100% rafdrifinn Breti af kínverskum ættum

TEGUND: MG ZS

Árgerð: 2020

Orkugjafi:

Rafmagn

Verð, frágangur og akstursþægindi
Næm akreinastýring
140
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

100% rafdrifinn Breti af kínverskum ættum

Breski MG bílaframleiðandinn sem nú er í eigu Kínverja lætur ekki deigan síga. Nýverið settu þeir á markað 100% rafmagnsbíl af gerðinni MG ZS sem er lítill og skemmtilegur sportjepplingur sem hugsaður er sem samkeppni við bíla eins og Mazda CX3 og Nissan Juke svo eitthvað sé nefnt.

Glæsilegur 100% rafmagnsbíll frá MG.

Við Pétur R. Pétursson hjá Bílabloggi tókum góðan rúnt á þessum knáa bíl og vissum í raun ekkert við hverju var að búast. Það kom hins vegar þægilega á óvart hversu skemmtilegur bíll er þarna á ferð.

Þægilegur í akstri, hljóðlátur og á alveg frábæru verði og ekki skrítið að MG hafi aukið við sölu í tugprósentavís á meðan aðrir bílaframleiðendur sambærilegra bíla hafa þurft að búa við samdrátt.

Lítill en samt stór

MG sport-lingurinn er ekki stór þannig séð – ekki fyrr en þú sest inn í bílinn. Gott fótapláss, góð yfirsýn og útsýni, sest beint inn en ekki niður og sérlega vel hönnuð innrétting sem gleður augað. Það er eftirtektarvert hversu vel er frá innréttingu bílsins gengið. Efnisval er til fyrirmyndar og frágangur er vandaður. Mælaborðið úr mjúkum yfirborðsefnum og fallegur ísaumur gera smáatriðin áhrifamikil.

Sætin halda vel við og allur frágangur er sérlega vandaður.
Nóg pláss fyrir hávaxna fullorðna afturí.

Hljóðlátur og nægilega kraftmikill

Við ókum sem leið lá austur til Þingvalla og fórum Nesjavallaleiðina eins og svo oft áður er við höfum reynsluekið nýjum bílum. MG bíllinn er sérlega hljóðlátur og veghljóð lítið. Það er að sjálfsögðu ekkert vélarhljóð sem spillir kyrðinni út í náttúrinni þegar ekið er á löglegum hraða en vindgnauð og veghljóð er afar lítið.

8 tommu snertiskjár með Apple CarPlay og Android Auto.

Góð sæti og halda vel við

Við reynsluókum MG ZS Luxury sem er dýrari týpan af tveimur í boði hjá BL. Sá bíll er með leðurlíki á sætum og stóru glerþaki sem opnar vel fyrir birtu og gerir aksturinn enn ánægjulegri. Luxury gerðin kemur einnig á 17 tommu álfelgum en 16 tommu slíkar eru staðalbúnaður. Hann er útbúinn brekkubremsu, aðvörun á hliðarumferð, rafdrifnu ökumannssæti, bakkmyndavél og blindhornaviðvörun ásamt 6 hátölurum.

Annars er grunngerðin, Comfort bíllinn, mjög vel búinn staðalbúnaði.

17 tommu álfelgur í Luxury gerðinni en 16 tommu álfelgur í Comfort útfærslunni.

Ríkulegur staðalbúnaður

Við erum að tala um akreinastýringu, akreinavara, rafdrifna handbremsu, aðvörunarkerfi fyrir aftanákeyrslu, sjálvirk há og lág ljós, lyklalaust aðgengi, skynvædda hraðastillingu, hitun og kælingu á rafhlöðu og hleðslukapla.

Bíllinn fæst í skemmtilega björtum og flottum litum.

Drægni MG ZS er um 263 kílómetrar skv. WLTP mælingarstaðlinum. Hann er að skila um 143 hestöflum sem er fyllilega nægilegt afl fyrir þennan bíl. Bíllinn tekur vel af stað og er með fína hröðun. Eina sem setja mætti spurningamerkið við er drægnin – nægja 263 kílómetrar á dag fyrir venjulega notkun? Ef við skoðum notkun á venjulegum fjölskyldubíl nota flestir bílinn til og frá vinnu, sækja börnin í skóla eða aka þeim í frístundir, farið í búðina í leiðinni og svo kíkt í kaffi til Siggu frænku á leiðinni heim. MG ZS rafmagnsbíllinn hentar fullkomlega fyrir þessa notkun.

Ef við ætlum hinsvegar í lengri ferðir þyrftum við ef til vill að gera ráðstafanir. Og það er hægt – því hægt er að hlaða 45.5 kWh rafhlöðuna upp í 80% á um það bil 35 mínútum. Það er pulsa og kók í Borgarnesi á leiðinni á Blönduós.

Ljúfur og þægilegur í akstri

MG ZS rafbíllinn er ekkert öðruvísi en aðrir bílar í sama stærðarflokki í akstri – nema að það gæti verið betra að aka honum en mörgum öðrum. Stýrið er létt, kannski fyndist sumum það of létt en við slökktum á akreinastýringunni því okkur fannst stýrið fullhjálpsamt á stundum.

Mælaborðið er klætt mjúku yfirborðsefni og innréttingin er sérlega falleg og vönduð.

Það besta

Verðið er frábært og segja má að ekki sé um auðugan garð að gresja varðandi bíl í þessum stærðar- og gæðaflokki sem kostar jafn lítið og þessi bíll. Já, ég myndi kaupa mér svona bíl strax á morgun ef ég væri að spá í rafbíl sem fjölskyldubíl í borgina og styttri ferðir í nærsveitir.

Prýðilegt skottpláss.

Helstu tölur:

Verð frá: 3.990.000 (Reynsluakstursbíll 4.390.000)

Hestöfl: 143

Drægni: 263 km

Rafhlaða: 44.5 kWh

CO2: 0g/100km

Eigin þyngd: 1.566kg

L/B/H: 4.314/1.809/1.644mm

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar