandi ótakmörkuð verksmiðjuábyrgð á bílum eftir tjónaviðgerð eru lykilþættir í evrópska gæðastaðlinum Eurogarant sem vottað hefur fyrsta verkstæðið á Íslandi. Á annan tug verkstæða hérlendis vinnur að því að fá samskonar vottun. Nauðsyn til að tryggja öryggi segir fagfélagið FRM.

„Nýleg dæmi sanna að fólk getur keypt vel útlítandi bíl sem er stórskemmdur, nærri verðlaus og jafnvel hættulegur. Við eigum flest börn í umferðinni og þessi staðall snýst um að bílar séu áfram 100% öruggir og í ábyrgð eftir að tjón er lagfært.“ segir Kristmundur Árnason, framkvæmdarstjóri Bílastjörnunnar, fyrsta fyrirtækis á Íslandi til að fá Eurogarant vottun.

„Ný tækni og efni eru að umbylta bílaframleiðslu og fækka dauðaslysum.

Viðgerðatæknin hefur líka gjörbreyst. Eurogarant endurspeglar þörfina á að uppfæra gæða- og eftirlitskerfi í bílaviðgerðum í átt að því sem tíðkast í flugvélaheiminum, að fara eftir ítrustu kröfum framleiðenda.“ segir Ragnar Geir Gíslason, formaður Félags réttinga- og málningarverkstæða.

Ný tækni og öryggi: Rétting á bílum snýst ekki lengur um að berja plötu á sinn stað. Ný efni, s.s. mismunandi stáltegundir, ál, gerviefni og ný háþróuð öryggistækni, krefjast aukinnar kunnáttu bifreiðasmiða til að bíll haldi fullri árekstrarvörn eftir viðgerð.

Prófanir í Þýskalandi og Svíþjóð sýna að röng rétting á B-bita, sem veitir vörn fyrir hliðarárekstri, getur helmingað styrk bitans sem valdið getur banaslysum.

Þá er yfirbygging bíla hönnuð þannig að hún dragi í sig högg og loks þurfa loftpúðar að blásast út á nákvæmlega réttum tíma til að veita fulla vörn við árekstur. Röng rétting getur dregið úr höggþoli yfirbyggingar og virkni loftpúða með lífshættulegum afleiðingum.

Verksmiðjuábyrgð: Eurogarant vottun tryggir að viðgerð sé í samræmi við ítrustu kröfur bílaframleiðanda. Hæstiréttur Þýskalands komst að þeirri niðurstöðu árið 2010 að réttingavinna á Eurogarant vottuðu verkstæði sé jafngild því sem bílaframleiðendur krefjast af umboðsverkstæðum og tryggi því áframhaldandi verksmiðjuábyrgð framleiðanda.

Aukin neytendavernd: Eurogarant verkstæði veitir 3 ára gæðaábyrgð á tjónaviðgerðum eða einu ári lengur en neytendalög á Íslandi krefjast.

AIRC International, alþjóðleg samtök réttingaverkstæða standa að Eurogarant. BSI á Íslandi, sem sér um faggilda vottun á ISO stöðlum, er ábyrgt fyrir úttektum og vottun á Eurogarant á Íslandi. Eurogarant starfar með hag almennings og aukið umferðaröryggi að leiðarljósi.

Sett inn
15/11/2020
í flokknum:
Fréttatilkynning

Fleiri fréttir úr flokknum:

Fréttatilkynning

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.