1932 Duesenberg J Figoni Sports Torpedo valinn „Best of Show“ á Pebble Beach

Dómarar í keppni um fallegasta bílinn á 2022 Pebble Beach Concours d'Elegance veittu hin virtu „Best of Show“ verðlaun (eða „besti bíllinn á sýningunni“) einstökum 1932 Duesenberg J Figoni Sports Torpedo. Þetta er í fyrsta sinn sem amerískur bíll hlýtur titilinn „Best of Show“ síðan 2013 og er sjöundi vinningur Duesenberg merkisins.

Bíllinn er í eigu Lee R. og Penny Anderson og á sér heillandi sögu.

Honum var úthlutað undirvagnsnúmeri 2509 og sendur án yfirbyggingar til Motors Deluxe í París. Þetta var algengt á tímum þegar vagnasmíði blómstraði. Franski vagnasmiðurinn Joseph Figoni setti á þennan Duesenberg einstaka Sports Torpedo yfirbyggingu og skilaði honum til Motors Deluxe eigandans E.Z Sadovich, sem síðan ók bílnum í Paris-Nice rallinu áður en hann afhenti bílinn upprunalegum eiganda sínum; sykurerfingja frá Perú að nafni Antonio Chopitea.

Chopitea sýndi sinn nýja Duesenberg á móti sem haldið var í Cannes og vann Grand Prix. Það sem gerðist næst er enn svolítið á huldu: Það sem er öruggt er að Duesenberg fór til Bandaríkjanna árið 1933 og missti Figoni-hannaða yfirbygginguna á sjöunda áratugnum. Undirvagninn endaði með annarri yfirbyggingu í áratugi á meðan upprunalega yfirbyggingin var sett á annan bíl af gerð Model J, að sögn Hagerty.

Sem betur fer komust báðir bílarnir á sama safnið. Anderson keypti tvíeykið og hóf hið langa, nákvæma ferli við að endurbyggja undirvagn 2509.

Hann lagði gríðarlega mikla vinnu í jafnvel minnstu smáatriði. Hann rakti sérstaklega upp upprunalega sveifarásinn sem settur var í átta strokka línuvélina sem hafði verið komið fyrir í bíl sem staðsettur var í Vancouver. Eigandinn samþykkti að útvega íhlutinn fyrir verkefni Anderson.

Hin magnaða endurreisn skilaði árangri: Model J frá Anderson sigraði 39 aðra bíla þegar hann var valinn sá besti á Pebble Beach sýningunni, sem margir í fornbílaheiminum telja eftirsóttustu verðlaunin.

„Allur undirbúningurinn — sagan á bakvið þennan bíl er bara mögnuð. Það er bara einn Figoni Duesenberg, alltaf, og það er þessi hérna. Svo, það er eins og allir þessir hlutir samankomnir búi til alvöru meistara. Við erum svo spennt,“ sagði Anderson.

Listinn yfir þá sem tilnefndir voru Best of Show innihélt einnig 1937 Talbot-Lago T150C-SS Figoni & Falaschi Teardrop Coupé, 1930 Duesenberg J Graber Cabriolet, og 1951 Talbot-Lago T26 Grand Sport Stabilimenti Farina Cabriolet. Svona til „huggunar“ náði 1937 Talbot-Lago fyrsta sæti í lokuðum European Classic flokki, 1930 Duesenberg vann Graber Coachwork Early class og 1951 Talbot-Lago vann fyrsta sæti í Talbot-Lago Grand Sport flokki.

(frétt á vef Autoblog)

Þessu tengt: 

Flottasti bíll allra tíma

Monterey bílavikan á Pebble Beach í myndum

Sett inn
24/8/2022
í flokknum:
Fornbílar

Fleiri fréttir úr flokknum:

Fornbílar

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.