Þessi er reyndar smá feikaður en flottur er hann. Í sölulýsingu segir að upprunalegt stál sé í grind bílsins og yfirbyggingin sé sú sama og þegar hann rúllaði af færibandinu í Detroit í denn.
Til að geta kallað bílinn Ford er í honum Ford 302, V8 með C4 sjálfskiptingu en flest annað er smíðað eftir auganu. Bíllinn er með nútímafjöðrun, 9 tommu Ford afturöxul, nýja mæla með „vintage“ yfirbragði og diskabremsur allan hringinn.
Hann er til sölu kagginn og kostar um 110 þúsund dollara (um 15,2 milljónir).
Markaði ákveðin tímamót
Ford Sedan 1934 er lifandi táknmynd bíla fjórða áratugarins sem skipar mikilvægan sess í bílasögunni.
Hann var hluti af Ford línunni á þeim tíma þegar bílaiðnaðurinn var í örri þróun og Ford Motor Company var ráðandi afl.
Einfaldur bíll fyrir almenning
Ford Sedan ’34 var hluti af Model 40 seríunni, sem markaði breytingu á hönnunarstefnu Ford.
Ford þessi var hannaður af syni Henry Ford, Edsel Ford, og teymi hans.
Á þessari árgerð voru kynntar nokkrar athyglisverðar breytingar, þar á meðal straumlínulagaðri yfirbygging miðað við kantaða hönnun forveranna. Hönnunin samanstóða af hreinum línum, ávölum brúnum mýkra heildarútliti.
Undir húddinu voru þessir bílar venjulega búnir flathead V8 vél, sem var stór vél á þessum tíma. Þessi vél var mjög öflug og áreiðanleg og setti nýjan staðal fyrir afköst í bílum á viðráðanlegu verði.
Nokkrar útfærslur
Ford Sedan 1934 var fáanlegur í ýmsum gerðum, þar á meðal tveggja dyra og fjögurra dyra fólksbifreiðum. Vinsældir bílsins meðal almennings ökumanna hafa gert hann að viðvarandi tákni klassískra amerískra bíla.
Hönnun, frammistaða og menningarleg þýðing bílsins hefur fest sig í sessi í bílasögunni en hann er talsvert eftirsóttur sem safngripur enn í dag.
Almennt voru þessir bílar um það bil 65 til 85 hestöfl, allt eftir útfærslu og gerð.
Hvað varðar afköst gat bíllinn náð um 60-70 mílna hraða á klukkustund (96-113 km á klukkustund) allt eftir uppsetningu vélarinnar.
Eddie Van Halen gítargúrú á einn af flottari gerðunum af Ford 1934 og skötuhjúin Bonnie og Clyde óku einnig 1934 árgerð af Ford 40B, Fordor Sedan kallaður en hann er af sama meiði og sá er um ræðir í greininni.
Byggt á sölulýsingu á vef RK motors.
Umræður um þessa grein