Land Rover kynnir Defender Trophy Edition í takmörkuðum fjölda

  • Aðeins 220 eintök verða smíðuð til að heiðra fyrri Camel Trophy keppnir Land Rover. Eintökin hafa öll  verið frátekin fyrir Norður-Ameríkumarkaðinn
  • Ísland reyndi að komast í keppnina 1996 með þátttöku í forkeppni sem fór fram í Marokkó

Camel Trophy var „jeppakeppni“ sem haldin var árlega milli 1980 og 2000 og var hún þekktust fyrir að nota Land Rover jeppa í krefjandi landslagi. Viðburðurinn fékk nafn sitt frá aðalstyrktaraðilanum; Camel sígarettumerkinu.

Upphaf Camel Trophy má rekja til þess er þrjú þýsk lið, árið 1980, fóru á sérútbúnum jeppum til að kanna Amazon-vatnasvæðið. Eftir þennan fyrsta viðburð sneru skipuleggjendur sér til Land Rover um stuðning og á næstu tuttugu árum voru eingöngu ökutæki Land Rover notuð. Range Rover, Land Rover Series III, Land Rover 90, Land Rover 110, Land Rover Defender, Land Rover Discovery og Freelander bílar birtust allir í áberandi „sandgulum“ lit.

Ökutækjunum var mikið breytt hjá sérsmíðadeild Land Rover, með þar til gerðum björgunar- og öryggisbúnaði fyrir þessa sérstöku leiðangra.

Land Rover hefur smíðað nýja sérútgáfu af Defender, sem er til minningar um Camel Trophy jeppa fyrirtækisins hér á árum áður.

Bíllinn er kallað Defender Trophy Edition og er ljóst af útlitseinkennunum að hönnuðirnir hafa sótt innblásturinn til klassískra torfærubíla sem kepptu á árunum 1980 til 2000.

Bílarnir eru málaðir í sama gula litnum, eins og á upprunalegum Camel Trophy bílum. Hins vegar voru upprunalegu keppnisbílarnir með „Camel“-merki á öllum hurðum á sínum tíma.

Land Rover gat ekki notað vörumerki sígarettufyrirtækisins af lagalegum ástæðum, svo að til að komast í kringum málið hefur breska vörumerkið hannað nýtt merki fyrir þessa sérútgáfu Defender, sem lítur svolítið út eins og Camel merkið var á sínum tíma.

Annar viðbótarbúnaður fyrir torfærur er þakgrind fyrir leiðangurinn, hlífðarplata að framan, drullusokkar, gúmmígólfmottur, samþætt loftþjappa og samfellanlegur stigi sem veitir aðgang að þaki bílsins. Kaupendur geta einnig tilgreint spil sem aukahlut.

Defender Trophy Edition er byggður á X-Dynamic SE forskrift Land Rover og er með P400 túrbó 3,0 lítra sex strokka línu bensínvél með mildum blendingsbúnaði sem skilar 395 hestöflum og 550 Nm togi.

Afl fer á öll fjögur hjólin með átta gíra sjálfskiptingu; Land Rover segir að hröðunin sé 6,1 sekúnda frá 0 upp í 100 km/klst og hámarkshraðinn sé liðlega 200 km/klst.

Aðeins í sölu í Bandaríkjunum

Því miður mun Land Rover Defender Trophy Edition aðeins fara í sölu í Norður -Ameríku, og það í takmörkuðu framleiðslumagni sem er 220 eintök. Verðið er frá 90.000 dollurum (um 11 milljónir ISK).

Sem hluta af kaupunum mun Land Rover bjóða upp á einstaka upplifun fyrir fyrstu níutíu kaupendur Defender Trophy, með því að taka þátt í torfæruakstri og fyrstur kemur fyrstur fær.

Viðburðurinn verður haldinn á Biltmore Estate í Asheville, Norður-Karólínu, og mun gefa kaupendum tækifæri til að finna hvað nýju bílarnir þeirra geta gert, með leiðsögn sérfræðinga í torfæruakstri.

Sigurvegara bandaríska viðburðarins (eins og dómnefnd ákveður) verður síðan boðið til Bretlands til að keppa í Land Rover torfærukeppninni við Eastnor kastalann snemma árs 2022.

Í undankeppninni sjálfri í Marokkó og síðan á akstrinum á Kalaiamnatn á Borneó voru notaðir Land Rover Discovery 1 5-hurða 300tdi.

Þegar Ísland reyndi að vera með

  • Íslendingar voru með í undankeppni Kalimantan 1996 sem var haldin í Marokkó

Hópur Íslendinga tók þátt í undankeppni fyrir Camel Trophy í Marokkó í janúar 1996, og fjallað var um keppnina í DV Bílum á sínum tíma, skoðum það aðeins nánar:

„Ein erfiðasta og fjölbreyttasta aksturskeppni í heiminum í dag er hin árlega Camel Trophy jeppakeppni þar sem keppnislið frá fjölmörgum löndum etja kappi saman við erfiðar aðstæður þar sem ekið er um frumskóga og eyðimerkur og leiðangursmenn verða að leysa margar þrautir sem reyna á þol og liðsandann.

Íslendingar hafa aldrei átt keppanda í Camel Trophy en fyrir tveimur árum áttum við þess kost að senda menn í undankeppni meðal Norðurlanda en þá var ein áhöfn sem keppti sameiginlega fyrir hönd Norðurlanda. Þá var undankeppnin haldin i Svíþjóð en þá fóru leikar svo að enginn Íslendinganna náði áfram. Við vorum ekki með í fyrra en nú hefur keppnisbílum Norðurlanda verið fjölgað upp í tvo og því eiga fjórir Norðurlandabúar þess kost að skipa þessar tvær áhafnir.“

Á annað hundrað umsóknir

„Það komu á annað hundrað umsóknir um þátttöku í Camel Trophy að þessu sinni," sagði Arngrímur Hermannsson hjá ferðaskrifstofunni Addísi en hann er umboðsaðili Camel Trophy-keppninnar hér á landi. „Við byrjuðum á því að þrengja hópinn niður í fimmtán manns og síðan niður í sex manns, þannig að tveir voru valdir úr hópi manna úr björgunarsyeitunum, tveir frá ferðaklúbbnum 4x4 og loks tveir úr hópi almennra umsækjenda, þrír aðalmenn og þrír til vara, en hópinn skipa þeir Gunnar Örn Pétursson, Árni Árnason, Erling Júliníusson, Ásgeir Böðvarsson, Guðjón Marteinsson og Viðar Þór Hauksson“.

Svo sagði frá undirbúningi keppninnar í DV í janúar 1996.

Ævintýraleg forkeppni fyrir Camel Trophy í Marokkó:

Það gekk á ýmsu hjá íslensku keppendunum í Camel Trophy í Marokkó 1996:

„Fjallgöngur og þolhlaup í svartamyrkri - auk akstursþrauta, klettaklifurs og kappróðurs á gúmmíbátum“ var fyrirsögnin á frásögninni um keppnina í DV Bílum, en sá sem þetta skrifar var með í ferðinni sem blaðamaður:

„Afríka tók á móti okkur með hálfgerðum hrollkulda þegar við stigum út úr flugvélinni á flugvellinum í Marrakesh í Marckkó í síðustu viku; hitastigið var aðeins tíu gráður. Stjörnurnar blikuðu á biksvörtum himninum þegar Norðurlandabúarnir fimmtán, sem voru þarna komnir í undankeppni fyrir Camel Trophy, eina erfiðustu jeppakeppni í heimi, gengu frá borði eftir flugið frá Kaupmannahöfn þar sem við höfðum notið þess að vera í fylgd Hinriks drottingarmanns af Danmörku. Þrír keppendur voru þarna frá hverju Norðurlandanna fimm og þar á meðal þeir Gunnar Örn Pétursson, Erling Júliníusson og Guðjón Marteinsson, en þeir átta hlutskörpustu úr hópnum áttu síðan fram undan að taka þátt í undankeppni fyrir valið á heimsliðinu sem síðan myndi taka þátt í aðalkeppninni sjálfri í april, en þá á að aka þvert yfir þann hluta Borneó í Indónesíu sem kallast Kalimantan.

Næturhlaup meðal villtra hunda

Fyrir utan flugstöðvarbygginguna beið floti Land Rover-jeppa og var ekið í halarófu beint út úr borginni og að tjaldbúðum á litlu nesi við stórt uppistöðulón raforkuvers við Lalla-Takerkoust, um 35 kílómetra frá Marrakesh. Við fengum aðeins stutta stund til að ganga frá bakpokunum í tjöldunum því kallað var til fundar í matartjaldinu þar sem fara átti yfir verkefni næstu fimm daga. Að því loknu tók við fyrsta næturverkefnið, ellefu kílómetra þolhlaup í myrkrinu við vatnið. Keppendurnir fengu blað með leiðarlýsingu og. voru síðan ræstir einn af öðrum með 3ja mínútna millibili.

„Það var skrýtið að hlaupa í gegnum sveitaþorpin i myrkrinu. Leirkofarnir komu allt í einu í ljós í myrkrinu, hvergi var ljóstíru að sjá, hundarnir byrjuðu skyndilega að gelta og augun i þeim glóðu í skini höfuðljósanna sem við vorum með“, sagði Gunnar Örn eftir hlaupið.

„Við vorum hræddir um að snúa okkur í hlaupinu á krókóttum og ósléttum moldarstígunum, enda fór það svo að einn finnsku keppendanna sneri sig og varð að haltra til baka. Hinir luku flestir hlaupinu á rúmum klukkutíma. Næsta morgun, laugardag, var ræst klukkan sjö og eftir morgunmatinn settust menn á „skólabekk".“

Keppendum var skipt í þriggja manna hópa og skiptust á að prófa sig í akstri, spilvinnu, binda saman fleka og undirstöðuatriðum í fjallgöngum og bjargsigi. Um kvöldið var lagt upp í „næturleik" númer tvö. Eftir kvöldmatinn var safnast saman í matartjaldinu og mönnum skipt í hópa. Byrjað var á því að fara í „ratleik" á bílunum.

Keppendur fengu leiðarbók með vegalengdum og kennileitum og síðan var að sjá hvernig menn spjöruðu sig.

Haldið til fjalla

Það var enn hrollkalt á mánudagsmorgninum þegar menn skriðu úr svefnpokunum, þreyttir eftir kvöldið áður. Nú var fram undan tveggja daga leiðangur upp í Atlasfjöllin. Búðirnar við vatnið voru í um 620 metra hæð yfir sjó og nú lá leiðin i fjallaþorp Berba í meira en 2000 metra hæð en á leiðinni átti að leysa nokkrar þrautir.

Byrjað var á akstursíþróttum í gömlum árfarvegi í eyðimörkinni. Þetta var tímaþraut og ekið upp og niður brekkur og líktu íslensku keppendurnir þessu við gömlu malargryfjurnar við Jósepsdalinn þar sem menn keppa i torfæruakstri.

Þarna voru íslensku keppendurnir í essinu sínu og sýndu hinum Norðurlandabúunum hvernig á að aka við aðstæður sem þessar.

Eftir akstursþrautirnar var haldið áfram upp í Atlasfjöllin. Þar var ekið upp þröngan dal og sífellt verið að aka yfir sömu jökulána. Aksturslagið yfir árnar kom okkur Íslendingunum „spánskt" fyrir sjónir í þess orðs fyllstu merkingu en það voru einmitt Spánverjar sem höfðu skipulagt keppnina. Þegar komið var að árbakkanum var ekki staðnæmst til að skoða vaðið heldur bara ekið út í, oftast í einni halarófu. Ef vatnið reyndist of djúpt var bara bakkað upp úr og reynt á nýjum stað. Þá var oftar en ekki ekið beint á móti straumnum – nokkuð sem vanir jeppamenn hér á landi forðast eins og hægt er.

Vatnahlaup og bjargsig

Eftir tveggja tíma slark í ánni var komið að næsta „þrautastað". Þar voru Spánverjarnir búnir að strengja kaðla fram af 70 metra háu bjargi og nú áttu keppendur að fara tveir og tveir saman en einn hljóp á undan og fann „réttu" leiðina fyrir bílinn. Eftir nokkur hundruð metra „sull" i ánni var bíllinn stöðvaður og þá hlupu báðir upp á hamarinn og sigu niður í kaðlinum, aftur að bílnum og óku í mark.

Eftir þessa þraut fikruðu menn sig upp fjalladalinn og enn var farið margoft yfir ána. Eftir klukkutíma akstur var komið að þriðju þrautinni en það var að „spila" þrjá bíla upp snarbrattan árbakkann. Keppendum var skipt í þrjá hópa og fólst keppnin í því hvaða hópur yrði fyrstur upp með „sinn" bíl. Þeir byrjuðu á því að ráðast á árbakkann með hökum og skóflum áður en hægt var að tengja spilvírinn og draga bílana upp.

Eftir „spilmennskuna" var enn haldið upp dalinn og áð í litlu fjallaþorpi þar sem grjótkofarnir bókstaflega héngu utan í bröttum hliðum dalsins. Það var býsna óþægilegt að borða þarna ágætan málsverð á árbakkanum undir „eftirliti" heimamanna, sem ekki máttu bragða vott né þurrt allan daginn, en nú stendur yfir Ramadan, trúarhátíð íslamstrúarmanna, en þann tæpa mánuð sem hún stendur yfir mega þeir hvorki bragða vott né þurrt frá því klukkan sex að morgni til sex að kvöldi.

Náttstaður í þúsund metra hæð

Enn var haldið áfram upp í fjöllin en fram undan 'var náttstaður hjá Berbum í litlu fjallaþorpi í um eitt þúsund metra hæð yfir sjó. Þessir fjallabúar búa í sérstæðum leirkofum þar sem þeir efnameiri hafa komið því þannig fyrir að hár hlaðinn garður umlykur húsakynnin en híbýlin eru með fram garðveggjunum. í miðjunni er opinn garður með stóru eldstæði í miðju.

Þátttakendur og kennarar lögðu undir sig bústað höfðingjans í þessu litla fjallaþorpi. Það var óneitanlega sérstætt að koma sér fyrir í flatsæng i þessum leirkofum en á eldstæðinu voru húsráðendur að grilla heilt lamb í tilefni af komu okkar.

En áfram var haldið að hrella keppendur og að þessu sinni var „næturverkefnið" að skipta um bremsupúða og höggdeyfa á bílunum. Þarna kom kunnátta Íslendinganna í bílaviðgerðum sér vel.

Hlaupið á „Esjuna" í svartamyrkri

Næsta morgun var ræst fyrir klukkan sex og þá fengu keppendur að vita að verkefnið væri að hlaupa á fjall handan dalsins. Eitt augnablik sást ljóstíra á fjallinu en tveir Spánverjanna höfðu kvöldið áður gengið á fjallið og gist þar úti í svefnpokum.

Frá fjallaþorpinu sem við gistum i og upp á fjallstoppinn var ríflega þúsund metra hæðarmunur en toppurinn var í um 2.200 metra hæð.

Þetta var án efa eitt erfiðasta verkefnið sem lagt var fyrir keppendurna þessa fimm daga. Þeir urðu að byrja á  því að hlaupa út í náttmyrkrið og niður i dalbotninn og vaða þar straumharða á. Þaðan lá leiðin upp fjallið og í gegnum enn eitt fjallaþorpið þar sem nokkrir kolóðir hundar biðu þess að glefsa í hlauparana sem urðu að verja sig með því að henda steinum i átt að hundunum.

Bestir allra

Þrátt fyrir mikla hæð og niðamyrkur komust allir keppendurnir á toppinn og það kom í ljós að sjö fyrstu meðal norrænu keppendanna komu í mark á betri tíma en nokkrir aðrir keppendur frá hinum löndunum sem höfðu verið þarna á undan okkur. Það tók flesta keppendurna ekki nema um 70 mínútur að klífa þetta fjall en þetta er svipað og að hlaupa á Esjuna.

