2023 BYD Tang, vandaður og þéttur sportjeppi!

Tegund: BYD Tang

Árgerð: 2023

Orkugjafi: Rafmagn

Afl, hönnun, útlit og gæði
Öryggishljóð í hægum akstri
256
DEILINGAR
2.3k
SMELLIR

Það verður að segjast að talsverð eftirvænting hefur verið meðal rafbílageirans eftir að ljóst varð að einn stærsti bílaframleiðandi heims ætlaði að hefja sölu á kínversku BYD rafbílunum í samvinnu við Vatt ehf.

Sportjeppinn frá BYD er hannaður af þjóðverja, fyrrum hönnuði hjá Audi.

Þrír bílar voru kynntir til leiks hjá umboðinu síðustu helgi og vorum við hjá Bílablogg svo heppin að fá að reynsluaka einum þessara bíla nýverið.

Sá er sportjeppinn í línunni og heitir BYD Tang.

Sterklegur framendi og ekkert sérlega rafbílalegur.

Heimsþekktur hönnuður

Það er ekkert bull sem segir í bæklingnum á netinu um bílinn „BYD Tang heillar líka að utan verðu með sportlegri og aðlaðandi hönnun hins heimsþekkta hönnuðar Wolfgang Egger.” Egger þessi er Þjóðverji fæddur árið 1963 og starfaði lengi hjá Audi sem hönnuður.

Hönnun bílsins er öll hin fagmannlegasta og eftirtektarvert hversu vandaður frágangur er á öllu.

Nýjasta gerð rafhlaða

Ef við skoðum aðeins rafhlöðueininguna í þessum bíl er hún talsvert frábrugðin þeim sem við eigum að þekkja í megninu af rafbílum dagsins í dag. Við erum að tala um svokallaða blade-rafhlöðueiningar sem raðast saman eins og harðir diskar í tölvunni þinni.

Þeir taka minna pláss, eru léttari og leiðnin á að vera meiri í þessum rafhlöðum.

Og það er ekki kóbalt í þeim en kóbalt er skaðlegt efni sem gott er að losna við úr batteríunum.  Við hvetjum ykkur til að horfa á myndbandið með þessari grein.

Sætin eru þægileg og þau eru bæði með hita og kælingu.

Hér er nægt pláss en fullþröngt fyrir fullorðinn í öftustu sætaröðinni.

Góð drægni

Rafhlaðan tekur um 86,4kWst. og það tekur um 30 mínútur að hlaða frá 30-80% af rafhlöðunni í hraðhleðslu. Bíllinn getur tekið við allt að 120 kW á klukkustund.

Eyðslan er uppgefin frá framleiðanda um 180 kWst. á hverja 100 kílómetra sem verður að teljast gott svo aflmikinn bíl. Drægni skv. WLTP staðli er frá 400-528 kílómetrum – allt eftir notkun bílsins. Þú átt að geta farið allt að 528 kílómetrum í innanbæjarakstri.

BYD þýðir „build your dreams“. Ég gæti hæglega trúað því að þessi bíll muni uppfylla drauminn um óskabílinn hjá ansi mörgum.

Aðgengi er frábært – hurðir opnast vel og gott að setjast inn og stíga út úr bílnum.

Hátt tæknistig

BYD connect appið er talsvert fullkomið og meðal annars er hægt að fylgjast með stöðu rafhlöðunnar, læsa hurðum, opnað og lokað sóllúgunni, ræst og drepið á bílnum og tímastillt loftfrískunarkerfið.

Það er fátt betra en að hita bílinn upp á köldum vetrardegi og hafa hann kláran til aksturs þegar maður ætlar af stað.

Skjár sem snýst

Reyndar skoðuðum við ekki margmiðlunarkerfið í þaula en það er Android drifið kerfi sem býður upp á fjölda appa í því umhverfi, leiðsögukerfi og öflug Dirac hljómflutningstæki með 12 hátölurum.

Hins vegar hefur mér fundist kínverjarnir vera örlítið aftar á merinni hvað þessi kerfi varðar en aftur á móti finnst mér langt í frá að þau skipti einhverju meginmáli í öruggum og þægilegum akstursbíl.

Brembo bremsubúnaður.

Sérþekking á rafhlöðuframleiðslu

BYD fyrirtækið sérhæfði sig í framleiðslu rafhlaða allt frá 1995. Þið munið eflaust eftir Nokia og Motorola símunum en mjög líklega voru rafhlöður frá BYD í þeim.

Nú er BYD einn stærsti bílaframleiðandi í heimi og hefur tekið tæknina skrefi framar en margir eldri bílaframleiðendur.

