Get ég fengið raflost í rafmagnsbíl?

Margir hafa spurt þessarar spurningar frá því rafmagnsbílum fór að fjölga. Nei, er stutta svarið, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því.

Lengra svarið krefst útskýringa. Ef þú grípur um báða pólana á 12 V rafgeymi gerist alls ekki neitt nema kannski ef þú ert með hjartagangráð.

Straumur (mældur í Amperum) sem kemur frá rafgeymum er jafnstraumur DC. Rafgeymar eða sellur í rafmagnsbíl eru raðtengdar til að fá háa spennu (mæld í Voltum). Tveir raðtengdir 12 V rafgeymar gefa 24 V, þrír 36 V og svo framvegis.

Rafkerfið, þar með talið rafgeymar og rafleiðslur, í rafmagnsbílum er mjög vel einangrað og varið.  Það hafa bæði árekstraprófanir og áralöng reynsla sýnt.

Til að fá raflost í rafmagnsbíl þarf maður að vera mjög óheppin/n. Eða leggja mikið á sig til að finna kaplana tvo sem koma frá raðtengdum rafgeymunum eða sellunum sem eru mjög óaðgengilegir og grípa svo um endana og hver nennir að standa í því?

Í rauninni eru bara viðbragðsaðilar eftir árekstur og bifvélavirkjar sem eru að vinna við rafmagnsbíla þeir einu sem eru í einhverri hættu. En þeir eru þjálfaðir í því að eiga við rafmagnsbíla.

Það er vissara að fara varlega þegar rafmagn er annars vegar.

Það er rétt að taka það fram að það er ekki rafspennan sem drepur heldur er það rafstraumurinn sem gerir það.

Sem dæmi þá geta háspennukefli í bíl verið á bilinu 20.000 til 50.000 V. Undirritaður hefur fengið í sig marga neista eða straum úr slíku háspennukefli og getur vottað um það að það er afskaplega vont á meðan á því stendur en enginn skaði hlaust af því. Ef það hefði verið um að ræða rafstraum 0,1 til 0,2 A eða hærri í gegnum heila eða hjarta og enginn nálægur til að veita fyrstu hjálp væri einhver annar skrifaður fyrir þessari grein.

Sett inn
18/3/2020
í flokknum:
Tækni

Fleiri fréttir úr flokknum:

Tækni

skoð allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.