Á kaðli yfir 100 metra djúpt gljúfur

Strax að lokinni fjallgöngunni var enn haldið á brattann en fram undan var að aka yfir fjallaskarð í Atiasfjöllunum. Þar liggur grýttur vegarslóði í ríflega 2.200 metra hæð yfir fjallgarðinn en þar uppi beið síðasta þrautin.

Við lá að sumir keppendanna legðu árar í bát þegar síðasta þrautin blasti við. Spánverjarnir voru búnir að strengja kaðla yfir tæplega hundrað metra breitt og djúpt klettagljúfur. Þarna áttu strákarnir að byrja á því að draga sig á handafli yfir gljúfrið, hangandi neðan í köðlunum, þrír og þrír í einu.

Þaðan átti svo að síga niður í gljúfrið, hlaupa 400 metra á botninum og klifra upp þverhníptan bergvegginn með handaflinu einu saman með því að draga sig upp á kaðli.

Þegar upp yar komið varð að hlaupa á bjargbrúninni dálítinn spöl og fikra sig síðan aftur yfir gljúfrið á „apabrú" þar sem menn urðu að fóta sig á einum kaðli en höfðu að vísu tvo til stuðnings. Þegar yfir var komið voru keppendur festir við trissu og renndu sér síðan niður kaðal sem strengdur hafði verið skáhallt niður á botn gljúfursins. Þar tók svo við lokaáfanginn sem var að hlaupa upp gilskorning upp úr gljúfrinu og þá komust keppendurnir loks í endamark.

Um leið og við komum að gljúfrinu fór heimamenn að drífa að og þegar „þrautagangan" hófst voru fjallabúarnir komnir í stórum hópum, sumir um langan veg, enda lítið um að vera í þessum heimshluta.

Það var farið að halla að kvöldi þegar bílalestin fór að fikra sig aftur niður Atlasfjöllin. Viðburðaríkir dagar í Afríku voru senn á enda og flugferðin heimleiðis fram undan snemma næsta morgun.

Að þessu sinni komst enginn Íslendinganna áfram í undanúrslitin sem áttu fara fram í Sevilla á Spáni. Til þess liggja eflaust nokkrar ástæður. Keppendurnir annars staðar af Norðurlöndum áttu að baki langa og stranga keppni í sinu heimalandi áður en þeir fengu farseðilinn til Marokkó í hendur. Þar urðu menn að leggja á sig miklar þolraunir og fjallgöngur ásamt því að æfa sig í akstursþrautum á bílum sömu gerðar og notaðir eru í Camel Trophy þolakstrinum.

En við megum samt vel við una. íslensku strákarnir þrír „rúlluðu" keppinautunum upp þegar kom að akstrinum og öllu sem viðkom bílunum.

„Þar standið þið greinilega fremstir allra," var samdóma álit dómaranna sem voru flestir frá Norðurlöndunum, auk eins Belgíumanns, en samsetning dómarahópsins hefur án efa haft sín áhrif

á útkomuna, en með fjölgun norrænu keppendanna úr tveimur í fjóra eygja hin Norðurlöndin þá von að koma hvert einum keppanda í keppnisliðið sem fer til Kalimantan á Borneó í apríl.

„Við gerum bara betur næst," var samdóma álit íslensku keppendanna þegar úrslitin lágu fyrir.

„Við vitum nákvæmlega núna út í hvað við erum að fara. íslendingarnir fengu líka mörg hvatningarorð frá hinum keppendunum, enda ætla allir þeir sem ekki komust í undanúrslitin að reyna að sækja um aftur og komast í keppnisliðið að ári.“

Þetta var upprifjun á því þegar íslenskir keppendur reyndu að komast í eina erfiðustu þolaksturskeppni á bílum sem keppt var á í heiminum.

Sett inn
2/8/2021
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoð allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.