Lúxus frágangur og innanrými

Skoðum bílinn aðeins betur. Allt innvols í bílnum er sérlega vandað. Sætin eru þægileg, vel bólstruð og halda vel við bak og fætur.

Hiti og kæling er í sætum. Við akstur er mjög auðvelt að finna réttu stellinguna þar sem framsæti eru rafdrifin og hægt að stilla sína þægindastellingu upp á millimeter.

Sprettharður

Þegar stigið er á orkugjöfina er eins og þú leysir eitthvað ofurafl úr læðingi. Bíllinn er ótrúlega snöggur og upptakið samt áreynslulaust. Stýrið er nákvæmt og fjöðrun er til fyrirmyndar.

Til dæmis finnur maður lítið fyrir illa slitnum Vesturlandsveginum og það á 22 tommu felgum með lág prófíls dekkjum. Uppgefin tími frá 0-100 km/klst. er 4,6 sekúndur.

BYD Tang kemur á 22 tommu álfelgum og dekkjum með lágum prófíl. Samt sem áður er bíllinn passlega stífur og lítið veghljóð.

Fullur af öryggi

Öryggisbúnaður í þessum bíl er í öndvegi. Bíllinn er fullur af loftpúðum, hliðarloftpúðum, gardínuloftpúðum ásamt fjölda árekstrarvarnarkerfa. Loftpúðar einnig afturí. Bremsubúnaðurinn í svo öflugum bíl þarf að vera í lagi. Að framan eru Brembo bremsukerfi með götuðum diskum sem kæla betur.

Stór miðjustokkur og furðuhljóð í hægum akstri

Frammí er þokkalegt fótapláss en hurðarhandfang og miðjustokkur gera að verkum langir fætur á mér rákust sitthvoru megin í hurð og miðjustokk.

Ég er viðkvæmur fyrir aðskotahlutum á þessu svæði en á móti kemur að hægt er að stilla sæti og stýri á nær óteljandi vegu svo þetta kemur ef til vill ekki að sök – og venst án efa.

Ég tek fram að þetta er svona í næstum því öllum nýjum bílum í dag – þó ekki til dæmis VW ID.4 og ID.5.

Ef eitthvað má að finna er öryggishljóðið sem bíllinn gefur frá sér í hægum akstri það eina sem mér finnst smá pirrandi. Spurning hvort hægt sé að slökkva á þessu?

Japanir voru ekki hátt skrifaðir í denn

Reyndar eru ekki nema rúmlega 50 ár síðan fyrstu japönsku bílarnir fóru að sjást á Íslandi. Var þá mál þaulreyndra á sviði bíla á þeim árum að Japanir kynnu nú ekki að framleiða bíla, þetta væru upp til hópa druslur og var þá verið að tala um bíla eins og Mazda og Toyota.

Við skulum því ekki dæma bíl út frá því hvar hann er settur saman. Til að mynda er Tesla framleidd í Kína, VW ID.4, Volvo og Polestar líka svo einhver dæmi séu tekin. Að því sögðu skulum við skoða hagkvæmni þessa ökutækis.

Hér má alveg sjá smá Audi svip enda hugmyndasmiðurinn alinn upp innan Audi samsteypunnar.

Frábær kostur á góðu verði

BYD Tang er fjórhjóladrifinn sportjeppi sem hentar vel stærri fjölskyldum. Tang er boðinn í sjö sæta útgáfu hjá Vatt ehf. og plássið er gott í bílnum. Aftursæti eru á sleðum, farangursrýmið er um 940 lítrar fyrir aftan aðra sætaröðina.

Með þriðju sætaröðina í notkun er samt hægt að koma fyrir farmi sem nemur allt að 260 lítrum. Svo er hægt að hlaða allt að 75 kg. á toppgrind.

Hér er hæð undir lægsta punkt ekki nema 15 sm.

Hagkvæmur fyrir breiðan hóp

Þessi bíll er tilvalinn fyrir fólk sem ferðast með mikið af farangri. Þar sem bíllinn er sérlega lipur og aflmikill er hann pottþéttur í skrepp og skutl sem aðal fjölskyldubíllinn.

Fyrir þá sem stunda golf eða kajaksiglingar er þetta kjörinn bíll þar sem hægt er að nota toppinn sem flutningsmáta og tvö stór golfsett smjúga léttilega afturí.

Helstu tölur:

Verð kr. 10.680.000

Afl mótors: 509 hö.

Tog: 680 Nm.

Drægni: 400-528 km. skv. WLTP staðli

Hleðslugeta: 120 kW á klst.

Hleðslugeta með heimastöð: allt að 11 kW á klst.

Stærð rafhlöðu: 86,4 kWst.

Lengd/breidd/hæð: 4.870/1.950/1.725 mm.

Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar